Forseti Alþingis, Sturla Böðvarsson, tók í morgun á móti forseta sádí-arabíska ráðgjafarþingsins, dr. Saleh Abdullah bin Himeid, í Alþingishúsinu. Sádí-arabíski þingforsetinn er staddur hér á landi ásamt sendinefnd í opinberri heimsókn í boði forseta Alþingis.
Forseti Alþingis og forseti sádí-arabíska ráðgjafarþingsins ræðast við |
Í viðræðum við sádí-arabísku sendinefndina var einkum rætt um orku- og umhverfismál, en auk þess kom stjórnmálaástandið í Mið-Austurlöndum til umræðu. Auk forseta Alþingis tóku þátt í viðræðunum alþingismennirnir Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir 1. varaforseti Alþingis, Arnbjörg Sveinsdóttir formaður þingflokks sjálfstæðismanna, Ásta Möller formaður Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins, Valgerður Sverrisdóttir fyrrverandi utanríkisráðherra og Ögmundur Jónasson formaður þingflokks Vinstri-grænna, ásamt Helga Bernódussyni skrifstofustjóra Alþingis.
Forseti Alþingis með sendinefnd frá Sádí-Arabíu |
Í framhaldi af fundi með forseta Alþingis átti sendinefndin fund með iðnaðarnefnd Alþingis. Síðar í dag mun sendinefndin eiga fund með iðnaðarráðherra og heimsækja höfuðstöðvar Íslenskrar erfðagreiningar. Á morgun, þriðjudag, mun þingforsetinn og föruneyti hans fara til Þingvalla, skoða Nesjavelli og fleiri staði á Suðurlandi. Sendinefndin fer af landi brott á miðvikudagsmorgun.