Nýr sæstrengur sem tengir Ísland við Evrópu hefur verið tekinn í notkun. Strengurinn nefnist FARICE og með tilkomu hans hefur öryggi í tengingu Íslands við umheiminn stóraukist og flutningsgeta tals og gagna til útlanda þúsundfaldast.
Hámarksflutningsgeta FARICE verður 720 gígabæt á sekúndu, sem myndi duga til að anna 11 milljón símtölum til eða frá landinu samtímis.

FARICE er algjör bylting í samskiptum Íslands við umheiminn. Hingað til hefur sæstrengurinn CANTAT-3 verið lífæðin okkar og varasamband verið um gervihnött. Nú eru hins vegar til staðar tvær sjálfstæðar ljósleiðaratengingar út úr landinu, þannig að ef annar strengurinn slitnar eða bilar getur hinn strengurinn tekið við. Auk þess er nýi strengurinn af nýrri gerð ljósleiðara og því talsvert öruggari tenging.

Fyrir fáeinum árum hefði það ekki þótt koma að sök þó netsamband lægi niðri í örfáar klukkustundir. Í dag er Ísland hins vegar orðið netvætt þjóðfélag. Fjarskiptaumferð Íslendinga við útlönd hefur tvöfaldast á hverju ári undanfarin ár og stórir hlutar þjóðlífsins eru háðir greiðum netsamskiptum við umheiminn. Millilandaviðskipti, kauphöll verðbréfa, flugumferðarstjórn og ótal aðrir aðilar treysta á þessa tengingu.

Ráðist var í skipulega undirbúningsvinnu við gerð sæstrengsins í kjölfar skýrslunnar „Stafrænt Ísland“ sem fjallaði um framtíðarþarfir Íslands á bandbreidd. Var sú skýrsla unnin í ársbyrjun 2000 á vegum samgönguráðuneytisins og Verkefnisstjórnar um upplýsingasamfélagið. Þar kom fram að helsti hemillinn á aukna internetnotkun heimila og fyrirtækja væri kostnaður og að öryggið með einum sæstreng væri ekki fullnægjandi. Kröfur um öryggi voru að aukast og ný þjónusta og ný tækifæri voru að koma fram. Jafnframt var ljóst að CANTAT-3 strengurinn yrði fullnýttur innan fárra ára. Augljóst var að nýr strengur væri nauðsynlegur. Eftir undirbúningsferil lagði ég til í ríkisstjórn í júlímánuði árið 2002 að stofnað yrði félag um lagningu sæstrengs með aðild ríkisins og íslensku símafyrirtækjanna í samstarfi við Færeyinga. Var með þeirri samþykkt mikilvægu verkefni hrundið af stað.

Samstarfið góð fyrirmynd


FARICE var samstarfsverkefni íslenskra og færeyskra aðila og vísar nafnið til þess. Íslensku hluthafarnir í strengnum eru íslenska ríkið, Og Vodafone og Síminn. Farice hf. mun sjá um rekstur á sæstrengnum og selja íslenskum símafyrirtækjum flutning um strenginn á heildsöluverði. Símafyrirtækin munu svo ákveða lokaverð til neytenda. Reynslan af þessu samstarfi hefur verið sérstaklega farsæl og góð fyrirmynd að öðrum sambærilegum verkefnum þar sem hið opinbera getur tekið höndum saman með einkafyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum til að vinna að góðum málum, öllum til heilla.