Við setningu ráðstefnu um öryggismál sjómanna í dag sagði Sturla Böðvarsson mikilvægt að hafa þau ávallt í deiglunni. Ráðherra gat um lagafrumvörp sem snerta siglingamál og ætlunin er að leggja fyrir Alþingi í haust og vetur. Ræðan í heild fer hér á eftir:
Öryggismál sjómanna og annarra sjófarenda þurfa alltaf að vera í deiglunni. Á öllum sviðum þurfa áhafnir, útgerðir og ýmsir aðilar í landi, þar á meðal stjórnvöld, að hugsa um öryggi. Það snertir vinnubrögð, reglur, vinnuaðstöðu, þjálfun og kunnáttu til að bregðast við óvæntum aðstæðum. Þetta allt vitum við sjálfsagt en spurning er hvernig við vinnum úr því í daglegu amstri.

Alþjóða siglingamálastofnunin hefur sent út boðskap sinn vegna Alþjóðlega siglingadagsins sem tengist öryggisviku sjómanna. Þema hennar er tæknileg samvinna og eru þar kallaðir til allir aðilar siglinga: Útgerðir, áhafnir og aðilar í landi. Alþjóða siglingamálastofnunin bendir á að siglingar hafi miklu hlutverki að gegna á alþjóðavísu og snerti þær meðal annars fátækt, útbreiðslu sjúkdóma, umhverfismál, öryggismál og siglingavernd. Öflugt flutningsnet siglinga getur ráðið úrslitum um hvernig gengur að sinna neyðaraðstoð og þróunarhjálp, hafa þarf uppi varnir gegn hugsanlegri útbreiðslu smitsjúkdóma með farþegaskipum, áhöfn þeirra eða farmi og auknar slysavarnir þýða færri skipsskaða og þar með færri mengunarslys.

Þannig eru öryggismál hvarvetna ofarlega á dagskrá þegar siglingar eru annars vegar.

Langtímaáætlun um öryggi sjófarenda er í dag hluti af samgönguáætlun hverju sinni. Þessi áætlun var í fyrstu samþykkt sem sérstök þingsályktunartillaga og tók til aðgerða árin 2001 til 2003. Í framhaldinu var öryggisáætlunin felld inní samgönguáætlun og fjármunum veitt til verkefnisins. Á þessu ári fara 20 milljónir í áætlun um öryggi sjófarenda og sömu upphæð verður veitt til hennar næsta ár og árið 2008.  Nú er unnið að endurskoðun Samgönguáætlunar og gert ráð fyrir afgreiðslu hennar á næsta þingi.

Undir langtímáætlun um öryggi sjófarenda falla verkefni á sviði menntunar og þjálfunar sjómanna, gerð fræðsluefnis, öryggis- og gæðastjórnunarkerfi, rannsóknir og margt fleira. Allt þetta miðar að því markmiði áætlunarinnar að auka öryggi og draga úr slysum meðal sjómanna. Við megum ekki gleyma því markmiði og við megum ekki slá slöku við í þessum efnum.

Tölur sýna okkur að það hefur tekist – en verkefninu er þó hvergi nærri lokið.

Banaslysum meðal sjómanna hefur fækkað hægt og bítandi. Árin 1990 til 1993 voru þau á bilinu 9 til 13, árið 1996 voru þau 10 og 2001 6. Inná milli hafa komið góð ár með aðeins einu eða tveimur banaslysum og í fyrra var það aðeins eitt. Við getum kannski ekki bent á neitt eitt atriði sem skýrir þessa fækkun nema þá almennu hugarfarsbreytingu sem fylgir því að við tökum þessi mál almennt fastari tökum og höfum aukið viðbúnað og varúðarráðstafanir sem draga úr slysaáhættu. Og aftur minni ég á að við megum ekki slá slöku við.

Nokkur lagafrumvörp sem snerta siglingar og sjómennsku verða lögð fram á Alþingi í haust og vetur. Er undirbúningur þeirra sumra vel á veg kominn og önnur eru enn í smíðum.

Við munum aftur leggja fram frumvarp um áhafnir íslenskra fiskiskipa og annarra skipa en ekki náðist að afgreiða það á síðasta þingi. Frumvarpið miðar meðal annars að því að taka upp í íslenska löggjöf ákvæði alþjóðasamþykktar um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafna fiskiskipa, stuðla að samræmingu atvinnuréttinda til starfa á kaupskipum og öðrum skipum og lögskráningu sjómanna. Þá er lagt til að skírteini skipstjórnarmanna miðist við lengd skipsins í metrum í stað brúttórúmlestatölu þess og að Siglingastofnun Íslands verði falin útgáfa atvinnuskírteina til skipstjórnar- og vélstjórnarmanna. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir auknum kröfum til stjórnunar skemmtibáta. Að lokum er lagt til að sameinaðar verði undanþágunefnd og mönnunarnefnd fiskiskipa.

Einnig er stefnt að því að leggja fram á haustþingi frumvarp til breytinga á lögum um siglingavernd sem taka einkum mið af nýjum reglugerðum Evrópusambandsins um aukið öryggi skipa, öruggari hafnaraðstöðu, um eftirlit á sviði siglingaverndar og reglum um aukna hafnavernd. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að lögin taki til ákveðinna farþegaskipa í innanlandssiglingum auk útgerða. Einnig gerir frumvarpið ráð fyrir heimildum Siglingastofnunar til þess að bregðast við brotum á reglum um siglingavernd, t.d. með kyrrsetningu skipa.

Þá er stefnt að því að leggja fram frumvarp til breytinga á hafnalögum en þar er einkum um að ræða gjaldtökuheimildir hafna. Eru þau ákvæði endurskoðuð meðal annars vegna gagnrýni frá Hafnasambandi sveitarfélaga og vegna álits frá umboðsmanni Alþingis um tiltekna gjaldtöku.

Að lokum má nefna frumvarp vegna breytts fyrirkomulags á skráningu og þinglýsingu skipa og er það mál unnið í samvinnu við dómsmálaráðuneytið. Er frumvarpið lagt fram aftur þar sem það náði ekki fram að ganga á síðasta þingi. Frumvarpið gerir ráð fyrir að við samræmum þinglýsingargagnagrunn fyrir skip og einföldum framkvæmdina sem fari þá fram á einum stað en ekki 27 eins og er í dag og að komið verði á rafrænni skráningu.

Góðir ráðstefnugestir

Öryggisvika sjómanna hefur mikla þýðingu fyrir okkur. Hér verða í dag fluttir áhugaverðir fyrirlestrar um öryggisstjórnun, heilsuvernd, eldvarnir og rannsóknir en allt eru þetta efni sem snerta öryggismálin. Á morgun eru skipshafnir hvattar til að efna til björgunaræfinga. Einn liður í því að tryggja öryggi okkar sem sjófarenda er að hafa á takteinum rétt viðbrögð við margs konar hættuástandi sem upp gæti komið. Við þurfum á fræðslu að halda og stöðugri þjálfun og þess vegna höldum við öryggisviku sjómanna.