Hér á eftir fer ræða samgönguráðherra sem flutt var á ráðstefnu um sjálfbærar samgöngur laugardaginn 10. febrúar sl.

Ráðstefna um sjálfbærar samgöngur
laugardag 10. febr. kl. 10 á Akureyri

Ávarp ráðherra við upphaf ráðstefnunnar – ný drög 9. febr.

Góðir ráðstefnugestir

Samgöngukerfi er grunnnet og forsenda nútímaþjóðfélagsins. Samgöngur hafa reyndar verið grunnnet allra þjóðfélaga á öllum tímum því þær eru hverri þjóð lífsnauðsynlegar. Samgöngunetið, hvernig sem það lítur út eða er saman sett, gerir okkur kleift að fara víða og flutningar eru forsenda vaxtar og hagsældar.

Samgöngukerfi hafa þróast með ýmsum hætti gegnum þúsundir ára og tilgangur samgangna hefur einnig tekið miklum breytingum. Áður fyrr voru það helst ofurhugar, landkönnuðir, þrælasalar og verslunarmenn sem fóru um lönd og álfur og ráku misjafnlega göfug erindi sín. Eftir því sem samfélagið þróaðist fóru samgöngukerfin að þjóna ferðahug okkar og á síðustu öldum urðu smám saman til öflug flutningakerfi kringum daglega flutninga innan landa og milli landa. Þessi flutningakerfi þjóna bæði fólki og frakt og í nútímaþjóðfélaginu er það gert með bílum, skipum, lestum og flugvélum og á síðustu árum eru menn jafnvel farnir að horfa út fyrir okkar eigin móður jörð.

Við getum leikið okkur og prjónað út frá orðinu samgöngur. Þær gera okkur kleift að eiga mikil samskipti við samlanda okkar og þannig eigum við mikinn samgang við samferðamenn.. Samgöngur sameina okkur og við getum verið samstiga í því áliti okkar að þær séu sem greiðastar. Við þurfum líka að samtvinna þær öllu sem heitir öryggi og saman stefnum við að því sameiginlega markmiði að samfélagið sé eins laust við slys og unnt er. En við megum ekki verða samdauna því að horfa aðeins á götur og vegi og hugsa ekkert um  umhverfið. Og erum við þar komin að sameiginlegum kjarna þessa dags, sjálfbærum samgöngum. Markmið okkar hlýtur að vera að samgöngur séu hagkvæmar og raski ekki jafnvægi náttúrunnar.

Við komumst hins vegar ekki framhjá þeim raunveruleika að samgöngur hafa áhrif á umhverfið. Við komumst heldur ekki framhjá þeirri staðreynd að samgöngur eru nauðsynlegar. Þjóðverjar voru spurðir að því á árunum fyrir stríð hvernig þeir hefðu efni á því að leggja svo mikið í vegi og samgöngumannvirki. Svarið var að þeir hefðu ekki efni á að gera það ekki. Hér er það sama uppi á teningnum. Við Íslendingar höfum ekki efni á slöku samgöngukerfi innanlands eða til annarra landa.

Greiðar og öruggar samgöngur eru forsenda vaxtar og viðgangs í þjóðfélaginu. Jákvæðu áhrifin eru hreyfanleikinn sem þær skapa vegna atvinnu, búsetu og ferðalaga. Neikvæðu hliðarnar eru ýmis áhrif sem samgöngumannvirkin geta haft á umhverfið.

Um þessar mundir vinn ég að því að fá samþykkta á Alþingi nýja 12 ára samgönguáætlun. Gerð hennar er mjög mikilvæg fyrir allt skipulag og alla heildarsýn og stefnumótun í samgöngumálum. Helstu markmið samgönguáætlunar eru þessi:
n     Greiðari samgöngur
n     Hagkvæm uppbygging og hagkvæmur rekstur
n     Umhverfislega sjálfbærar samgöngur
n     Öryggi
n     Jákvæð byggðaþróun

Ég staldra hér aðeins við einn þáttinn, um sjálfbærar samgöngur. Stefnt skal að sjálfbærum samgöngum.  Markmið okkar hlýtur að vera að nýta ekki endurnýjanlegar auðlindir hraðar en endurnýjun þeirra leyfir og að ekki verði gengið hraðar á óendurnýjanlegar auðlindir en svo að mögulegt sé að þróa og skipta yfir í endurnýjanlegar auðlindir. Þetta er göfugt markmið en við eigum langt í land.

