Þegar ég tók við embætti samgönguráðherra einsetti ég mér að efla alla þætti sem lúta að öryggismálum sjómanna. Að því hefur verið unnið af hálfu ráðuneytisins í samstarfi margra aðila.
Dagblaðið hefur að undanförnu gert tilraunir til þess að gera starfsemi Rannsóknarnefndar sjóslysa tortryggilega. Ekki er ljóst hver tilgangurinn er með þeim skrifum. Það er hins vegar ágætt að blaðið hafi sérstakan áhuga á að vekja athygli á mörgum og mikilvægum verkefnum samgönguráðuneytisins. Þar er af mörgu að taka sem nauðsynlegt er að kynna. Viðkomandi blaðamenn virðast ekki hafa áttað sig á þeim mikilvægu breytingum, sem hafa orðið á sjóslysarannsóknum og öryggismálum sjófarenda það sem af er þessu kjörtímabili, undir minni forystu. Vegna þess hversu öryggismál sjófarenda hafa verið mikið til umfjöllunar í ráðuneytinu er rétt að vekja athygli lesenda á nokkrum staðreyndum þar um.

Gildistaka reglugerðarinnar um sleppibúnað björgunarbáta.
Sjálfvirkur sleppibúnaður er án efa eitt mikilvægasta björgunartækið um borð í fiskiskipum. Búnaðurinn var upphaflega lögfestur með reglugerð frá árinu 1982, þar sem kveðið var á um handvirkan fjarstýrðan búnað og sjálfvirkan búnað. Þessi búnaður átti að vera kominn í öll þilfarsskip árið 1984. Miklar deilur urðu um kröfur til búnaðarins og túlkun á þeim, sem varð til þess að nýjar reglur voru settar árið 1988, þar sem Iðntæknistofnun var falið að þróa prófunaraðferð. Enginn búnaður fékk viðurkenningu á grundvelli reglnanna og voru nýjar reglur um sjálfvirkan sleppibúnað settar árið 1994 þar sem heimild Siglingastofnunar til að viðurkenna búnað var aukin. Þeim reglum var frestað með eftirfarandi reglugerðum: 14/1995, 18/1996, 359/1996 og 705/1996. Nýjum reglum frá 1997 var ætlað að auðvelda gildistöku ákvæða um sjálfvirkan sleppibúnað, en var engu að síður frestað tvisvar árið 1998, í síðara skiptið til 1. janúar 2000. Ég ákvað hins vegar tveimur mánuðum eftir að ég varð samgönguráðherra að flýta gildistökunni til 1. september 1999 og taldi ráðuneytið þá aðlögun sem gefin var vera nægilega. Svo reyndist vera og náðist góð sátt um framkvæmdina. Þar með var stórum áfanga náð í öryggismálum sjómanna á Íslandi. Það, að koma sjálfvirkum sleppibúnaði í öll þau skip sem reglurnar náðu til, var mikið verk og kostnaðarsamt fyrir útgerðirnar.

Samningur við Slysavarnafélagið Landsbjörgu.
Á síðasta ári var undirritaður samningur milli samgönguráðherra og Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Samningurinn felur í sér skilgreiningu á þeim verkefnum sem Slysavarnafélagið tekur að sér og jafnframt eru skilgreind þau framlög sem ríkið leggur til þeirra verkefna sem félagið annast til viðbótar við hefðbundin verkefni á sviði öryggis- og björgunarmála. Þessi samningur var tímamótasamningur og ber að fagna því hversu gott samstarf hefur tekist milli ráðuneytisins og Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Helstu þættir samkomulagsins eru:
**Umsjón og rekstur Slysavarnaskóla sjómanna,
**Rekstur Tilkynningaskyldu íslenskra skipa,
**Rekstur þjálfunar og fræðslumiðstöðvar að Gufuskálum,
**Rekstur björgunarbáta,
Með samningnum eru þau verkefni skilgreind sem framlög ríkisins renna til. Megin markmið samningsins er að stuðla að bættu öryggi íslenskra skipa og þeirra sem sjómennsku stunda með því að tengja saman með formlegum hætti afl og kunnáttu Slysavarnafélagsins Landsbjargar og hina stjórnskipulegu ábyrgð og markmiðssetningu ráðuneytisins.

Langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda.
Í upphafi starfs míns sem samgönguráðherra setti ég af stað vinnu við gerð langtímaáætlunar í öryggismálum sjófarenda. Lagði ég fyrir þingið sérstaka tillögu sem var samþykkt sem ályktun Alþingis. Á árinu 2001 voru veittar 10 milljónir til þess að framkvæma ályktunina og á þessu ári voru á fjárlögum veittar 15 milljónir króna til þessa málefnis sem Siglingastofnun fer með og hefur skipulagt í samstarfi við fjölmarga aðila. Unnin hefur verið skýrsla um framvindu þessa mikilvæga verkefnis og lögð fyrir Alþingi. Geta menn kynnt sér verkefnin, sem unnið er að í þeirri skýrslu, en hún er auk þess aðgengileg á netinu á heimasíðu samgönguráðuneytisins.

Tilgangur með þingsályktun um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda er að hrinda af stað átaki í öryggismálum sjófarenda og að unnið verði í fyrsta áfanga eftir sérstakri áætlun í þeim málum á árunum 2001 til og með 2003. Markmið áætlunarinnar er að treysta öryggi íslenskra skipa og áhafna þeirra, sem og farþega á íslenskum skipum, og skipum sem sigla í íslenskri efnahagslögsögu. Stefnt er að því að skilgreina hlutverk þeirra sem vinna að öryggismálum sjófarenda og að slysum til sjós fækki fram til ársins 2004.

Rannsóknarnefnd sjóslysa efld með nýrri löggjöf, bættri aðstöðu og auknu starfi.
Allt starf Rannsóknarnefndar sjóslysa hefur verið endurskipulagt í kjölfar nýrra laga sem ég beitti mér fyrir að væru sett um rannsóknir sjóslysa á árinu 2000. Jafnframt hafa fjárveitingar til starfs nefndarinnar verið auknar. Allt tal um vandræði nefndarinnar vegna fjárskorts eiga ekki við rök að styðjast eins og nefndarmenn hafa greint frá opinberlega. Með flutningi nefndarinnar í húsnæði Flugmálastjórnar við flugvöllinn í Stykkishólmi er verið að spara nefndinni og þar með ríkissjóði leigu á húsnæði á dýrasta stað í höfuðborginni, en nefndin var í Hafnarhúsinu í Reykjavík. Jafnframt því að ráða framkvæmdastjóra til nefndarinnar hefur verið ráðinn annar starfsmaður, sem vinnur að rannsóknum, auk þess sem fyrrverandi starfsmaður RNS var ráðinn til þess að skrá og yfirfara gögn vegna sjóslysa síðustu áratuga. Um það verkefni var gerður sérstakur samningur sem viðkomandi starfsmanni er auðvitað gert að standa við. Það verkefni er liður í því að rannsaka og greina orsakir slysa. Allt miðar þetta aukna og endurbætta starf við sjóslysarannsóknir að því takmarki að draga úr þeim hættum sem valda sjóslysum og að auðvelda rannsóknir vegna sjóslysa.
Fjárveitingar til RNS eru miðaðar við venjubundna starfsemi. Verði slys, sem kallar á kostnaðarsama rannsókn, eru fengnar sérstakar fjárveitingar til þeirra verkefna. Sama gildir um rannsóknir flugslysa. Tilraunir einstakra fjölmiðla, til þess að gera starf Rannsóknarnefndar sjóslysa tortryggilegt, eru óskiljanlegar og sýna á hvers konar villigötum sumir fjölmiðlar eru. Ég hvet áhugamenn um öryggismál sjómanna til þess að kynna sér stöðu þessara mála með því að leita upplýsinga hjá Siglingastofnun og Rannsóknarnefnd sjóslysa. Stefna ráðuneytisins er skýr og hún kemur fram í stórauknum aðgerðum á sviði öryggismála.