Kristrún Lind Birgisdóttir, aðstoðarskólastjóri Lindaskóla í Kópavogi, hefur verið ráðin aðstoðarmaður Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra. Hefur hún störf í ráðuneytinu eftir næstu helgi.

Kristrún Lind Birgisdóttir, sem er fædd 1971, lauk kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1998 og framhaldsnámi frá KHÍ 2004. Hún hefur starfað sem kennari og skólastjóri, meðal annars við Grunnskóla Önundarfjarðar og víðar, við ráðgjöf og kennslu hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarðar og sem verkefnisstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.

Af öðrum verkefnum Kristrúnar Lindar má nefna verkefnisstjórn við dreifmenntun í Vestur-Barðastrandasýslu og hún var formaður verkefnisstjórnar um símenntun á Íslandi. Þá hefur hún stjórnað ýmsum öðrum verkefnum á sviði skólamála svo sem varðandi lífsleiknistefnu, sjálfsmati grunnskóla og stundað rannsóknir á kennsluaðferðum. Hún situr einnig í ritstjórn vefritsins Tíkin.is.