Þann 3. mars 2005  er haldin dagsráðstefna  um samgöngumál á Grand Hótel á vegum Verk- og tæknifræðingafélanna á Íslandi. Fyrir hádegi er fjallað um hálendisvegi og eftir hádegi samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Hér á eftir fer ræða samgönguráðherra við það tækifæri:

Ágætu fundarmenn.

Ég vil byrja á því að þakka fundarboðendum fyrir að efna til þessa fundar. Umræður um samgöngumál eru fyrirferðarmiklar og því mikilvægt að tæknifræðingar og verkfræðingar efni til slíkrar umræðu og kalli á sérfræðinga til að upplýsa og rökræða um þennan mikilvæga málaflokk.
Um þessar mundir fer fram endurskoðun á Samgönguáætlun. Í samræmi við lög um samgönguáætlun frá 2002 hafa samgönguráð og stofnanir samgönguráðuneytisins unnið við að endurmeta áætlanir á sviði hafnamála, flugmála og vegamála. Er þess að vænta að þingsályktunartillaga verði kynnt innan tíðar. Hún mun fela í sér áætlun um framkvæmdir og rekstur á sviði vegamála, flugmála og hafnamála fyrir árin 2005-2008. Það nýmæli er þar á ferðinni að í fyrsta sinni verður jafnframt fjallað um umferðaröryggisáætlun í tengslum við samgönguáætlun.

Á þessum fundi verður einkum fjallað um tvo þætti vegamála – hálendisvegi og umferðar- og vegamál höfuðborgarsvæðisins.
Hvoru tveggja er heillandi viðfangsefni í hratt vaxandi þjóðfélagi og þið getið verið viss um að samgönguráðherra hefur mótaða afstöðu til þessara viðfangsefna.
Þær eru ríkar andstæðurnar sem hér er fjallað um. Annars vegar gerð umferðarmannvirkja í mesta þéttbýli landsins þar sem erfiðasta viðfangsefnið er að þjóna kröfum og þörfum mannanna og hinsvegar gerð vega um ósnortin víðerni þar sem verkefnið viðkvæma er að hefta kröfur og óskir mannsins svo hann gangi ekki of nærri óspilltri náttúru. Raski ekki og ógni dýralífi, gróðri og fegurð meistarasmíði náttúruaflanna.
Það er því ekki að ófyrirsynju að kallað er til fólk með margháttaða þekkingu og reynslu.
Við Íslendingar höfum tekið okkur á í gerð mannvirkja.
Fagmennska hefur aukist og það má sjá vítt og breytt um landið. Margir vegakaflar eru hrein meistarastykki í sjálfu sér.

Ég minnist þess þegar ég hafði það verkefni sem bæjarstjóri að standa fyrir gerð ferjuhafnar í Stykkishólmi. Þar var efnt til mannvirkjagerðar í gamalli höfn þar sem fyrstu hafnarmannvirkin voru reist í tíð Hannesar Hafstein fyrir hundrað árum. Það þótti ekki sjálfsagt að breyta mynd hafnarinnar og yfirbragði með grjótgörðum og mannvirkjum sem þurfa til að skýla og taka við mikilli umferð í nágrenni við sérstaka byggð.
Það þótti ekki sjálfgefið að kalla til arkitekt til að móta mannvirkin. Byggingarlist hafði ekki verið talin tengjast því sérstaklega að hanna hafnarmannvirki. Í dag þakka ég forsjóninni fyrir að hafa kallaði til fólk sem kunni að nálgast þetta verkefni í því umhverfi þar sem náttúrufegurðin er söluvara, þúsundir ferðamanna leggja leið sína um hafnarsvæðið og menn hafa lagt metnað sinn í að varðveita gömul hús í nafni sögu staðarins, húsafriðunar og íslenskrar byggingarlistar.
Því rifja ég þetta upp á þessum morgni að ég tel okkur bera að gæta okkar jafnt í þéttbýli sem á hálendinu þegar við leggjum vegi eða reisum samgöngumannvirki og leitast við að fella saman þörf okkar fyrir mannvirkin og þörf okkar fyrir vistvænt umhverfi.

En svo ég snúi mér að efninu þá vil ég nota þetta tækifæri og lýsa afstöðu minni í örstuttu máli.

