Fundarstjóri , ágætu fundargestir!
Mér er það sönn ánægja að ávarpa þennan glæsilega aðalfund Samtaka ferðaþjónustunnar hér á Akureyri í dag.
Síðustu sjö mánuðir, frá 11. september 2001, hafa verið ferðaþjónustunni í heiminum öllum – ekki síst flugrekstri – þungir í skauti. Óþarfi er að rifja upp atburði þessa örlagaríka dags. Fyrir okkur Íslendinga, sem eigum svo mikið undir flugsamgöngunum, höfðu hryðjuverkin í Ameríku mikil áhrif. En þrátt fyrir þessar miklu hörmungar, þessa miklu röskun og samdrátt í flugsamgöngum, þá er það sem betur fer svo, að okkur hefur tekist vonum framar að snúa vörn í sókn. Fyrir okkur, sem viljum veg ferðaþjónustunnar sem mestan, skiptir máli, að standa saman, með það að markmiði að ná sem fyrst fyrri styrk.

Eftir atburðina 11. september lagði ég strax ríka áherslu á að samráð yrði haft um hvort, og þá til hvaða aðgerða ætti að grípa. Í minnisblaði sem ég kallaði eftir frá formanni Ferðamálaráðs, formanni Markaðsráðs og formanni SAF var gerð grein fyrir mögulegum áhrifum hryðjuverkanna í Bandaríkjunum á ferðaþjónustu hér á landi og mikilvægi þess að leita leiða til að draga úr þeim áhrifum.

Þar sagði, að gera mætti ráð fyrir, að án aðgerða yrði samdráttur sem næmi 4-5 milljörðum króna í gjaldeyristekjum á 12 mánaða tímabili. Jafnvel þótt strax yrði gripið til aðgerða, var samt sem áður útlit fyrir eins-og-hálfs milljarða króna samdrátt. Hér er eingöngu átt við beint tap í gjaldeyristekjum vegna komu færri gesta.

Ekki er tekið tillit til margfeldisáhrifa eða annarra þátta. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur skoðað mikilvægi þessa þáttar í þjóðarbúskapnum. Niðurstaðan er sú að 10% fækkun erlendra gesta myndi leiða til tæplega 11 milljarða króna neikvæðra áhrifa í hagkerfinu öllu og fækkunar um rúmlega 1.100 ársverk. Að sama skapi myndi 30% fækkun gesta hafa í för með sér 32 milljarða króna neikvæð áhrif og fækkun um allt að 3.400 ársverk.

Afleiðingar atburðanna komu fljótlega í ljós. Flugleiðir voru eins og vænta mátti fyrst íslenskra fyrirtækja til að grípa til aðgerða. Starfsfólki Flugleiða og dótturfyrirtækja var fækkað sem nam rúmlega 270 stöðugildum. Af hálfu félagsins var ákveðið að draga verulega úr sætaframboði, bæði í vetraráætlun frá fyrra ári og í sumaráætlun 2002 samanborið við áætlun 2001. Mestur hefur samdrátturinn orðið á flugi til og frá Bandaríkjunum.

Um leið og niðurskurður Flugleiða lá fyrir, var ekki hjá því komist að gera ráð fyrir fækkun erlendra ferðamanna. Hlutur hins opinbera í gjaldeyristekjum af ferðaþjónustu hefur verið áætlaður á bilinu 20-25 % í formi beinna og óbeinna skatta og gjalda. Miðað við þær forsendur sem settar voru fram í minnisblaði formannanna til mín, hefði beint tap þjóðarbúsins orðið um 400-500 milljónir í vetur og allt að 1.000 milljónir á árinu.

Fyrir mig, sem ráðherra ferðamála, voru þetta ekki uppörvandi staðreyndir sem við blöstu. Þó var ánægjuleg að mikil eindrægni ríkti innan greinarinnar um aðgerðir. Samstaða var um að auka allt upplýsinga- kynningar- og markaðsstarf til að lágmarka tap þjóðarbúsins.

Ég geri mér vel grein fyrir því, að leiðakerfi Flugleiða er ekki aðeins hornsteinn ferðaþjónustunnar heldur forsenda fyrir þátttöku íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegu viðskiptalífi. Kunnugt er að Flugleiðir hafa borið hitann og þungann af okkar sameiginlega markaðs- og kynningarstarfi. Útilokað var að gera ráð fyrir að fyrirtækið héldi því áfram með sama hætti og fyrr. Staðreyndin er, að á undanförnum árum hafa stjórnvöld komið með vaxandi þunga að markaðs- og upplýsingamálum ferðaþjónustunnar, meðal annars með það að markmiði að lengja ferðamannatímabilið. Þessar fjárfestingar hafa skilað tilætluðum árangri, sem sést glögglega í mikilli fjölgun ferðamanna.