Til að ná því markmiði setjum við fram í samgönguáætlun þau markmið að stuðla að nýtingu umhverfisvænna orkugjafa. Við viljum stefna að því að notkun vistvæns eldsneytis verði um 20% af heildarnotkun við lok áætlunartímabilsins, skattlagning eignarhalds og notkunar verði þannig að sparneytnir bílar, tvinnbílar og þeir sem  nota vistvænt eldsneyti verði fýsilegri kostur en nú.  Það sama gildi um skipavélar. Aukin áhersla verði lögð á rannsóknir á því hvernig draga megi úr mengun frá skipum, flugvélum og bílum.

Umhverfismat áætlana
Með samgönguáætlun fyrir árin 2007 til 2018 fylgir nú í fyrsta sinn umhverfisskýrsla í samræmi við lög um umhverfismat. Með henni eru mörkuð tímamót. Þar er gerð grein fyrir heildarmati á  afleiðingum áætlunarinnar á umhverfi og samfélag. Ísland er meðal fyrstu landa í Evrópu sem hrint hafa í framkvæmd mati á umhverfisáhrifum samgönguáætlunar á landsvísu. Í skýrslunni eru skilgreind þau áhrif sem kunna að verða veruleg og lagðar fram tillögur um hvernig bregðast má við þeim og jákvæð áhrif eru einnig dregin fram. Metin eru heildaráhrifin en síðan þarf að vinna mat á umhverfisáhrifum einstakra framkvæmda þegar til þeirra kemur.  Umhverfismálin eru því í hávegum höfð.

Í umhverfisskýrslunni segir að samgönguáætlun 2007 til 2018 sé í samræmi við byggðaáætlun, ferðamálaáætlun 2006 til 2015 og heildarstefnu um málefni hafsins. Bent er á að ákveðin óvissa sé um áhrif einstakra framkvæmda á náttúrufar en líklegt talið að sumar framkvæmdir kunni að vera í ósamræmi við áðurnefndar áætlanir. Til að eyða þeirri óvissu verði á síðari stigum ákvarðana um framkvæmdir að meta áhrif á líffræðilega fjölbreytni og einstök vistkerfi, búsvæði eða jarðmyndanir sem njóta verndar. Þá segir að áætlunin sé í samræmi við helstu alþjóðlegu samninga sem Ísland er aðili að.

Helstu áhrif á náttúrufar eru vegna einstakra framkvæmda víða um landið. Neikvæð áhrif eru meðal annars rask á gróðri og jarðminjum, hrauni, tap á búsvæðum og skerðing á friðlýstu og/eða ósnortnu landi. Í skýrslunni er bent á að uppbygging hálendisvega kunni að hafa veruleg og neikvæð áhrif. Einnig segir að víðerni eins og miðhálendi Íslands séu nú óvíða annars staðar í Evrópu og í því felist sérstaða þess. Segir í matsskýrslunni að áður en ákvörðun er tekin um hálendisvegi þurfi að eiga sér stað almenn umræða í þjóðfélaginu þar sem margvísleg sjónarmið komi fram um tilgang og nauðsyn slíkra framkvæmda.

Um helstu áhrif á samfélag segir að þau snúi að umferðaröryggi, styttingu leiða og ferðatíma. Flestar framkvæmdir séu til þess fallnar að hafa jákvæð áhrif á ferðir meirihluta landsmanna. Bent er á að bætur og styttingar muni auka öryggi og auka umferð og að líklegt sé að auknir landflutningar hafi neikvæð áhrif. Í því ljósi skiptir miklu að stytta flutningaleiðir.

Helstu áhrif einstakra framkvæmda samgönguáætlunar á náttúrufar eru sögð vera vegna Norðausturvegar, Héðinsfjarðarganga, Hornafjarðarfljóts, Vestfjarðavegar og Djúpvegar
Um áhrif á loftslag segir að til að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Kyoto-bókuninni sé nauðsynlegt að líta til samgangna sem stórs mengunarvalds. Samgöngur valda meira en 90% af brennslu eldsneytis á Íslandi og því sé til mikils að vinna ef losun gróðurhúsalofttegunda frá þeim er takmörkuð. Spáð er að mest aukning á losun á koltvíoxíði verði vegna flugumferðar en fiskiskip og bílar eigi samanlagt um helming losunar þess vegna samgangna. Mikilvægt er að stefna að því að losun mengandi efna í andrúmsloftið frá bílum aukist ekki í sama hlutfalli og umferðin. Talið er raunhæft samkvæmt spám umhverfisráðuneytis, Umhverfisstofnunar og Orkuspárnefndar að stefna að því að losun koltvíoxíðs í andrúmsloftið frá bílaumferð muni ekki aukast verulega til ársins 2018.

