Helga Laxdal, formanni Vélstjórafélagsins, hefur verið trúað fyrir því mikilvæga trúnaðarstarfi á vettvangi siglingamála að sitja í Siglingaráði.  Siglingaráð er umsagnaraðili og ráðgefandi fyrir samgönguráðherra í málum er varða siglingamál og öryggismál sjófarenda. Að undanförnu hefur Helgi gengið harkalega fram gegn samgönguráðherra og ekki síður siglingamálastjóra með óvenjulega ótrúverðugum og ómálefnalegum hætti.

Það var mjög sérstakt að fylgjast með Helga í fjölmiðlum nýlega. Formaðurinn kom í viðtal í fréttum sjónvarpsstöðva og veittist að samstarfsmönnum sínum á vettvangi siglingamála. Hann krafðist afsagnar forstjóra Siglingastofnunar fyrir það að fara ekki að hugmyndum og óljósum tillögum formannsins og gerði tilraun til þess að tala niður til ráðherra með því að segja að ráðherrann skildi ekki um hvað málið snérist. Gagnrýni formanns Vélstjórafélagsins snýst um reglugerð um skráningu á afli aðalvéla, sem birt var fyrir stuttu en átti langan aðdraganda. Vert er að vekja athygli á því að umrædd reglugerð hefur legið lengi fyrir eftir að Helgi og aðrir fulltrúar í Siglingaráði fjölluðu um hana. Hefði honum því gefist tími til þess fyrr að fjalla um reglugerðina á málefnalegan hátt í fjölmiðlum og kalla eftir viðbrögðum. Þess ber jafnframt að geta að fulltrúar Vélstjórafélagsins höfðu átt fund með mér um efni reglugerðarinnar. Frestaði ég útgáfu reglugerðarinnar til þess að Helgi og hans fólk gæti, enn eina ferðina, farið yfir málið með fulltrúum Siglingastofnunar í þeim tilgangi að færa rök fyrir tillögum sínum um breytingar á reglugerðinni.

Hlutverk formanna stéttarfélaga er mikilvægt starf. Það veldur því vonbrigðum hversu framganga Helga Laxdal er ótrúverðug. Það er umhugsunarefni hvernig hann telur að hagsmunir umbjóðenda sinna séu best varðir. Þegar formaðurinn er kominn í þrot með rök velur hann þann kost að veitast að viðmælendum með skömmum og leggur mönnum orð í munn að hentugleika og vænir þá um skilningsskort. Ég skildi gagnrýni Helga Laxdal mæta vel á meðan hún var á málefnalegum forsendum. Hins vegar tel ég það ekki hlutverk hins opinbera að velja óhentugri leiðina, ef tvær standa til boða, skili þær sömu niðurstöðu. Það er mikilvægt að halda því til haga að Vélstjórafélag Íslands, með Helga Laxdal í fararbroddi, virðist ekki vera á móti því að hægt sé að færa niður afl aðalvéla skipa, heldur er formaður Vélstjórafélagsins einungis ósammála þeirri aðferð sem ætlunin er að beita við niðurfærslu vélaraflsins. Sú leið sem Helgi leggur til, fyrir hönd Vélstjórafélagsins, er talin kostnaðarsamari og kallar á mun meira umstang en sú sem ætlunin er að fara. Meginatriðið er það að báðar leiðirnar skila sömu niðurstöðu.

Af hverju ætli Helgi Laxdal standi í þessu streði þessa dagana og noti útgáfu reglugerðar til þess að vekja athygli á sér? Ætli það sé vegna þess að hann hefur áhyggjur af öryggismálum sjómanna? Það held ég ekki, reglugerðin um afl aðalvéla hefur engin áhrif á öryggi sjómanna. Helgi Laxdal veit vel að á vettvangi samgönguráðuneytis og Siglingastofnunar er, um þessar mundir og síðustu misseri, lagt meira í öryggismál sjófarenda en nokkru sinni hefur verið gert. Skyldi það vera af því að Siglingastofnun gangi erinda útvegsmanna? Nei, ef eitthvað er hefur Siglingastofnun verið gagnrýnd í gegnum tíðina fyrir að standa fast á sinni afstöðu gagnvart útgerðinni í fleiri málum en færri, þannig að ekki getur það verið ástæðan. Getur verið að öll lætin séu vegna þess að formaðurinn telur sig þurfa að styrkja stöðu sína innan Vélstjórafélagsins um þessar mundir? Ég hvet Helga Laxdal til þess að hverfa frá þessu vinnulagi.