Afstaða greinarinnar um aðgerðir hefur verið skýr, og var afgerandi ályktun samþykkt á ferðamálaráðstefnunni á Hvolsvelli, 18. október s.l. Þar kom fram nauðsyn þess að bregðast við, til að tryggja tíðni og áfangastaði núverandi leiðakerfis Flugleiða. Ráðstefnan taldi að grípa þyrfti til almennra aðgerða til stuðnings við yfirstandandi markaðsaðgerðir og áætlanir.

Ég fékk samþykkt í ríkisstjórninni að veitt yrði umtalsverðu fé í markaðsaðgerðir í kjölfar 11. september. Á fjárlögum ársins í ár eru 150 milljónir settar aukalega í markaðsmálin. Ef sú tala er sett í samhengi, má nefna að árlegt framlag ríkisins til Markaðsráðs ferðaþjónustunnar hefur verið 50 milljónir króna, og framlagið til Iceland Naturally um 70 milljónir króna. Á blaðamannafundi sem ég hélt s.l. laugardag, kynnti ég hvernig þessari fjárveitingu hefur verið varið.

Ákveðið var að verja stærstum hluta fjárins á erlendum vettvangi strax í upphafi ársins. Til kynningarátaks í Bretlandi var veitt 24 milljónum króna, til Þýskalands, Bandaríkjanna og Norðurlanda var varið 19 milljónum á hvert svæði, og 9 milljónum til Frakklands. Jafnframt var ákveðið að verja tæplega þriðjungi til sérstakra kynningarverkefna innanlands. Samgönguráðuneytið og skrifstofa Ferðamálaráðs hafa unnið að undirbúningi verkefnisins í samráði við greinina.

Markaðsátakinu innanlands verður hleypt af stokkunum á ferðakynningarhátíð í Smáralind síðar í mánuðinum. Markmiðið er að hvetja landsmenn til að nýta sér í auknum mæli þá fjölbreyttu möguleika sem íslensk ferðaþjónusta hefur upp á að bjóða. Þá fá landshlutasamtök ferðamála hvert um sig tiltekna fjárhæð til kynningarátaks.

Leitað hefur verið samstarfs við önnur íslensk fyrirtæki í rekstri erlendis. Viðtökur voru undantekningarlaust jákvæðar og verða alls 50-60 bæklingastandar með kynningarefni um Ísland í bækistöðvum þeirra víða um heim.

Allar þessar aðgerðir lúta að því að verja þann vöxt sem verið hefur í íslenskri ferðaþjónustu. Tekjur ferðaþjónustunnar á síðasta ári voru tæpir 38 milljarðar króna, sem var aukning frá fyrra ári um tæpan fjórðung. Þó svo að tekið sé tillit til gengisbreytinga, er samt um verulega aukningu að ræða.

Ferðamálaráð hefur að undanförnu unnið að endurskipulagningu og hagræðingu á starfsemi sinni erlendis, með það að markmiði að nýta fjármuni til markaðsmála sem best. Tekin var ákvörðun um að flytja starfsemi Ferðamálaráðs í Frakklandi til Frankfürt. Starfsemin verður nú á þremur stöðum erlendis. Skrifstofa í New York er sinni Ameríkumarkaði, skrifstofa í Frankfürt er sinni meginlandi Evrópu og skrifstofa er sinni Norðurlöndunum. Gert er ráð fyrir að hún opni í Norðurbryggjuhúsi í Kaupmannahöfn í lok næsta árs.

Síðast liðið haust skilaði nefnd um menningartengda ferðaþjónustu skýrslu og tillögum. Lagt er til að íslensk ferðaþjónusta verði í framtíðinni byggð upp á tveimur meginstoðum, íslenskri náttúru og íslenskri menningu. Settar eru fram fjölmargar tillögur þar að lútandi. Í sérstöku samstarfi samgönguráðuneytis og menntamálaráðuneytis hefur Júlíus Hafstein verið ráðinn til að vinna áætlun fyrir framgang menningartengdrar ferðaþjónustu.

Líkt og ég hef áður rætt á þessum vettvangi, og fram kemur í skýrslunni, hef ég lagt áherslu á að horft verði á landið í skilgreindum markaðs- eða vaxtarsvæðum. Hafin er vinna við verkefnið af hálfu Ferðamálaráðs, og er mikil áhersla lögð á samvinnu við hlutaðeigandi aðila í öllum landshlutum. Rætt verður við þá sem skipuleggja og selja ferðir á Íslandi, bæði fyrir innan- og utanlandsmarkað. Búið er að skipuleggja fundaferð til að ræða við forsvarsmenn ferðaþjónustunnar og sveitarfélaga. Ég legg mikla áherslu á að niðurstöður liggi fyrir í águst næstkomandi.

