Saltfisksetur Íslands í Grindavík var opnað með pompi og prakt s.l. föstudag. Við opnunina flutti samgönguráðherra meðfylgjandi ávarp.
Forseti Íslands, bæjarstjóri, stjórn Saltfiskseturs, góðir gestir!

Sagan og menning er ein helsta auðlind okkar Íslendinga og mikilvægur þáttur í ferðaþjónustu. Til að sagan megi verða skiljanleg í nútímanum þarfnast hún hugmyndaauðgi og kraftmikilla eintaklinga sem láta verkin tala. Hér í dag sjáum við hvernig fólk, sem er stolt af fortíðinni og bænum sínum, hefur náð að gera saltfiskverkun mikilvægan hluta menningarsögunnar. Saga saltfiskverkunar er hér gerð aðgengileg þeim sem ekki upplifðu þann tíma er saltfiskverkunin mótaði og setti svip á íslenskt þéttbýli.

Það er undravert hvernig hér hefur tekist að sýna og vekja tilfinningu fyrir þeim tíma er fiskreitir og stakkstæði voru um allan bæ þar sem fiskurinn var breiddur og þurrkaður.

Saltfisksetur Íslands er stórmerkilegt innlegg í þá umræðu að menning lands okkar og saga verði ekki síður, en náttúra landsins, aðdráttarafl fyrir íslenska og erlenda ferðamenn. Og það fer vel á því þegar atvinnulífð og náttúran tengjast jafn ótvírætt og í þessu tilviki. Sjósókn og saltfiskverkun var lykilll að auðlegð margra sjávarbyggða. Sú auðlegð, sem fiskurinn hefur skapað, er víða undirstaða nútíma velferðasamfélags með stöðugt öflugri innviði og þess að aðrar atvinnugreinar hafa síðan náð fótfestu líkt og ferðaþjónustan. Vonandi rætist einnig sá draumur að setrið verði nýtt til uppfræðslu skólafólks um fiksverkun í fortíð og nútíð.

Sem ráðherra ferðamála fagna ég þessu merkilega framtaki sem hér er kynnt í dag og opnað formlega. Ég leyfi mér að óska öllum aðstandendum Saltfiskseturs Íslands innilega til hamingju með daginn og það er von mín að setrið megi vaxa og dafna í framtíðinni og verða mikilvæg stoð ferðaþjónustunni við hlið Bláa lónsins sem er einstök perla í íslenskri ferðaþjónustu.