Tillaga til þingsályktunar um skipun rannsóknarnefndar skv. 39. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins.
Herra forseti,
Hér er til umræðu tillaga þingmanna Samfylkingarinnar um skipun rannsóknarnefndar til að rannsaka embættisfærslu ráðherra vegna málefna Landssímans og einka-væðingarnefndar og meinta óeðlilega rekstrar- og viðskiptahætti stjórnenda fyrirtækisins.
Landssími Íslands er öflugt fyrirtæki sem hefur yfirburðastöðu á íslenskum fjarskipta-markaði. Fjárhagsstaða fyrirtækisins er traust, tæknileg uppbygging þess er með því besta sem gerist, og innan þess er mikil þekking á fjarskiptamarkaðinum. Fyrirtækið hefur á að skipa góðu starfsfólki sem hefur ásamt stjórn fyrirtækisins, þrátt fyrir mikið öldurót, náð mjög góðum árangri líkt og rekstur þess og afkoma staðfestir.
Hins vegar þarf fyrirtæki eins og Landssíminn sífellt að endurskoða markmið sín og stefnu. Það er hlutverk stjórnar fyrirtækisins í samráði við eigendur að móta stefnuna og sjá til þess að rekstur fyrirtækisins gangi fram með eðllilegum og farsælum hætti.
Í þessu ölduróti kringum Landsímann völdu tveir stjórnarmenn, sem jafnframt eru forystumenn innan Samfylkingarinnar, að segja sig frá stjórnarstörfum. Aðrir stjórnarmenn hafa lýst því að eðlilegt væri að víkja á næsta aðalfundi. Í þessu ljósi, og til þess að leitast við að skapa frið um félagið, hef ég lýst því opinberlega að heppilegast sé að kjósa fyrirtækinu nýja stjórn á næsta aðalfundi, sem haldinn verður n.k. mánudag.
Nýrrar stjórnar og forstjóra bíður það verkefni að stýra fyrirtækinu áfram á kröfuhörðum markaði, svo það fái haldið forystuhlutverki sínu meðal íslenskra fjarskiptafyrirtækja, aukið verðgildi sitt og haldi áfram að veita mikilvæga þjónustu við landsmenn alla.
Því er það fullkomið vindhögg af hálfu Samfylkingarinnar að telja nauðsyn á því að skipa sérstakan pólitískan rannsóknarrétt, sem eigi að hafa það að markmiði að “endurreisa fyrirtækið” eins og segir í greinargerð með tillögunni. Það sýnir ábyrgðarleysið hjá flutningsmönnum tillögunnar að tala um að “endurreisa” Landsímann – þetta fyrirtæki sem þekktir einstaklingar úr forystuliði Samfylkingarinnar, sem sátu í stjórn Símans, hafa lýst sem einstaklega vel reknu og öflugu og góðu fyrirtæki.
Með tillögu þeirri sem hér er til umræðu í dag er ekkert annað á ferðinni en pólitískur skollaleikur, til þess eins fallinn að koma höggi á ráðherra, draga úr trausti almennings á fyrirtækinu og sniðganga þann lögmæta vettvang sem Alþingi hefur sjálft ákveðið að sé eðlilegur í máli sem þessu – sem er Ríkisendurskoðun.
Afstaða mín í þessu máli er skýr. Ég er andvígur því að skipuð verði pólitísk rannsóknarnefnd, líkt og hér er til umræðu. Ástæðan er sú að Ríkissendurskoðun er að fara yfir öll þau atriði sem varða Símann og einkavæðingarnefnd og tiltekin eru í þingsályktunartillögunni.
Það er vilji minn, og ég legg á það áherslu, að skýr svör fáist við þeim álitaefnum sem hér eru til umfjöllunar, og ég treysti Ríkisendurskoðun fullkomlega til að fara vandlega ofan í þetta mál í heild sinni.
Ríkisendurskoðun er um þessar mundir að fara yfir fjárhagsleg samskipti stjórnar fyrirtækisins, forstjóra og stjórnarformanns. Þá liggur einnig fyrir að Ríkisendurskoðun er að skoða fjárhagsmálefni einkavæðingarnefndar í tengslum við einkavæðingu Landssímans.
Því er nú þegar hafin yfirgripsmikil skoðun á öllum þeim þáttum þessa máls sem þingsályktunartillagan nær til. Velta má fyrir sér, hvort Samfylkingin er meðvitað með þessari þingsályktunartillögu að draga athyglina frá úttekt Ríkisendurskoðunar á þessu máli, og hvort Samfylkingin er með málflutningi sínum hér í dag að gera Ríkisendurskoðun, þessa mikilvægu stofnun Alþingis, tortryggilega í augum almennings.
