Nýverið birtist opið bréf til samgönguráðherra í Velvakanda Morgunblaðsins frá Guðmundi Karli Jónssyni um jarðgangamál. Svargrein ráðherra sem birtist á sama stað fer hér á efir.
OPNU BRÉFI SVARAÐ
Á aðfangadag s.l. sendi Guðmundur Karl Jónsson mér opið bréf í Morgunblaðinu. Í bréfinu fjallar hann um Jarðgangaáætlun og beinir spurningum til mín. Auk þess setur hann fram fullyrðingar um neikvæða afstöðu norðlendinga til jarðganga sem komu mér nokkuð á óvart. Guðmundur Karl fullyrðir að "stór hluti norðlendinga hafi snúist gegn jarðgöngum milli Siglufjaraðr og Ólafsfjarðar“. Hann segir að íbúar við Eyjafjörð, í Skagafirði, á Sauðárkróki, Akureyri og Dalvík hafi snúist gegn jarðgöngum. Þetta eru athyglisverð tíðindi að norðan og koma mér á óvart. Leyfi ég mér að efast um að mat greinarhöfundar sé rétt miðað við þá áherslu sem lögð hefur verið á jarðgöng og tengingu Eyjafjarðar og Skagafjarðar af hálfu stjórnenda þessara héraða – ekki síst Eyfirðinga sem gera sér vel ljóst hversu miklu skiptir að bæta samgöngur milli Skagafjarðar og Eyjafjarðarsvæðisins.
Greinarhöfundur vill vita hvort Austfirðingar eig að "sitja á hakanum“ með jarðgöng meðan undirritaður er samgönguráðherra. Vegna þeirrar spurningar vil ég lýsa stöðu mála. Samkvæmt Jarðgangaáætlun munu Austfirðingar síður en svo sitja á hakanum og Vegáætlun gerir ráð fyrir umfangsmiklum framkvæmdum á Austurlandi við vegagerð.
Í samræmi við lög stendur yfir vinna við mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðra jarðganga. Annarsvegar milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar um Héðinsfjörð og hinsvegar milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Á grundvelli Jarðgangaáætlunar er unnið að umfangsmiklum rannsóknum á jarðfræði svæðisins og öðrum undirbúningi vegna hönnunar og gerðar útboðsgagna. Gert er ráð fyrir því að bjóða út í einu lagi framkvæmdir við þessi göng. Er talið að með því fáist verulega meiri hagkvæmni hjá verktökum sem geta gert áætlanir til margra ára. Að mati sérfræðinga mun sú aðferð leiða til minni kostnaðar. Ég hef lýst því yfir margoft og gerði það m.a. í umræðum á Alþingi að ákvörðun um röðun framkvæmda verður tekin þegar allar forsendur eru skýrar við undirbúning og þegar metin hafa verið tilboð í gerð jarðganga og allir þættir skoðaðir. Þegar um svo umfangsmiklar framkvæmdir sem jarðgöngin eru verður ekki hjá þvi komist að taka tillit til ástands á vinnumarkaði í landinu og í þeim landshlutum sem göngin fyrirhuguðu eru. Guðmundur Karl Jónsson þarf því ekki að örvænta fyrir hönd Austfirðinga og ætti að kynna sér betur vilja Norðlendinga áður en hann fullyrðir frekar um andstöðu þeirra við ný Siglufjarðargöng. Þau munu án nokkurs vafa hafa mikil og heillavænleg áhrif á byggðina við Eyjafjörð og raunar einnig í Skagafirði.
Að lokum vil ég minna á að ekki er gert upp á milli jarðganga á Austurlandi og Siglufjarðarganga í Jarðgangaáætluninni sem var samþykkt á Alþingi með atkvæðum allra þingmanna sem viðstaddir voru eftir miklar umræður. Samkvæmt samþykkt Alþingis er gert ráð fyrir því að samgönguráðherra taki ákvörðun um framkvæmdaröð þegar þar að kemur.