Tekið hafa gildi tvær nýjar reglugerðir þar sem hert er á viðurlögum gegn ýmsum umferðarlagabrotum. Þá er til meðferðar Alþingis lagafrumvarp vegna breytinga á umferðarlögum sem meðal annars miða að því að takmarka réttindi ungra ökumanna meðan þeir hafa bráðabirgðaskírteini.

Aðgerðir gegn ofsaakstri komu til umræðu utan dagskrár á Alþingi á dögunum þar sem Sturla Böðvarsson fór yfir það sem unnið hefði verið að í þessum málaflokki að undanförnu. Verða hér á eftir rakin nokkur atriði úr umræðunum.

Umræðuna hóf Hjálmar Árnason og minntist hann í fyrstu á tölur um banaslys og önnur slys í umferðinni og sagði að neyðarástand ríkti í umferðinni sem þyrfti að breyta. Sagði hann eitthvað hafa gerst í umferðarmenningu þjóðarinnar sem yrði að bregðast við með sameinuðu átaki. Beindi hann þeim spurningum til samgönguráðherra hvort auknir yrðu möguleikar á því að beita ökuleyfissviptingu þeirra sem gerðu sig seka um vítaverðan ofsaakstur, hvort unnt væri að takmarka réttindi ungra ökumanna og hvort auka ætti eftirlit með hraðakstri.

Við umræðurnar minnti Sturla Böðvarsson samgönguráðherra í upphafi á umferðaröryggisáætlun fyrir árin 2005 til 2008 sem væri nú í fyrsta sinn hluti samgönguáætlunar. Fjárveitingar til umferðaröryggisaðgerða væru 385 milljónir á þessu ári og sama upphæð 2007 og aftur 2008. Mest áhersla er lögð á aðgerðir er varða ökumann og farartæki, kringum 150 milljónir á næsta og þarnæsta ári, 100 milljónir fara í verkefni á sviði áróðurs og fræðslu og um 130 milljónir til aðgerða á svartblettum og fleiri sviðum.

,,Við framkvæmd umferðaröryggisáætlunarinnar er samþættingu lagasetningar, eftirlits, áróðurs og vegabóta beitt til að ná hámarksárangri í baráttunni gegn umferðarslysum. Til að framfylgja núgildandi umferðaröryggisáætlun voru á síðasta þingi gerðar breytingar á umferðarlögunum og sneri það fyrst og fremst að ölvunar- og fíkniefnaneyslu ökumanna,” sagði samgönguráðherra meðal annars. Hann sagði markmið stjórnvalda um aukið umferðaröryggi til ársins 2016 að fjöldi látinna í umferðinni á hverja 100 þúsund íbúa yrði ekki meiri en það sem lægst gerðist hjá öðrum þjóðum og að fjöldi látinna og alvarlegra slasaðra í umferð lækki að jafnaði um 5% til ársins 2016.

Ráðherra sagði ljóst að fjöldi alvarlegra slysa í umferðinni á árinu stafaði meðal annars af hraðakstri og reynsluleysi ökumanna. Umferðargreinar Vegagerðarinnar hafi sýnt að margir ökumenn líti á þjóðvegina sem kappakstursbraut. ,,Þeir sem fóru á hraðanum 150 til 200 km á klukkustund á Esjumelunum voru nærri 1.200. Í Norðurárdal óku tæplega 500 ökumenn á þessu tímabili á hraðanum yfir 150 km. Á Reykjanesbrautinni óku 784 á 150 til 200 km hraða í mánuðunum júní, júlí og ágúst.

Þetta segir okkur að ástandið hjá ökumönnum er algerlega skelfilegt. Þess vegna er alveg hárrétt hjá háttvirtum málshefjanda að við þurfum að beina sjónum okkar að því hvernig við getum komið í veg fyrir þennan ofsaakstur,” sagði ráðherra og sagði brýnt að bregðast við þessu. Reynslu annarra þjóða sagði hann vera þá að tvennt skæri sig úr varðandi fylgni við umferðarreglur sem væri annars vegar eftirlit lögreglu og myndavélar og hins vegar viðurlög, einkum sektir og ökuleyfissviptingar. Ráðherra sagði unnið að þessu í samstarfi lögreglu, Vegagerðar og samgöngráðuneytisins og hann minnti einnig á breytingu á sektarreglugerð og breytingu á umferðarlögum sem Alþingi myndi fjalla um.

Tilgangur lagabreytingarinnar er að herða viðurlög við hraðakstri með auknum sektum, lengri sviptingartíma, skyldu til að sitja námskeið áður en endurveiting ökuréttar getur átt sér stað og heimila á að gera ökutæki upptæk í sérstökum tilvikum. Einnig gerir lagabreytingin ráð fyrir þrepaskiptingu bráðabirgðaökuskírteinis þar sem akstur verði takmarkaður við ákveðinn tíma sólarhrings, afl ökutækja og fjölda farþega.

Í lokin sagði samgönguráðherra að markmiðið með auknu aðhaldi og hertum viðurlögum væri að taka glannanna úr umferð.

Átta aðrir þingmenn tóku þátt í umræðunni og var sameiginlegt í málflutningi þeirra flestra að herða bæri viðurlög við umferðarlagabrotum og gera þær skilvirkari. Einnig var hvatt til þess að auka fræðslu og halda áfram uppbyggingu vegakerfisins.

Í lokaorðum sínum þakkaði ráðherra umræðuna og sagðist sammála því sem fram hefði komið að taumleysi ríkti í umferðinni. Finna yrði leiðir til að taka í taumana.