Ég get tekið undir það sjónarmið, sem fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni, að nauðsynlegt sé að rannsaka þetta mál til hlítar – en undirstrika jafnframt enn og aftur, að lögum samkvæmt er Ríkisendurskoðun falið þetta hlutverk.
Og hún hefur sinnt þessu hlutverki sínu með miklum sóma, stofnunin hefur reyndar sýnt það og sannað að hún er með mjög virkt og öflugt eftirlit – líkt og henni er ætlað.
Vissulega má velta því fyrir sér hversvegna slíkar rannsóknarnefndir hafa ekki verið skipaðar af þinginu oftar en raun ber vitni en síðast mun það hafa gerst á miðjum sjötta áratug síðustu aldar. Þingið hefur ekki valið þá leið heldur treyst á Ríkisendurskoðun.
Ég hef miklar efasemdir um það, með fullri virðingu fyrir þingmönnum, að þingmenn séu réttu einstaklingarnir til þess að rannsaka embættisfærslur ráðherra, einkavæðingarnefndar og verk stjórnenda fyrirtækja, og spyrja má þeirrar spurningar, hvort líklegt geti talist, að sátt gæti náðst um niðurstöður þannig skipaðrar nefndar.
Herra forseti, miklar breytingar hafa orðið á fjarskiptamarkaðinum á undanförnum árum, bæði í lagasetningu, tækniþróun og þjónustu. Það er að mínu mati mjög mikilvægt að samgönguráðherra hafi öfluga forystu á sviði fjarskipta- og upplýsingatækni og ég hef lagt á það áherslu í mínu starfi.
Með gildandi fjarskiptalögum, sem ég beitti mér fyrir og tóku gildi 1. janúar 2000, var lagður grunnur að raunverulegri samkeppni í fjarskiptum á Íslandi – samkeppni sem er nú orðin að veruleika. Ennfremur tryggir fjarskiptalöggjöfin jafnan aðgang allra landsmanna að almennri fjarskiptaþjónustu á sambærilegum kjörum, og ég tel mjög mikilvægt að tryggja það einnig í gagnaflutningum.
Í samræmi við lög hef ég sem samgönguráðherra farið með eignarhlutinn í Landsímanum. Ég hef lagt mig fram um að skapa með löggjöf svigrúm og trausta aðkomu nýrra símafyrirtækja sem þurfa að keppa við Símann sem markaðsráðandi fyrirtæki.
Ég tel að þetta hafi tekist sem sést best á vaxandi markaðshlutdeild nýju símafyritækjanna. Í ljósi þess að einkavæðingu Símans seinkar og vegna þess að framundan eru miklar breytingar á fjarskiptasviðinu, m.a. með úthlutun leyfa fyrir 3. kynslóð farsíma og aukinni nýtingu ljósleiðara til sjónvarpssendinga, tel ég eðlilegt að meta það á næstunni hvort ekki sé framundan rétti tíminn til þeirra breytinga að fjármálaráðherra taki við eignarhlut ríkisins í Landssíma Íslands og fari með hann á meðan ríkið er hluthafi.
Þar með verði undirstrikaður sá skýri vilji stjórnvalda að ekki ríki tortryggni annarra fjarskiptafyrirtækja vegna eignar ríkisins í Landsímanum. Hlutverk samgönguráðuneytis verði enn sem fyrr að móta stefnu og skapa framtíðarlausnir á sviði fjarskipta og upplýsingatækni.
Um slík grundvallar atriði er ég reiðubúinn til að ræða við þingmenn en tel tíma Alþingis illa varið í að ræða tillögur eins og þá sem hér er til umræðu frá Samfylkingunni og er sýndarmennskan ein, og til þess eins fallin að skaða Landssímann.
Jafnframt vil ég árétta, að það er ekki aðeins eðlilegt, heldur beinlínis nauðsynlegt, að ríkið hætti samkeppni við þá einstaklinga og fyrirtæki sem starfa á fjarskipta markaði. Því er stefna stjórnvalda um einkavæðingu Landssíma Íslands óbreytt. Sölu hlutabréfa ríkisins verður haldið áfram um leið og aðstæður á fjármálamarkaði leyfa og viðunandi verð fæst.
Það er hinsvegar mikilsvert verkefni stjórnar og stjórnenda að verja Símann og skapa starfsfólki hans vinnufrið….
…þrátt fyrir árásir stjórnarandstöðu, og þrátt fyrir stóryrði þingmanns Samfylkingarinnar og furðulegan málflutning, sem er ekki svara verður.