Nokkrar helstu framkvæmdir
Ég vil í lokin nefna nokkrar framkvæmdir sem ljóst er að ráðast þarf í og munu hafa áhrif á styttingu leiða, auka öryggi og styrkja vegakerfið og eru liður í því að skapa sjálfbærar samgöngur.

Þar ber fyrst að nefna Sundabraut sem verður ein umfangsmesta framkvæmdin á höfuðborgarsvæðinu næstu árin.

Stefna ber að því að jafnan verði unnið við tvö jarðgöng í senn. Jarðgöng hafa mikil jákvæð áhrif á umhverfið. Unnið er nú að Héðinsfjarðargöngum og síðan er ráðgert að ráðast í Óshlíðargöng, göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar og Norðfjarðargöng. Þá mikill áhugi fyrir Vaðlaheiðargöngum sem einkaframkvæmd.

Á Vestfjörðum eru að hefjast framkvæmir við Djúpveg sem er þverun Mjóafjarðar með meiru ásamt vegi um Arnkötludal og verður í árslok 2008 unnt að aka á bundnu slitlagi milli Ísafjarðar og Reykjavíkur. Þá verður brátt auglýst útboð vegna framkvæmda á Vestfjarðavegi sem er þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar ofl., á Snæfellsnesi má nefna þverun Kolgrafafjarðar sem dæmi um framkvæmd sem hefur mikil og jákvæð áhrif. Vegur um Hófaskarð mun breyta miklu fyrir íbúa þess svæðis. Með brú á Hornafjarðarfjóti og breyttri legu vegar verður veruleg styttingu á Hringveginum.

Þannig stefnir allt í miklar endurbætur á vegakerfinu sem allar hafa jákvæð áhrif svo sem lækkun flutningskostnaðar og minni orkunotkun sem þýðir minni losun koltvíoxíðs.

Góðir gestir.

Ég hef mest staldrað við vegakerfið hér að fram enda liggja þar umfangsmestu og fjárfrekustu verkefnin á sviði samgönguáætlunarinnar. En vitanlega koma flugmál og siglingamál hér einnig við sögu. Ég legg áherslu á að nýta hagkvæmni flugsins eins og kostur er. Þess vegna var lagt í uppbyggingu Reykjavíkurflugvallar og með því er innanlandsflugið styrkt í þágu hagkvæmra og sjálfbærra samgangna sem við þurfum að gera í stóru og dreifbýlu landi. Á sviði siglinga þarf einkum að sjá svo um að hafnir landsins fylgi þróun fiskiskipaflotans með sífellt stærri skipum.  Hafnir þarf að gera þannig úr garði að þær geti líka sinnt nauðsynlegri flutningastarfsemi og ýtt sé undir sjálfbæra flutninga á sjó.

Ríkisvaldið hefur stutt við flugið á ákveðnum leiðum til að unnt sé að halda úti hagkvæmum  samgöngum þar sem flugið stendur ekki undir sér á markaðslegum forsendum. Það sama á við ferjusiglingar. Annað er uppi á teningnum varðandi sjóflutninga en nokkuð hefur verið talað um að ríkið stuðli að því að flutningar um landið færist að nokkru aftur á sjóinn. Á því sviði hefur markaðurinn þróast þannig að hraðinn og ferðatíðnin skiptir höfuðmáli og því óvíst hvort eða hvernig ríkið getur komið þar við sögu. Markaðurinn hlýtur að leita jafnvægis á þessu sviði.

Eins og sjá má af dagskránni verða hér mörg áhugaverð mál til umfjöllunar. Fjölbreytnin sýnir hversu víða samgöngumálin koma við sögu. Þau snerta skipulag og áætlanagerð, byggðamál, fjármál, skattamál, öryggi, orku og öll svið umhverfis og náttúru. Samgöngumálin snerta með öðrum orðum allt daglegt líf okkar og störf. Þess vegna þurfum við að fjalla ítarlega um þau og taka svo margt með í reikninginn þegar við gerum áætlanir á sviði samgangna. Það höfum við leitast við að gera í þeirri samgönguáætlun sem kemur til meðferðar Alþingis í næstu viku.

Það er von mín að þessi ráðstefna geti leitt til þess að við náum betri tökum á sjálfbærum samgöngum.