Setningarávarp samgönguráðherra á ráðstefnu um öryggi og heilsu sjómanna 3. október 2002
Ágætu ráðstefnugestir.

Sjómennskan er ólík öllum öðrum störfum. Vinnustaður sjómannsins er hafið með öllum þeim áhrifum veðurs og sjóslags sem því fylgja. Hætturnar leynast víða og slys á sjó eru of tíð. Svo árangur náist í fækkun slysa verða yfirvöld og hagsmunaaðilar að taka höndum saman. Öryggisvika sjómanna er liður þeirri baráttu. Þessi fyrsta öryggisvika hefur tekist vel og er það trú mín og von að hér eftir verður hún árviss viðburður. Því forvarnir slysa byggja í höfuðatriðum á fræðslu og aftur fræðslu, upprifjun og aftur upprifjun. Vika sem þessi á að minna sjómenn á að þjálfuð, örugg og skjót viðbrögð áhafnar skiptir öllu máli þegar slys ber að höndum.

Betur má ef duga skal. Leita verður allra leiða til að fækka slysum á sjó. Með það að markmiði lagði ég fram á Alþingi þingsályktunartillögu um langtímáætlun í öryggismálum sjómanna sem samþykkt var árið 2001 og gildir í fyrsta áfanga til 2003. Þar er megináherslan lögð á fyrirbyggjandi aðgerðir, t.d. með því að auka vitund sjómanna um slysahættu, virkja eftirlit útgerða og áhafna með öryggismálum í skipum og svo mætti lengi telja.
Einnig beitti ég mér fyrir breytingu á lögum um rannsóknir sjóslysa og ráðuneytið hefur lagt ríka áherslu á að efla Rannsóknarnefnd sjóslysa. Tilgangur nýrra laga um Rannsóknarnefnd sjóslysa er að efla starf og sjálfstæði rannsóknarnefndarinnar. Einnig er það nýmæli að nefndinni ber, í niðurstöðum sínum, að koma með tillögur til úrbóta sem byggðar eru á niðurstöðu hverrar rannsóknar en vandaðar rannsóknir á slysum skipta miklu um forvarnir.

Síðar í dag munum við heyra um rannsóknir Lovísu Ólafsdóttur um áhrif svefnmynsturs á heilsu sjómanna. Sú rannsókn hefur vakið athygli mína. Ég tel mikilvægt að fylgja þessari rannsókn eftir og nýta niðurstöður hennar sem best. Hef ég ákveðið að styðja frekari rannsóknir og úrfinnslu þeirra í samvinnu við Rannsóknarnefnd sjóslysa.

Slysavarnaskóli sjómanna hefur lyft Grettistaki í fræðslu um öryggismál sjómanna. Með markvissri þjálfun og notkun öryggisbúnaðar um borð hefur með skipulögðum hætti verið unnið að fækkun slysa. Til að sannreyna þetta hef ég ákveðið að fela Rannsóknarnefnd sjóslysa að gera úttekt á áhrifum þjálfunar í Slysavarnaskóla sjómanna á björgun úr sjávarháska.

Til að leggja skólanum lið er það mér sönn ánægja að afhenda skólastjóra hans, Hilmari Snorrasyni, þetta gjafabréf. Með bréfi þessu gefur samgönguráðuneytið Slysavarnaskóla sjómanna fjarskiptabúnað í þrjá björgunarbáta sem eru í eigu skólans. Er það von mín að gjöfin komi skólanum að góðum notum og verði honum til heilla.

Ég vænti þess að ráðstefnan verði okkur öllum til gagns og það er mér heiður að fá að bjóða ráðstefnugestum veitingar í lok annasams dags.

Ég segi ráðstefnu um “öryggi og heilsu sjómanna um borð”, SETTA.