Samgönguráðherra mælti fyrir þingsályktunartillögu um öryggismál sjómanna á Alþingi í gær. Ræða ráðherra fer hér á eftir.
Tillaga til þingsályktunar um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda.

Herra forseti,

Með þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir er leitað heimildar Alþingis til að setja af stað langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda.

Með þessari tillögu er lagt til í fyrsta sinn að gert verði sérstakt átak í öryggismálum sjófarenda á grundvelli samþykktar Alþingis. Á undanförnum árum hefur mikið verið unnið í þessum málaflokki og hefur það m.a. komið fram í því að tilkynntum slysum á sjómönnum til Tryggingastofnunar ríkisins hefur fækkað verulega og dauðaslysum á sjó hefur fækkað jafnt og þétt síðasta áratuginn. En betur má ef duga skal. Það var mat Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands árið 1998 að árlegur heildarkostnaður vegna sjóslysa væri 3,2 – 4,3 milljarðar króna. Með þessari tillögu er stefnt að því að gera enn betur og efla samvinnu þeirra sem að öryggismálunum sjófarenda koma.

Aðdraganda að þingsályktunartillögu þessari má rekja til þess að í byrjun ársins 2000 ákvað ég að láta hefja vinnu við að undirbúa gerð langtímaáætlunar í öryggismálum sjófarenda. Skipuð var verkefnisstjórn 16. febrúar 2000 til að halda utanum verkið með fulltrúum frá samgönguráðuneyti, samtökum sjómanna og útgerðarmanna, Slysavarnafélaginu Landsbjörgu og Siglingastofnun Íslands. Unnið var að málinu í nánu samstarfi við aðra hagsmunaaðila og siglingaráð. Á heimasíðu Siglingastofnunar Íslands var kynning á verkefninu og var öllum sem láta sig öryggismál sjófarenda varða var gefinn kostur á að koma sjónarmiðum að. Til að geta betur metið leiðir sem þarf að fara til að bæta öryggi sjófarenda almennt var óskað eftir athugasemdum og tillögum frá sjómönnum, útgerðum og öllum sem málið varðar. Tekin voru saman ýmis sjónarmið sem fram hafa komið í skýrslum og almennri umræðu, s.s. í blöðum, tímaritum og á ráðstefnum. Sérsniðnar spurningar um öryggismál voru sendar til útgerðarfyrirtækja og sjómanna. Svör bárust frá um 120 starfandi sjómönnum og auk þess komu fram ýmsar aðrar skriflegar og munnlegar athugasemdir, alls um 600 talsins. Þessi mikli fjöldi athugasemda og tillagna bera bæði vott um þann gífurlega áhuga sem er á öryggismálum sjómanna og hversu brýnt er orðið að gera og hefja framkvæmd á samræmdri langtímaáætlun. Við undirbúning málsins voru teknar saman upplýsingar úr þeim tilkynningum um slys á sjómönnum sem bárust Tryggingastofnun ríkisins árið 1999. Skoðaðar voru nýlegar sjóslysaskýrslur og rætt var við ýmsa aðila sem hafa góða þekkingu á ákveðnum sviðum öryggismálanna. Þegar áðurnefnd atriði höfðu verið skoðuð og metin dró verkefnisstjórn út atriði varðandi öryggismálin og tengd málefni sem skoða ætti sérstaklega. Í framhaldi af því skilaði verkefnisstjórn tillögum sínum um þau atriði þar sem úrbóta er þörf og eru helstu niðurstöður hennar eftirfarandi:

* Útgerðarmenn og áhöfn bera sameiginlega ábyrgð á því að fyrirkomulag öryggismála um borð sé í góðu horfi.
* Megináherslu í öryggismálum þarf að leggja á forvarnir gegn slysum og óhöppum.
* Af hálfu þess opinbera er Siglingastofnun Íslands með öryggismál sjófarenda undir yfirstjórn samgönguráðuneytis.
* Samgönguráðuneytið hefur frumkvæði að því að hlutverk allra sem að öryggismálum sjófarenda koma verði skilgreint og efld verði samvinna og samstarf þeirra aðila.
* Siglingastofnun Íslands gerir framkvæmdaáætlun fyrir hvert ár í öryggismálum sjófarenda sem samgönguráðherra staðfestir.
* Opinberar stofnanir og aðrir, sem að öryggismálum sjófarenda vinna, senda skýrslu til Siglingastofnunar Íslands fyrir lok hvers árs um fyrirbyggjandi aðgerðir á sviði öryggismála sjófarenda.

Tilgangur með tillögu þessari er að gera langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda á árunum 2001 til 2003 með því að setja af stað sameiginlegt átak allra aðila sem að öryggismálum sjófarenda koma og er Siglingastofnun Íslands falið að vera nokkurs konar samnefnari fyrir þá. Markmið átaksins er að treysta öryggi íslenskra skipa og áhafna þeirra sem og farþega á íslenskum skipum og skipum sem sigla í íslenskri efnahagslögsögu eftir því sem nánar er ákveðið í áætluninni. Hlutverk hvers og eins sem vinnur að öryggismálum sjófarenda verður skilgreint og er stefnt að því að slysum til sjós fækki um að minnsta kosti þriðjung fram til ársins 2004 og að sama skapi dragi úr tjóni vegna sjóslysa. Samkvæmt tillögunni á samgönguráðherra fyrir 1. apríl hvers árs, fyrst árið 2002, að leggja fyrir Alþingi skýrslu um framgang áætlunar í öryggismálum sjófarenda og hvernig miðar í átt að settu marki. Sem dæmi um helstu verkefni sem samkvæmt tilögunni er lagt til að ráðist verði í eru eftirfarandi:

* Menntun og þjálfun sjómanna verði efld með ýmsum hætti.
* Gert verði sérstakt átak í öryggismálum farþegaskipa og farþegabáta.
* Átaksverkefni í fræðslu og áróðri.
* Gerð fræðsluefnis og leiðbeininga.
* Söfnun og miðlun upplýsinga milli sjómanna og aðila í landi.
* Samræmd slysa- og sjúkdómaskráning
* Úrbætur í stöðugleikamálum skipa og báta.
* Gerð verði úttekt um kostnað vegna sjóslysa.
* Slysatryggingamál sjómanna verði skoðuð.
* Fyrirbyggjandi aðgerðir í heilbrigðismálum sjómanna.
* Notkun öryggis- og gæðastjórnunarkerfa.
* Öryggistrúnaðarmannakerfi verði tekið upp í fiskiskipum.
* Eftirlit með öryggisþáttum verði eflt.
* Auka rannsóknir og úttektir á sviði öryggismála skipa.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um efni tillögunnar og vísa að öðru leyti til greinargerðar með henni. Að endingu vil ég leggja áherslu á að sjóslys við Ísland eru alltof tíð og verður að leita allra leiða til að fækka þeim. Mikilvægt er að allir leggi sitt af mörkum til að svo megi verða og tillaga sú til þingsályktunar um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda sem hér er lögð fram er mikilvægt skref að því marki.

Ég vil að lokum leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hæstvirtrar samgöngunefndar.