Málefni trúnaðarlæknis Flugmálastjórnar Íslands hafa verið til umfjöllunar í opinberri umræða að undanförnu. Samgönguráðherra skipaði í dag nefnd vegna þessa. Í nefndinni sitja Andri Árnason, hrl., formaður, Gestur Jónsson, hrl., Sigurður Guðmundsson, landlæknir, og Ragnhildur Hjaltadóttir, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu. Skipunarbréf nefndarinnar fer hér á eftir.
Ráðuneytið hefur móttekið bréf flugmálastjóra, dags. 31. desember 2001, þar sem óskað var eftir því, með vísan til fundar dags. 27. desember 2001, að skipuð yrði nefnd eða vinnuhópur þriggja manna til að gera úttekt á afgreiðslu þess máls sem varðar Árna G. Sigurðsson flugstjóra, og þá sérstaklega afskipti Þengils Oddssonar yfirlæknis af þessu máli.

Í bréfinu sagði jafnframt að í framhaldi af framangreindum fundi óskaði flugmálastjóri eftir að samgönguráðherra hlutaðist til um að þessi nefnd yrði skipuð og hefði störf hið fyrsta. Samgönguráðherra sem fer með yfirstjórn flugmála telur eftir atvikum rétt að verða við beiðni flugmálastjóra og skipa umrædda nefnd.

Málefni trúnaðarlæknis Flugmálastjórnar Íslands hafa verið til umfjöllunar í íslenskum fjölmiðlum í kjölfar ályktunar stjórnarfundar Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) þar sem svohljóðandi ályktun var samþykkt:

,,Stjórnarfundur Félags íslenskra atvinnuflugmanna haldinn 18. 12.2001 krefst þess að trúnaðarlæknir Flugmálastjórnar verði látinn víkja úr starfi vegna ítekaðrar valdníðslu gagnvart flugstjóra, félagsmanni í FÍA í tengslum við útgáfu og endurnýjun heilbrigðisvottorða og flugskírteinis. Hefur trúnaðarlæknirinn og Flugmálastjórn ítrekað virt að vettugi endanlegan úrskurð kærunefndar á stjórnsýslustigi og gengið gegn úrskurðum samgönguráðuneytisins vegna heilbrigðisvottorðs og flugskírteinis flugstjórans og leitast með öðrum hætti við að koma í veg fyrir að hann geti neytt stjórnarskrárvarinna atvinnuréttinda sinna. Hefur þessi háttsemi leitt til fulls trúnaðarbrests milli félagsins annars vegar og Þengils Oddssonar og Flugmálastjórnar hins vegar. Er þess jafnframt krafist að Flugmálastjórn biðjist afsökunar á framferði sínu og trúnaðarlæknisins, einnig að hún greiði kostnað sem af því hefur hlotist.“

Málavextir vegna umræddrar málsmeðferðar í máli flugstjórans eru svohljóðandi: Samkvæmt læknisvottorði Þorkels Guðbrandssonar, dags. 6. ágúst 1999, veiktist flugstjórinn þann 4. október 1998 með máttarminnkun í vinstri líkamshelmingi. Þessi einkenni gengu yfir að mestu á sólarhring. Þó eymdi eftir af þeim í fætinum um nokkurt skeið en þau gengu síðan endanlega til baka og há honum ekki í daglegu lífi.

Með bréfi dags. 10. ágúst 2000 var flugstjóranum tilkynnt um að ákveðið hefði verið að draga endanlega til baka heilbrigðisvottorð hans vegna veikinda. Þá ákvörðun Flugmálastjórnar kærði hann með kæru dags. 27. september 2000 til kærunefndar skv. reglugerð nr. 419/1999 um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands. Þann 3. október 2000 voru Finnbogi Jakobsson, sérfræðingur í taugalækningum, Guðmundur Þorgeirsson, sérfræðingur í hjartasjúkdómum og Matthías Halldórsson, aðstoðarlandlæknir skipaðir í nefnd til að meta heilbrigðisvottorð flugmannsins.

Með áliti sínu dags. 7. maí 2001 komst kærunefndin að þeirri niðurstöðu að flughæfni flugstjórans væri óskert og hann fullnægði heilbrigðisákvæðum reglugerðar um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands nr. 419/1999 um heilbrigðisvottorð. Í forsendum álits nefndarinnar kom m.a. fram að leiðbeiningahandbók Alþjóðlegu flugmálastofnunarinnar JAR-FCL 3 MED hefði verið lögð til grundvallar mati. Þrátt fyrir ákvörðun kærunefndarinnar lýsti Flugmálastjórn Íslands því yfir með bréfi, dags. 25. maí 2001 að stofnuninni virtist rétt að binda atvinnuflugmannsskírteini þeim takmörkunum að réttinda samkvæmt því yrði aðeins neytt í fjölskipaðri áhöfn.

