Þann 4. júlí var haldin ráðstefna í Skaftafelli um aðgengi fatlaðra að ferðamannastöðum. Meðan á ráðstefnunni stóð var opnaður göngustígur að Skaftafellsjökli og er stígurinn fær fólki í hjólastól. Við það tilefni flutti samgönguráðherra ræðu sem fer hér á eftir.
Umhverfisráðherra, ráðstefnustjóri, góðir gestir!

Ferðaþjónustan er Íslendingum mikilvæg atvinnugrein og er því stefnt að því að auka umsvif hennar enn frekar. Það skal þó gert í sátt við landið okkar enda á þessi atvinnugrein mikið undir fegurð og hreinleika landsins. Sjálfbær ferðamennska er rauði þráðurinn í þeirri stefnumótun sem unnið er eftir enda auðlindin afar viðkvæm. Ýmsum ráðum er beitt til að minnka álag ferðamanna á íslenska náttúru og áherslan í æ ríkari mæli á dreifingu ferðamanna sem víðast um landið og yfir allt árið.

Stöðugt er leitað nýrra leiða til að fá fólk til að koma til landsins og er reynt eftir megni að leggja áherslu á að hver ferðamaður njóti sem bestrar þjónustu og eigi sem mest viðskipti. Þannig skapast fleiri störf og tekjurnar aukast. Ferðaþjónustan sem atvinnugreinin er þó enn ung og eigum við enn margt ólært.

En hvað er verið að gera til að auka umsvifin? – Íslendingar eru hvattir til ferðalaga um eigið land og kynning á Íslandi sem viðkomustað ferðamanna eykst ár frá ári bæði í Evrópu og Ameríku. Enn víðar er hægt að leita fanga enda heimurinn stór og allt sem bendir til að ferðalög haldi áfram að aukast þrátt fyrir bakslagið sem varð á síðasta ári. Þessi aukning mun þó ekki koma af sjáfu sér. Kröfur fólks um betri þjónustu aukast eftir því sem það fer víðar. Frítíminn er kominn í hóp þeirra verðmæta sem við kunnum hvað mest að meta.

Það er mikilvægt að við förum ekki fram úr sjálfum okkur við kynningu á landinu, hún verður alltaf að vera gegnheil og því mikilvægt að öll kynning hvíli á traustum grunni. – Stundum er talað um að grunnstoðir ferðaþjónustu séu samgöngur, gisting og veitingar. Til viðbótar er svo afþreyingin eða ævintýramennskan. Mikill uppgangur er á öllum þessum sviðum eins og þið þekkið. Viðamesti hlutinn er samgöngukerfi landsins og þá fyrst og fremst vegirnir. Þó skal ekki vanmeta gildi flugs og ferjusiglinga fyrir ferðaþjónustuna hér á landi. Í áætlun sem ég hef lagt fyrir Alþingi er gert ráð fyrir að tekið sé mið af þeim umframkostnaði sem hlýst af því að gera almenningssamgöngur aðgengilegar fötluðum. Ég hef einnig beitt mér fyrir því að fjármunir til Ferðamálaráðs og Vegagerðarinnar vegna úrbóta á fjölsóttum ferðamannastöðum hafa stóraukist undanfarin ár og hafa úrbæturnar einkum beinst að tvennu: Að koma í veg fyrir skemmdir náttúruperlum og – ekki síður – að bæta aðgengi og upplýsingagjöf. Þannig skapast skilyrði fyrir því að sem flestir fái notið staðanna.

Fyrir nokkrum árum var gefinn út bæklingur með upplýsingum um þá staði sem höfðu aðgengi fyrir fatlaða í lagi. Hins vegar spretta ný gistihús og veitingastaðir upp um land allt og þarf því stöðugt að vera á verði. Bændur hafa í auknum mæli gert ráð fyrir aðstöðu fyrir fatlaða, oft a.m.k. eitt herbergi með stærra salerni og tilheyrandi búnaði. Síðustu tvö árin hefur Ferðaþjónusta bænda safnað upplýsingum um þá staði sem hafa aðgengismál í lagi og mun úttekt ljúka með haustinu. Eins og staðan er í dag eru um 10 bæir sem auglýsa aðstöðu fyrir fatlaða og/eða fólk í hjólastólum. Samtök ferðaþjónustunnar hyggjast taka á þessum málaflokki og munu hafa til grundvallar helstu stefnumið Sjálfsbjargar í ferlimálum og nýja norræna skýrslu – Aðgengi fyrir alla – en samgönguráðuneytið átti aðild að gerð hennar auk samstarfs við þá aðila sem þessum málaflokki stjórna. Eins og ég kem að síðar er þar tekið á fleiri tegundum fatlana eða hindrana en hingað til hefur verið lögð áhersla á.

Ráðuneyti ferðamála og ferðaþjónustan horfa eðlilega til þeirra atriða sem heyra beint undir samgönguráðuneytið, til að mynda þeirra breytingar sem gera þarf á samgöngutækjum til að auðvelda fötluðum að ferðast.

Nýleg úttekt í Danmörku bendir til þess að upplýsingar ferðaþjónustufyrirtækja um aðgengi fyrir fatlaða séu engan veginn fullnægjandi enda ekki settar fram á kerfisbundinn hátt. Því þurfa þeir sem reka hótel, farfuglaheimili, tjaldstæði, skemmtigarða, söfn, veitingastaði og upplýsingamiðstöðvar að taka sér tak. Það sama á við um íslenska ferðaþjónustu. Hér er verk að vinna og munu ferðamálayfirvöld horfa til þeirra tillagna sem fram koma í áðurnefndri norrænni skýrslu. Þar eru sett fram fimm grunnmerki sem staðir geta sett upp og vísa til þess að viðkomandi staðir séu öruggir:

 fyrir fólk í hjólastól,
 fyrir fólk í hjólastól sem er með fylgdarmann,
 sjónskerta,
 heyrnadaufa
 og fólk með ofnæmi af ýmsu tagi.

Það má vel ímynda sér að það kosti töluvert, mismikið þó, að gera þær breytingar eða lagfæringar sem staðlaðar merkingar af þessu tagi krefjast en því má ekki gleyma að það má hafa umtalsverðar tekjur af þeim stóra hópi fólks sem þarf víðtækari þjónustu en gengur og gerist. Aldraðir eru til að mynda að verða einn þýðingarmesti markhópur ferðaþjónustu í heiminum. Þetta fólk á síðan fjölskyldur og vini sem enn myndu stækka hópinn.

Hér er því um risastóran hóp ferðamanna að ræða. Fólk sem ég tel víst að aðilar í ferðaþjónustu vilji ná til og bjóða velkomið til að njóta allrar þjónustu til jafns við aðra – og þar með gera því kleift að ferðast um þetta land.