Ferða- og menningarmálaráðherra Nýfundnalands, Charles J. Furey, kom í morgun í opinbera heimsókn til Íslands í boði samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssonar.
Ferða- og menningarmálaráðherra Nýfundnalands, Charles J. Furey, kom í morgun í opinbera heimsókn til Íslands í boði samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssonar. Meðal þess sem er á dagskrá heimsóknarinnar er athöfn í Búðardal á morgun, laugardag, er víkingaskipið Íslendingur leggur af stað til Grænlands og Vínlands. Við athöfnina munu ráðherrarnir tveir flytja stutt ávörp ásamt sveitarstjóra og oddvita Dalamanna. Heimsókn Fureys er m.a. tilkomin vegna samstarfs Landafundanefndar við stjórnvöld á Nýfundnalandi vegna siglingar Íslendings til Nýfundnalands í sumar. Líkt og Íslendingar leggja Nýfundlendingar sífellt meiri áherslu á að auka ferðaþjónustu til landsins, m.a. með því að vekja athygli umheimsins á því að víkingarnir stigu þar fyrst á land fyrir 1000 árum. Mikil hátíðarhöld eru fyrirhuguð við komu skipsins til L’anse aux Meadows (Leifsbúðum á Nýfundnalandi) þann 28. júlí n.k. og verður þeim sjónvarpað beint um allt Kanada og víðar. Við þá athöfn hittast ráðherrarnir, Furey og Sturla, að nýju.