Samgönguráðherra hefur skipað Ragnhildi Hjaltadóttur í embætti ráðuneytisstjóra samgönguráðuneytisins frá og með 1. júní nk. Tekur hún við af Halldóri S. Kristjánssyni, sem hefur verið staðgengill Jóns Birgis Jónssonar ráðuneytisstjóra frá áramótum.
Ragnhildur lauk lögfræðiprófi frá HÍ árið 1979 og stundaði framhaldsnám í alþjóðarétti við Institut Internationales de Haute Études í Genf á árunum 1979 til 1981. Hún varð héraðsdómslögmaður árið 1985.
Hún gegndi lögmannsstörfum áður en hún varð fulltrúi í samgönguráðuneytinu 1983, deildarstjóri í sama ráðuneyti 1984 og 1988 varð hún skrifstofustjóri ráðuneytisins.