Samgöngur á höfuðborgarsvæðinu

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu er stöðug og raunar mjög hratt vaxandi. Okkur hefur samt sem áður tekist ótrúlega vel að fylgja eftir þeirri miklu aukningu sem orðið hefur á bílaeign landsmanna með gerð umferðarmannvirkja.
Í símskeyta stíl vil ég nefna þau megin verkefni sem ég tel að vinna verði við á næstunni á stórhöfuðborgarsvæðinu svo takast megi á við fyrirsjáanlegan vöxt.

1.**Leggja verður áherslu á að auka öryggi vegfarenda á þeim umferðarmannvirkjum sem byggð hafa verið– með endurbættum gatnamótum og göngubrautum nærri megin umferðaræðum.

2.**Stærsta einstaka verkefnið á þeim vettvangi eru endurbætur á gatnamótum Kringlumýrabrautar og Miklubrautar.

3.**Nýta þarf upplýsingatæknina til þess að bæta stýringu umferðarflæðis og auka þannig umferðaröryggi um leið og afkastageta mannvirkja er aukin.

4.**Reisa verður sem fyrst Samgöngumiðstöð við flugvöllinn til að þjóna jafnt Strætó, leigubílum, innanlandsfluginu, flutningum á fólki með flugrútu til Keflavíkur og sérleyfishöfum sem sinna fólksflutningum til og frá höfuðborgarsvæðinu. Samgöngumiðstöð í þungamiðju höfuðborgarinnar er bæði nauðsynleg og sjálfsögð.

5.**Tengja þarf Samgöngumiðstöðina með endurbættu gatnakerfi borgarinnar.

6.**Tvöfalda þarf Reykjanesbrautina allt frá Kópavogi til Reykjanesbæjar eins og fyrirhugað er.

7.**Auka þarf afkastagetu Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar með mislægum gatnamótum á mörkum þeirra brauta og tvöfalda Vesturlandasveg að gatnamótum Þingvallavegar í Mosfellsbæ og tvöfalda Suðurlandsveg innan tíðar austur fyrir fjall.

8.**Leggja þarf Sundabraut alla leið upp á Kjalarnes með tengingu við þau byggðasvæði sem þar eru með ströndinni.

Um leið og ég nefni tiltekin verkefni vil ég segja að stjórnendur sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og skipulagsfræðingar verða að gæta sín á því að kröfur íbúanna gagnvart hljóðvist og öðrum umhverfisþáttum hafa breyst. Kröfurnar eru að aukast.
Hér hef ég nefnt verkefni sem ekki verður lokið við í einu vetfangi.

Við verðum að setja þau markmið að öll þessi verkefni verði í 12 ára áætlun sem nú verður til umfjöllunar á þessu og næsta ári þegar langtímaáætlunin verður endurskoðuð.

Hálendisvegir eru heillandi verkefni.

Hálendi Íslands er megin segull sem virkar á ferðamenn innlenda sem erlenda sem vilja kynnast og njóta náttúrufegurðar og víðáttu á hálendinu.

Í gildandi Samgönguáætlun er gert ráð fyrir fjórum svokölluðum hálendisvegum. Ég tel víst að vegamálstjóri geri nánari grein fyrir þeim áformum hér síðar á fundinum.
Afstaða mín til vegagerðar um hálendið er þessi; ,,Leggjum alla áherslu á þá vegi sem nú þegar teljast til grunnnets og hafa verið nýttir sem ferðamannaleiðir. Ljúkum við vegagerð í byggð áður en teknar verða ákvarðanir um nýjar hraðbrautir yfir hálendið“. Fullgerður og öruggur hringvegurinn án einbreiðra brúa svo og aðalleiðir út frá honum sem tengja þorp og kaupstaði á að vera hið stóra metnaðarfulla markmið okkar næstu tólf árin. Það mun reynast okkur ærið en mikilvægt viðfangsefni.

Jafnframt þurfum við að leggja á ráðin um hvernig við tengjum hálendisvegi, svo sem Kjalveg, við megin vegakerfið þannig að Kjalvegur uppbyggður nýtist okkur sem best og stytti leiðir sem mest milli landshluta.
Megi þessi dagur verða okkur gagnlegur einkum í þágu samgangna.

Kærar þakkir fyrir gott hljóð.