Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps hefur samþykkt drög að samningi við Íslandspóst um póstþjónustu og útfærslu þjónustunnar í dreifbýli hreppsins.

Til stóð að póstur bærist með sunnanpósti inn í Djúp og yrði dreift af Hólmavíkurpóstinum eftir að landpósturinn lætur af störfum um áramótin. Í fyrirliggjandi samningsdrögum kemur fram að póstþjónustan muni verða frá Laugalandi til Ísafjarðar og til baka aftur samdægurs þrjá daga í viku, mánudaga, miðvikudaga og föstudaga, ef veður og færð leyfir og að teknu tilliti til hátíðardaga.

Þá verður íbúum í dreifbýli Súðavíkurhrepps gert mögulegt að fá far til Ísafjarðar og til baka aftur, Súðavíkurhreppi og farþegum að kostnaðarlausu. Skilyrði er gert um að farþegar láti vita deginum áður ef þeir ætla að nýta ferðirnar. Ef þörf er á annars konar útréttingum fyrir íbúa Djúpsins í Súðavík eða á Ísafirði mun Súðavíkurhreppur sjá um það á sinn kostnað en flutningur verður með Íslandspósti. Þá eru uppi hugmyndir um að Íslandspóstur muni sjá um eftirlit að nokkru leyti með bæjum þar sem búa fáir íbúar, sem jafnvel eru komnir til ára sinna.

 
Í Bæjarins besta er eftirfarandi haft eftir Ómari Má Jónssyni:
„Í samvinnu við Íslandspóst og samgönguráðherra náðum við svo að lenda þessu máli farssællega og verður engin breyting gerð á þeim þjónustuþáttum sem verið hafa, hvorki á póstþjónustunni né annarri þjónustu sem landpósturinn hefur veitt. Samgönguráðherra beitti sér ötullega í þessu máli, og í samvinnu sveitarfélagsins, Íslandspósts og samgönguráðherra náðum við þessari niðurstöðu“.