Með bréfi dags. 7. júní 2001 beindi ráðuneytið þeim tilmælum til Flugmálastjórnar, að taka mál flugstjórans til afgreiðslu í samræmi við framangreinda niðurstöðu nefndarinnar. Það gerði Flugmálastjórn ekki, því með bréfi dags. 21. júní 2001 ákvað stofnunin að gefa út heilbrigðisvottorð með takmörkunum að réttinda verði aðeins neytt í fjölskipaðri flugliðaáhöfn, sbr. c-lið gr. 1.2.4.8. sem heimilar takmörkun réttinda ef heilbrigðiskröfum er ekki fullnægt.

Þessi ákvörðun var kærð til samgönguráðuneytisins með stjórnsýslukæru dags. 16. september 2001. Með úrskurði dags. 26. október 2001 komst ráðuneytið að þeirri niðurstöðu að Flugmálastjórn bæri að fella niður þá takmörkun sem fælist í áritun á skírteini hans um að honum væri aðeins heimilt að nýta flugréttindin samkvæmt skírteininu í fjölskipaðri áhöfn. Jafnframt skyldi Flugmálastjórn Íslands gefa út heilbrigðisvottorð kæranda til 6 mánaða. Forsendur úrskurðarins byggðust á því að þar sem kærunefndin hefði gefið óskilyrta yfirlýsingu um að flugmaðurinn uppfyllti heilbrigðiskröfur væri óheimilt að beita þeim ákvæðum skírteinareglugerðar sem heimila takmarkanir á skírteini ef heilbrigðiskröfum er ekki fullnægt.

Hinn 31. október 2001 var heilbrigðisvottorð flugmannsins endurnýjað til 15. desember 2001 í samræmi við úrskurð ráðuneytisins. Þrátt fyrir úrskurð þess var það þó enn bundið takmörkunum. Sú ákvörðun var kærð til ráðuneytisins með stjórnsýslukæru dags. 5. nóvember 2001. Með úrskurði dags. 16. nóvember 2001 ítrekaði ráðuneytið fyrri úrskurð dags. 26. október 2001.

Með bréfi dags. 29. nóvember 2001 tilkynnti Flugmálastjórn að yfirlæknir stofnunarinnar í heilbrigðisskor skírteinadeildar, Þengill Oddsson, hafi með bréfi dags. 26. nóvember s.l. sagt sig frá málinu. Þann 18. desember 2001 samþykkti stjórnarfundur Félags íslenskra atvinnuflugmanna ályktun þar sem þess var krafist að trúnaðarlæknir Flugmálastjórnar yrði látinn víkja vegna ítrekaðrar valdníðslu gagnvart flugstjóra, félagsmanni í FÍA í tengslum við útgáfu og endurnýjun heilbrigðisvottorða og flugskírteinis. Í framhaldi af því fóru að berast fregnir af því í fjölmiðlum að minni kröfur væru gerðar til heilbrigðis flugmanna á Íslandi en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Í fjölmiðlum kom fram að Þengill Oddsson hefði kannað hvort flugmaður með sjúkrasögu umrædds flugmanns hefði fengið útgefið heilbrigðisvottorð hjá flugmálayfirvöldum í Kanada, Bretlandi og Noregi.

Þær forsendur sem Þengill kynnti fyrir trúnaðarlæknum þeirra stofnana og lágu til grundvallar álits þeirra liggja ekki enn fyrir.

Í ljósi framangreinds telur samgönguráðherra mikilvægt að farið verði bæði yfir stjórnsýslu og opinberar yfirlýsingar trúnaðarlæknis Flugmálastjórnar vegna útgáfu heilbrigðisvottorðs Árna G. Sigurðssonar.

Ráðuneytið vill árétta, að þó flugmálastjóri hafi leyst trúnaðarlækni Flugmálastjórnar, Þengil Oddsson, tímabundið frá störfum, þá hefur tilnefning hans í trúnaðarstörf gagnvart JAA ekki verið afturkölluð.

Niðurstöður nefndarinnar skulu liggja fyrir eigi síðar en 1. mars 2002.