Nýverið ritaði samgönguráðherra grein í DV sem bar yfirskrftina Ferðaþjónustan og mannvirkjagerð á hálendinu:
Nýting auðlindar og náttúruvernd – samræmanleg sjónarmið
Greinina er að finna hér á eftir.
Mikil umræða hefur verið í þjóðfélaginu að undaförnu um mannvirkjagerð á hálendinu, ekki síst um fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir á Fljótsdalshéraði. Sitt sýnis hverjum. Ljóst er að seint verður tekin ákvörðun sem öllum hugnast í þessu máli. Mannvirkjagerð á hálendinu er mikið rædd innan ferðaþjónustunnar. Sem samgönguráðherra tel ég að rata þurfi vandfarna götu hófseminnar í þessu máli sem öðrum.

Ég tel að við mannvirkjagerð á hálendinu beri okkur skylda til að reyna eftir megni að stilla saman strengi nýtingar og náttúruverndar. Sjá verður hlutina í samhengi við raunveruleikann og áætlanir um nýtingu auðlinda. Þá ber okkur að fjalla um viðkvæmt málefni sem þetta af hógværð, af virðingu fyrir skoðunum annarra og án sleggjudóma.

Náttúra lands okkar geymir marga perluna. Mín skoðun er sú að þeirra beri að njóta sem best við megum. Perlum í náttúru Íslands verður vart notið nema aðgengi hins almenna ferðamanns að þeim sé tiltölulega auðvelt og öruggt. Sem samgönguráðherra legg ég ríka áherslu á gott samstarf við þá er vinna að mannvirkjagerð á hálendinu. Ég tel víst að í máli sem þessu geti farið saman hagsmunir mannvirkjagerðar og ferðaþjónustu – ef svo má segja. En ég legg áherslu á að á milli þessara aðila þarf að ríkja skilningur og helst góð sátt.

Sú skoðun er nokkuð útbreidd að leggja beri vegi eða slóða sem víðast um hálendið til að koma ferðamönnum þar um, helst allan ársins hring. Ferðaþjónustan hefur nú um áratuga skeið notið framkvæmda Landsvirkjunar á hálendinu. Þá sér í lagi vegna vegagerðar sem tengist virkjanaframkvæmdum. Þessi staðreynd undirstrikar hag ferðaþjónustunnar af mannvirkjagerð á hálendinu.

Ég tel víst að framkvæmdir og mannvirkjagerð á hálendinu verði frekar til að auka ferðamannastraum á það stórbrotna landssvæði frekar en hið gagnstæða. En gæta verður hófs. Um leið og huga þarf vel að náttúruperlum við mannvirkjagerð, þarf að ígrunda vandlega að álag sem óhjákvæmilega fylgir auknum straumi ferðamanna verði náttúruperlum ekki dýrkeypt.

Því tel ég að leggja þurfi áherslu á að skipuleggja og merkja vegi, akvegi og reiðvegi, bæði inn á hálendið en ekki síður um það. Gera þarf mun meira í að leiðbeina ferðamönnum, og setja upp ferðir um hálendið eftir því hvort þeir vilja fara þær leiðir sem sannarlega liggja um ósnortin friðlönd eða um þau svæði þar sem saman fara náttúruperlur og einhver mannanna verk, svo sem virkjanir.

Það er vilji minn sem samgönguráðherra að leita sátta milli náttúruverndarsjónarmiða og nýtingarsjónarmiða í þágu ferðaþjónustunnar. Þannig vil ég stuðla að því að við getum nýtt landið í þágu ferðaþjónustunnar ekki síður en í þágu annarra atvinnugreina. Okkur er nauðsynlegt að hámarka arðinn af þessari auðlind þjóðarinnar á sama hátt og af öðrum. Með skynsamlegri nýtingu, og á grundvelli rannsókna á álgasþoli tiltekinna svæða tryggjum við hagsmuni okkar.