Ráðherra þeytti lúður Sæbjargar, skips Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, við setningu ,,Öryggisviku sjómanna” nú undir hádegi. 

Í tengslum við Alþjóðasiglingadaginn, 26. september n. k., er í annað sinn haldin Öryggisvika sjómanna dagana 24. september – 1. október 2004. Þema hennar er að þessu sinni ,,Forvarnir auka öryggi”.

Til að öryggi sjófarenda verði alltaf best tryggt verður að vera til staðar góð og stöðug þjálfun sjómanna. Til að svo verði er nauðsynlegt að stjórnvöld, útgerðarmenn og sjómenn standi saman að átaki í þessum málum.

Á liðnum árum hefur mikil áhersla verið lögð á aukið öryggi sjófarenda. Má þar nefna lögleiðingu losunar- og sjósetningarbúnaðar gúmmíbjörgunarbáta, langtímaáætlun um öryggismál sjófarenda, endurskipulagning Rannsóknarnefndar sjóslysa og nú er öryggisvika sjómanna orðin hluti af verkefnaáætlun um öryggi sjófarenda. Ákveðið hefur verið að halda hana annað hvert ár í Reykjavík en hitt árið verði haldnir málfundir víðsvegar um land þar sem öryggismál sjómanna eru rædd og yfirfarin.


 
Við stjórnvölinn í góðum félagsskap

Hilmars Snorrasonar, skólastjóra

Slysavarnarskóla sjómanna,

Guðmundar Hallvarðssonar,

formanns samgöngurnefndar og

Unnar Sverrisdóttur,

formanns verkefnisstjórnar um

öryggismál sjómanna.