Alþjóðasiglingadagurinn er í dag sunnudaginn 26.september. 
Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO) beinir því til aðildarþjóða sinna að halda veglega upp á daginn. Þess vegna hefst hátíð á Miðbakkanum í Reykjavík í dag kl. 13.

Dagurinn var haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn hér á landi árið 2001. Þá kom fram sú hugmynd að í stað þess að halda einn dag hátíðlegan væri heil vika helguð öryggismálum sjómanna. Nú er í annað sinni efnt til Öryggisviku sjómanna. Hún stendur dagana 24. september til 1. október 2004 og er þema hennar að þessu sinni „Forvarnir auka öryggi“.

Öryggisvika sjómanna er nú hluti af verkefnaáætlun um öryggi sjófarenda. Ákveðið hefur verið að hafa fyrirkomulagið þannig að öryggisvikan verði haldin annað hvert ár í Reykjavík en hitt árið séu haldnir málfundir víðsvegar um land þar sem öryggismál sjómanna eru rædd og yfirfarin af sjómönnum, útgerðarmönnum og þeim sem áhuga hafa á bættu öryggi sjómanna.

Verkefnaáætlun um öryggi sjófarenda er arftaki langtímaáætlunar í öryggismálum sjófarenda. Í dag er áætlunin hluti af samgönguáætlun og eru henni tryggðar þar 20 mkr. árlega. Verkefnaáætluninni er stýrt af verkefnastjórn sem skipuð er öllum hagsmunaaðilum og skipar samgönguráðherra formann. Siglingastofnun hefur verið falið að annast framkvæmdina í samstarfi við sérstaka verkefnastjórn. Meginverkefnin hafa verið fræðsla, upplýsingar, útgáfa fræðsluefnis og rannsóknir.

Síðan ég tók við embætti samgönguráðherra hef ég lagt mikla áherslu á aukið öryggi sjófarenda. Má þar nefna lögleiðingu losunar- og sjósetningarbúnaðar gúmmíbjörgunarbáta, langtímaáætlun um öryggismál sjófarenda, endurskipulagningu á starfsemi Rannsóknarnefndar sjóslysa, nýja löggjöf og markvissari reglur um rannsókn sjóslysa þar sem m. a. er skilað tillögum til úrbóta að rannsókn lokinni. Tillögur rannsóknarnefndarinnar hafa orðið kveikjan að fimm rannsóknarverkefnum sem unnin eru á vegum Siglingastofnunar. Má hér nefna rannsókn á vatnsþéttleika skipa og vatnsþéttri niðurhólfun þeirra. Þar er leitast við að meta hvort leki í einu rými valdi því að skip sökkvi. Þá stendur yfir rannsókn á hávaða um borð í skipum sem hugsanlegum orsakavaldi slysa og verið er að mæla loftgæði um borð í skipum og loftflæði til aðalvéla. Það verkefni kom ekki síst til eftir að Svanborg SH-404 fórst við Svörtuloft 7. desember 2001. Auk þessa vinnur Siglingastofnun að fleiri rannsóknum sem tengjast öryggi skipa og áhafna, t. d. verkefnið „Veður og sjólag“ sem finna má upplýsingar um á heimasíðu stofnunarinnar.

Öryggi sjófarenda verður alltaf best tryggt með góðri og stöðugri þjálfun sjómanna og samstilltu átaki stjórnvalda, útgerðar og sjómanna á sviði öryggismála. Það er vilji allra að fækka slysum til sjós. Þeir, sem sinna verkefnaáætlun um öryggi sjófarenda, gegna lykilhlutverki við átak til aukins öryggis. En rétt er að minna á að árangri verður ekki náð nema allir hafi trú á verkefninu og leggi fram krafta sína og metnað. Ég óska sjófarendum og landsmönnum öllum til hamingju með Alþjóðasiglingadaginn. Það er von okkar, sem störfum í samgönguráðuneytinu, að Alþjóðasiglingadagurinn verði til þess að auka öryggi sjófarenda.