Ráðherra opnaði formlega fyrr í dag sjálfvirka tilkynningakerfið fyrir íslenska skipaflotann, en kerfi þetta kemur í stað hinnar hefðbundnu tilkynningarskyldu skipa.
Við athöfn í Gróubúð, húsi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, var kerfið kynnt og síðan formlega gangsett af samgönguráðherra. Við það tilefni flutti hann eftirfarandi ávarp:

Ágætu samkomugestir, við erum hér vitni að merkum viðburði – mjög mikilvægum áfanga í öryggismálum sjómanna -þegar sjálfvirka tilkynningaskyldukerfið er nú loksins tekið í gagnið. Ég segi ekki loksins vegna þess að undirbúningur málsins hafi gengið óeðlilega illa eða hægt heldur vegna þess að væntingarnar hafa náð yfir langan tíma hjá þeim sem hafa unnið að undirbúningi þess.

Auðvitað hlýt ég fyrst og fremst að þakka þeim fjölmörgu starfsmönnum – sérfræðingum sem hafa komið komið að þessu verki við hönnun kerfisins, en ekki síður vil ég þakka þeim sem hafa rekið verkið áfram og verið aðal driffjaðrirnar, það er Slysavarnarfélagið Landsbjörg og þeir sem að því starfi standa. Við hljótum að þakka öllum þessum aðilum fyrir vel unnið verk og vonum svo sannarlega að það komi að gagni sem ég raunar efast ekki um.

Af þessu tilefni vil ég nota tækifærið og geta þess sem nú er verið að vinna að í samgönguráðuneytinu, og tengist öryggismálum sjómanna. Í fyrsta lagi vil ég nefna að fyrir Alþingi liggur nú frumvarp sem samgöngunefnd er að vinna í og gerir ráð fyrir enn hertum kröfum um tilkynningaskylduna. Mikilvægt er að öll skip séu tengd þessu kerfi og það skiptir mjög miklu máli að sem fæstar undantekningar séu þar á. Vonandi verður það frumvarp afgreitt fyrir þinglok þó stuttur sé nú tíminn. Í annan stað eru breytingar á siglingalögum og löggjöf um Rannsóknanefnd sjóslysa þar sem gert er ráð fyrir miklum breytingum á rannsókn sjóslysa og miðar að því að auka öryggið, læra af því sem úrskeiðis fer þannig að hægt verði að leggja á ráðin um það hvernig betur megi standa að þeim málum. Þetta frumvarp er að mínu mati mjög mikilvægt og ég á ekki von á öðru en það verði einnig afgreitt. Þá vil ég nefna að ég hef sett af stað vinnu um gerð langtímaáætlunar um öryggismál sjómanna. Ég tel að það skipti mjög miklu máli þó við séum í dag að ná merkum og mikilvægum áfanga að við reynum að horfa fram í tímann, gera okkur grein fyrir því hvaða leiðir eigi að fara og hvað það sé sem við viljum gera á næstu árum og jafnvel næstu áratugum til þess að öryggi sjómanna sé sem best tryggt. Þetta starf er unnið á vettvangi Siglingastofnunar í samstarfi við Slysavarnarfélagið og að sjálfsögðu er leitað til forsvarsmanna sjómanna og útvegsmanna. Ég bind miklar vonir við þetta starf að undirbúningi og gerð langtímaáætlunar um öryggismál sjómanna.

Að lokum vil ég segja frá því hér að það er unnið að gerð samnings við Slysavarnarfélagið Landsbjörg sem á að tryggja sem best og mest má verða hina fjárhagslegu hlið þeirra verkefna sem Slysavarnarfélagið Landsbjörg vinnur í vegna þeirra hluta sem snúa að samgönguráðuneytinu. Þar er um að ræða í fyrsta lagi Slysavarnarskólann sem er geysilega mikilvæg starfsemi. Í annað stað er það síðan staðsetningarkerfið. Það er alveg ljóst að kostnaður við hönnun kerfisins, og umfang þess hefur vaxið, þannig að verkið hefur orðið kostnaðarsamara en til stóð. Það þarf því að finna leiðir til þess að ljúka því og ekki síður að sjá til þess að reksturinn sé tryggður til frambúðar. Um það þarf einnig að semja. Þá er gert ráð fyrir að í þessum samningi verði fjallað um það samstarf og hvernig samgönguráðuneytið kemur að öðrum verkefnum sem Slysavarnarfélagið Landsbjörg vinnur að og m.a. á að tryggja starf slysavarnarfélaganna og björgunarsveitanna út um landið. Ég vona að sem fyrst verði lokið við þennan samning og það verði góð sátt um það verkefni og við getum horft til nýrrar aldar í þeirri fullvissu að Slysavarnarfélagið Landsbjörg og allir þeir sem vinna að öryggis- og björgunarmálum sjómanna standi eins vel að vígi og kostur er. Með þeim orðum vil ég þakka ykkur fyrir þessa stund og þá er ekki annað en ýta á rauða hnappinn og ræsa þar með kerfið formlega!