Samgönguráðherra og dómsmálaráðherra afhjúpuðu fyrr í dag nýtt skilti til viðvörunar ökumönnum. Ráðherrarnir hafa sent frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu vegna þessa.
Fréttatilkynning frá dómsmálaráðherra og samgönguráðherra:

Merkingar á slysasvæðum

Fyrsta nýja vegamerkið um hættulega staði við þjóðvegina hefur verið sett upp á Hringveginum við Seleyri undir Hafnarfjalli. Á hinum nýju merkjum koma fram aðvaranir til ökumanna um hættur sem framundan eru, svo sem margar krappar beygjur, einbreiðar brýr eða vegarkafli þar sem slys hafa reynst sérstaklega tíð og alvarleg. Mörg alvarleg slys verða á hverju ári á þjóðvegum landsins. Eiga þau oft rætur að rekja til þess að ökumenn hafa ekki tekið nægilegt tillit til aðstæðna. Merkin hvetja ökumenn til þess að sýna nauðsynlega aðgæslu.

Framkvæmdir í vegagerð hafa verið óvenju miklar á undanförnum árum. Meðal annars hefur verið lögð áhersla á að fækka hættustöðum í vegakerfinu. Á sama tíma hefur bílafloti landsmanna hins vegar stækkað mikið og umferð og umferðarhraði aukist verulega. Slysum hefur því ekki fækkað samfara batnandi vegakerfi, heldur hefur þróunin gengið í gagnstæða átt.

Nú hafa í fyrsta sinn verið sett upp umferðarmerki sem vara ökumenn við að þeir aki vegarkafla þar sem slys hafa reynst sérstaklega tíð og alvarleg. Þetta er nýlunda og eru þessi umferðarmerki nokkuð ólík eldri merkingum. En slysum fjölgar og því er nú þessi tilraun gerð. Skilaboðin eru á íslensku og því sérstaklega beint til innlendra ökumanna en vonandi skilja erlendir ökumenn einnig að varúðar sé þörf á viðkomandi svæðum.

Vegagerðin leggur mikla vinnu í að skrá slys sem verða á þjóðvegakerfinu. Þannig finnast svokallaðir “svartir blettir” eða vegarkaflar sem reynast sérstaklega hættulegir. Slysin eru flokkuð og merkt inn á kort og þannig má í sjónhendingu gera sér grein fyrir í hverju hættan liggur. Markmiðið er auðvitað að bæta vegarmannvirkið þannig að slysahættan minnki. Það þarf að breikka brýr, lagfæra beygjur eða taka af blindhæðir. En stundum er óljóst hvað betur má fara. Legu vegarins er þá í engu ábótavant svo merkjanlegt sé en samt verða þar mörg slys. Þá reynast ástæðurnar því miður oft vera of hraður akstur eða andvaraleysi ökumanna. Aksturinn virðist auðveldur, hraðinn eykst og athyglin dvínar. Þá þarf lítið útaf að bregða til að ökumaðurinn missi stjórnina og stundum endar það með alvarlegu slysi.

Í þessari lotu hafa sex staðir verið merktir sérstaklega og kemur fram í texta og táknum í hverju hættan liggur. Haldið verður áfram með þessa vinnu og fleiri staðir verða merktir. Reynslan mun síðan ráða hvort haldið verði áfram á þessari braut til frambúðar. Einhver merkjanna munu vonandi úreldast þegar vegurinn hefur verið lagfærður.

En merkingar einar og sér duga skammt. Grundvallarreglan er að haga beri akstri eftir aðstæðum og það er ökumaðurinn sem skal meta þær og bera ábyrgð á akstrinum. Það er vegurinn framundan og ástand hans sem er skýrasta aðvörunarmerkið. Ef um er að ræða mjóan viðhaldslítinn malarveg er líklegt að aðstæður bjóði ekki upp hraðan akstur. Beinn vegur með bundnu slitlagi getur virst greiðfær en einhversstaðar er næsta beygja. Þá er mikilvægt að vera vakandi fyrir varúðarmerkjum og öðrum vísbendingum, svo sem breytingum í landslagi. Jafnvel leiðir sem ökumaðurinn telur sig þekkja vel geta reynst hættulegar þegar skepnur birtast skyndilega eða kyrrstæðar bifreiðir standa á veginum. Það er aldrei hægt að aka eftir minni.

Það eru Vegagerðin, Umferðarráð, ríkislögreglustjóri og dómsmálaráðuneyti sem hafa haft samráð um þessar nýju merkingar. Þær eru þáttur í umferðarátaki dómsmálaráðherra undir yfirskriftinni “Bætt umferðarmenning – burt með mannfórnir”.

Dómsmálaráðherra, Sólveig Pétursdóttir
Samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson