Fyrr í dag ávarpaði samgönguráðherra aðalfund Samtaka ferðaþjónustunnar. Ræða ráðherra fer hér á eftir í heild sinni.
Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra:
Ræða flutt á aðalfundi SAF 4. apríl 2001.

Fundarstjóri , ágætu fundargestir!

Mér er það sönn ánægja að ávarpa þennan glæsilega aðalfund SAF. Þessi mikli fjöldi aðalfundargesta sem mættur er hér í dag er óræk sönnun um styrk og nauðsyn þessara ungu samtaka.

Eitt er það í þjóðfélagsumræðunni sem ekki hefur farið fram hjá nokkrum manni að undanförnu, en það eru málefni Reykjavíkurflugvallar. Ég vil hér í upphafi ræðu minnar fjalla nokkuð um það mál, í ljósi þess hve Reykjavíkurflugvöllur skiptir framtíð íslenskrar ferðaþjónustu miklu máli.

Íbúum Reykjavíkur var gefinn kostur á því að kjósa um það hvort Reykjavíkurflugvöllur eigi að fara eða vera eftir 15 ár. Ákvörðun borgaryfirvalda um að efna til þessarar atkvæðagreiðslu hefur vakið upp margar spurningar um framtíð innanlandsflugs hér á landi – og í raun um framtíð ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni. Umræðan hefur einkum snúist um hlutverk og skyldur höfuðborgarinnar, skipulagsmál miðbæjarins og hvaða afleiðingar það hafi ef miðstöð innanlandsflugsins fer úr borginni.

Hvað sem líður niðurstöðum atkvæðagreiðslunnar, er ljóst að miklar breytingar eru fyrirsjáanlegar á Reykjavíkurflugvelli og nánasta umhverfi hans á næstunni. Um leið og ráðist verður í uppbyggingu og endurbætur á flugvellinum er gert ráð fyrir að umfang flugstarfseminnar muni minnka, ein flugbraut verði lögð af og umhverfi vallarins fegrað.

Endurbætur á Reykjavíkurflugvelli voru löngu tímabærar. Því var það fagnaðarefni þegar Alþingi samþykkti að leggja fjármuni til endurbyggingar Reykjavíkurflugvallar.
Í kjölfar ákvörðunar Alþingis gerði ég sem samgönguráðherra samkomulag við borgarstjórann í Reykjavík í júní 1999 þess efnis að Reykjavíkurflugvöllur skyldi vera miðstöð innanlandsflugs samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur sem gildir til 2016. Jafnframt samþykktu borgaryfirvöld deiliskipulag fyrir flugvöllinn. Ákveðið var að draga úr umfangi snertilendinga og kennsluflugs á Reykjavíkurflugvelli og hefur það þegar verið gert að vissu marki.

Með breytingum á skipulagi Reykjavíkurflugvallar nást mikilvæg markmið. Annars vegar fær borgin verulegt landrými til uppbyggingar íbúða og atvinnustarfsemi. Hins vegar er ráðist í langþráðar endurbætur á flugvellinum og uppbyggingu miðstöðvar innanlandsflugsins sem ekki þolir bið.

Staðreyndin er sú að innanlandsflug er umfangsmeira en nokkru sinni fyrr. Stöðug aukning hefur verið í fjölda farþega í áætlunarflugi síðustu 30 árin. Á síðasta ári fóru 440 þúsund farþegar með áætlunarflugi um Reykjavíkurflugvöll. Ef sama þróun heldur áfram munu 700 til 800 þúsund farþegar fara um völlinn árið 2020. Núverandi flugstöð er ófullnægjandi og tímabært að byggja nýja. Jafnframt hafa verið uppi hugmyndir um að tengja miðstöð áætlunarbifreiða nýju flugstöðinni, eins konar þjónustumiðstöð samgöngumála landsins.

Ekkert samkomulag er milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um land fyrir annan flugvöll. Afstaða mín í þessu máli var því mjög skýr. Ég taldi aðeins um tvo kosti að ræða, það er hvort miðstöð innanlandsflugs eigi að vera þar sem hún er í dag í Reykjavík eða flytjast til Keflavík. Flutningur innanlandsflugsins til Keflavíkur mundi gjörbreyta forsendum þess sökum fjarlægðarinnar frá höfuðborginni. Því hefur verið spáð að samdráttur í áætlunarflugi gæti orðið allt að 40%. Talsmenn íslenskrar ferðaþjónustu, líkt og stjórn SAF, lögðust í því ljósi hart gegn þeim áformum að færa innanlandsflugið til Keflavíkur.

Nátengt umræðunni um framtíð Reykjavíkurflugvallar eru framtíðarmöguleikar ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni. Þegar litið er til umræðunnar undanfarið og í reynd undanfarin misseri þá hefur SAF bent á að rekstrarvandi greinarinnar væri hvað mestur hjá heilsársgististöðum utan höfuðborgarsvæðisins. Því gæti komið til álita að velta upp hugmyndum að sértækum aðgerðum hvað varðar þennan hluta greinarinnar. Ekki er hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að þó svo að Reykjavík sé loksins sannanlega orðin að viðkomustað ferðamanna allt árið um kring blasir annar og erfiðari veruleiki við úti á landi. Stærsta fyrirtækið í íslenskri ferðaþjónustu virðist ekki sjá mikla möguleika fyrir ferðaþjónustu á landsbyggðinni eins og er – hótel á landsbyggðinni eru seld, innanlandsflugið dregið saman hvað fjölda áætlunarstaða varðar, og allur meginþungi markaðssetningarinnar virðist vera á Reykjavík – og nágrenni.

Ég tel augljóst að framtíð ferðaþjónustunnar liggi í því að við horfum til landsins alls. Þó verðum við að vera raunsæ, og því leyfi ég mér að varpa fram þeirri hugmynd hér í dag, til frekari umræðu, hvort orðið sé tímabært að horfa til framþróunar ferðaþjónustu á landsbyggðinni í ákveðnum markaðs- eða vaxtarsvæðum. Þá er ég með í huga landfræðilega afmörkuð svæði á landsbyggðinni þar sem dregin yrði fram sérstaða og aðdráttarafl hvers svæðis fyrir sig, sérstætt náttúrufar, landshættir, saga, menning.

Við getum ekki gert ráð fyrir að fjárfesting í stórum hótelum á öllum þéttbýlisstöðum borgi sig. Höfuðborgarsvæðið er sjálfbjarga og væntanlega aðliggjandi svæði, upp fyrir Borgarnes og austur fyrir Árborg. Af þessu svæði tel ég óþarft að hafa sérstakar áhyggjur. Aftur á móti bið ég ykkur að hugleiða hvort svæðaskiptin sem þessi sem sjá má hér á tjaldinu sé eitthvað sem vert sé að skoða nánar sem átaks- eða vaxtarsvæði feraþjónustunnar á næstu árum.

Hugmyndin gengur út á að líta lengra fram í tímann en oft áður hvað varðar uppbyggingu í ferðaþjónustu á afmörkuðum svæðum landsins. Uppbyggingin mótist á mismunandi forsendum einstakra svæða en ekki verði unnið að sams konar uppbyggingu alls staðar. Þetta verði gert á grundvelli aðgerðaráætlunar og í takt við samræmda samgönguáætlun. Allar aðgerðir stjórnvalda verði með vísan til langtímaáætlunarinnar. Með aðstoð fyrirliggjandi kannnana, rannsókna, vinnu við stefnumótanir einstakra svæða, spár um þróun o.fl. verði vaxtarmöguleikar svæða kortlagðir. Þegar þessari grunnvinnu er lokið verði unnin aðgerðaráætlun fyrir svæðin og þess freistað að ná sem breiðustu samstarfi um framgang málsins á vegum þeirra sem vilja fjárfesta í þeim möguleikum sem gefast.

Að mínu mati er þar þó nauðsynlegt að vinna fyrst að því að fá aðila innan hvers svæðis til að sameinast um &quoteinfalt þema svæðisins“ í samræmi við sterkustu hliðar þess og þess sem gengur markaðslega. En margur saknar kannski síns heimahaga hér á glærunni, og telur að mikilvæg svæði séu skilin útundan. Vissulega má svo vera. En gleymum ekki að styrkur eins svæðis styrkir það næsta.

Frá því ég tók við embætti ráðherra ferðamála hef ég lagt áherslu á að uppbygging og markaðssetning haldist í hendur sem frekast er unnt. Fjölmargir innviðir greinarinnar eru enn veikburða og ég ítreka mikilvægi upplýsingamiðstöðva og gestastofa. Þeirra hlutverk er að koma upplýsingum og fræðslu til fólks til að auðga megi dvöl þess á landinu og þannig skapa þá jákvæðu umræðu sem við munum alltaf þurfa á að halda.

Ég vil örstutt leyfa mér að nefna hér í punktaformi það sem gert hefur verið á síðasta ári á vegum stjórnvalda sem kemur ferðaþjónustunni til góðs. Nefna má:
· Lækkun á vörugjöldum bílaleigubíla
· Ný lög um bílaleigur.
· Lækkun á vörugjöldum vélsleða
· Hækkun endurgreiðsluhlutfalls virðisaukaskatts veitingahúsa
· Breytingar á virðisaukaskattsreglum vegna hópferðabíla til að auðvelda endurnýjun
· Lækkun fasteignagjalda á landsbyggðinni
· Tvöfaldað fjármagn til að styrkja sérleyfishafa og stóraukin ráðgjöf við rekstur
· Aukin bein framlög til flugrekenda innanlands með útboðum
· 10% lækkun kílómetragjalds þungaskatts af bifreiðum þyngri en 4 tonn
· Flokkun gististaða komið á
· Aukið fjármagn til eflingar upplýsingamiðlunar á landsbyggðinni
· Nýtt frumvarp um leigubíla kynnt í síðustu viku.

Þá eru það markaðsmálin:
Á þeim tveimur árum sem samningurinn um Markaðsráðið hefur verið í gildi hefur þetta ekki gengið eftir á þann hátt sem vonir stóðu til enda má segja að ýmislegt hafi ekki legið fyrir á þeim tíma sem gengið var til samninga. Því hefur samningurinn nú verið tekinn til endurskoðunar og línurnar skýrðar. Sýnist mér að náðst hafi sátt um framkvæmd samningsins sem gerir samningsaðilum auðveldara um vik að uppfylla metnaðarfull markmið hans. Ég vona svo sannarlega að sem allra flestir sem aðild eiga að SAF sjá sér hag í því að koma að markaðsráðinu. Þetta er framtíðarverkefni og allir þurfa að leggjast á árarnar. Ég verð þó að leyfa mér að segja að það eru mér ákveðin vonbrigði að þrátt fyrir að tilgangur samningsins um Maraksðráð ferðaþjónustunnar hafi verið að fá sem flesta til þátttöku í sameiginlegu markaðsstarfi erlendis þá hafi rétt um 100 fyrirtæki komið beint að sameiginlegri fjármögnun með ríki og borg þau tvö ár sem sem samningurinn hefur verið í gildi, þrátt fyrir að t.d. séu milli 300 og 400 fyrirtæki inna SAF og þau fyrirtæki sem hagsmuni hafi af hinu sameiginlega markaðsstarfi séu líklega nær 1000. Með hinu nýja samkomulagi er þess freistað að þeir njóti meira sem eru tilbúnir að leggjast á árar með okkur

Það er hins vegar víðar en á vettvangi markaðsráðsins sem unnið er að því að kynna landið. Ég hef áður farið yfir Iceland Naturally-átakið sem nú hefur staðið yfir í rúmt ár í Norður –Ameríku. Sjálfur fór ég til Ameríku á síðasta ári, fyrst til að taka þátt í hátíðahöldum í tengslum við hina stórkostlegu siglingu Íslendings til Vesturheims. Síðan fór ég í stutta heimsókn til New York og kynnti mér starfsemi Ferðamálaráðs í Bandaríkjunum. Ég verð að segja alveg eins og er, að sú umfjöllun sem við höfum fengið í fjölmiðlum vestan hafs undanfarið ár hefur komið mér algjörlega í opna skjöldu. Nú síðast í nýjasta tölublaði hins virta tímaritds Time er að finna mjög jákvæða grein um Ísland þar sem tekið er svo djúpt í árinni að tala um markaðsárangur okkar Íslendinga sem markaðssetningu aldarinnar. Því tel ég einsýnt að peningum okkar í átak líkt og Iceland Naturally hefur verið vel varið til þessa.

Það er ekki hægt að hverfa af vettvangi markaðsmálanna án þess að nefna Dieter Wendler – einn af ötulustu liðsmönnum ferðaþjónustunnar til áratuga. Hann hefur nú lokið farsælum starfsferli fyrir íslenska ferðaþjónustu, fyrst hjá Flugfélagi Íslands og Flugleiðum og síðar hjá Ferðamálaráði.

Sífellt ber að velta fyrir sér skilyrðum ferðaþjónustunnar – ekki síst við aðstæður líkt og þær sem nú hafa skapast þegar vöxturinn nær svo að segja eingöngu til höfuðborgarsvæðisins. Af þessu hef ég miklar áhyggjur – eins og ég hef þegar nefnt – enda er það bjargföst trú mín að á landsbyggðinni liggi margir möguleikar. Ef til vill ætti að skoða þetta í sambandi við breytt hlutverk ferðamálasjóðs sem Þróunarsjóð ferðaþjónustunnar, en nefnd er að störfum sem vinnur að endurskoðun laga um Ferðamálasjóð.

Umræðan um aðild að Schengen-samstarfinu hefur verið fróðleg og tekið á sig ýmsar myndir. Jákvæðast fyrir ferðaþjónustuna er stórbætt og glæsileg aðstaða í Leifsstöð en það hlýtur að vera okkur öllum keppikefli að fyrstu kynni manna af landinu sýni þá þekkingu og smekkvísi sem þjóðin býr yfir.

Fundarstjóri, góðir gestir,

Eins og fram hefur komið stendur til að undirrita samkomulag ríkis og borgar um byggingu tónlistarhúss, ráðstefnumiðstöðvar og hótels í Reykjavík. Þegar þetta samkomulag liggur fyrir mun byggingarnefnd hefja störf ásamt verkefnisstjórn. Þetta er stórt verkefni og sér ekki fyrir endann á fjármögnun þess. Ráðuneytið hefur þó ákveðnar vísbendingar um að stórir erlendir aðilar hafi áhuga á því að koma að rekstri hótelsins. Um leið og ég segi það einlæga ósk mína að um þetta verkefni náist víðtæk sátt leyfi ég mér er það jafnframt ósk mín að þetta stórverkefni megi verða að veruleika sem allra fyrst – íslenskri ferðaþjónustu til heilla.