Að sama skapi legg ég áherslu á að framtíðarnefnd ferðaþjónustunnar skili endanlegri skýrslu í lok sumars. Verkefni nefndarinnar er að rína í framtíðina næstu áratugi, leitast við að meta þá sýn sem við blasir og leggja á ráðin um nauðsynlegar aðgerðir, svo ferðaþjónustan megi vaxa í sátt við umhverfið. Með tillögur Framtíðarnefndar og tillögur Ferðamálaráðs um markaðs og vaxtarsvæði í farteskinu verður lagt af stað í haust á vegum ráðuneytisins við gerð nýrrar stefnumótunar fyrir ferðaþjónustuna. Legg ég ríka áherslu á að SAF komi að því starfi.

Til að tryggja flugsamgöngur milli höfuðborgar og landsbyggðar hafa flugleiðir innanlands verið boðnar út. Nú síðast flugleiðin milli Reykjavíkur og Hafnar í Hornafirði sem skiptir ferðaþjónustu þess landsvæðis miklu. Þá er uppstokkun sérleyfa til fólksflutninga á landi í undirbúningi. Þar verður tekið mið af markmiðum samgönguáætlunar fyrir árin 2003-2014 sem nú er unnið að. Gert er ráð fyrir útboði allra sérleyfa árið 2005, eða jafnvel fyrr. Þannig verði bættar almenningssamgöngur um landið tryggðar.

Ekki er hægt að ræða um almenningssamgöngur, án þess að ræða um þá þjónustu sem ferjurnar veita. Eins og ykkur er kunnugt, eru reknar fimm farþegaferjur við landið. Herjólfur skiptir ferðaþjónustuna í Vestmannaeyjum miklu. Með útboði ferjusiglinganna hefur hagkvæmni þess rekstrar aukist. Ég beitti mér fyrir samkomulagi um að ferðum Herjólfs yrði fjölgað. Mest er um vert, að í nýrri sumaráætlun verða farnar tvær ferðir á dag, sex daga vikunnar. Alls fjölgar ferðum Herjólfss um 55 á ári.

Í þágu byggðanna og ferðaþjónustu á sunnanverðum Vestfjörðum er að sama skapi eðlilegt að endurmeta þjónustu Breiðafjarðarferjunnar Baldurs. Ég vil nota þennan vettvang hér í dag, til að lýsa þeirri skoðun minni að fyrr en síðar þarf að huga að endurnýjun ferja, sér í lagi Herjólfs og Baldurs. Vegasamgöngur við sunnanverða Vestfirði eru erfiðar. Rétt er að reikna með ferjuþjónustu á því svæði að óbreyttu vegakerfi. Sífellt er krafist styttri ferðatíma, og því þarf að skoða möguleika á notkun hraðskreyðari skipa, til að uppfylla sífellt vaxandi kröfur um þjónustu.

Undirritað hefur verið samkomulag um fjármögnun og tilhögun framkvæmda við nýtt ferjulægi á Seyðisfirði vegna stækkunar Norrænu. Framkvæmdin er umfangsmikið verkefni sem þegar er hafið. Reist verður nýtt farþega- og tollafgreiðsluhús, smíðuð ný ekjubrú fyrir bíla og landgangur fyrir farþega. Áætlanir gera ráð fyrir 6–700 milljóna króna kostnaði.

Þessar miklu fjárfestingar á Seyðisfirði, og endurbygging Reykjavíkurflugvallar nýverið upp á tæpa tvo milljarða, eru nýjustu, en um leið stærstu einstöku dæmin um mjög miklar fjárfestingar, sem nýtast beint í þágu ferðaþjónustunnar.

Samstarfið við grannþjóðir okkar, Grænlendinga og Færeyinga skiptir máli. Eitt af því sem rætt hefur verið um að undanförnu, er hvort Keflavíkurflugvöllur geti þjónað Grænlendingum sem millilandaflugvöllur. Verið er að skoða ýmsa möguleika í þeim efnum. Í undirbúningi er samningur milli Íslendinga og Grænlendinga um flugsamgöngur á milli landanna. Ég geri ráð fyrir að skrifað verði undir hann nú í vor eða sumar, og innihald hans kynnt greininni á VestNorden kaupstefnunni hér á Akureyri í haust. Einnig geri ég ráð fyrir að SAMIK og FITUR samningarnir verði endurnýjaðir við sama tækifæri.

Þá vil ég ekki láta hjá líða og nefna, að seint á síðasta ári undirritaði ég ásamt forsvarsmönnum Hólaskóla samning um eflingu fjarnáms Ferðamálabrautar skólans. Með tilkomu samningsins verður Hólaskóla gert kleift að vinna markvisst að því að bjóða upp á meginhluta náms ferðamálabrautar í fjarkennslu. Aukin menntun í greininni skiptir miklu. Hún er undirstaða þess, að tryggja okkur í senn meiri gæði og betra starfsfólk.

Ég er reglulega minntur á, ekki síst af ykkur, fólkinu í ferðaþjónustunni, að enn er verulegra endurbóta þörf í vegakerfinu. Ferðaþjónustan gerir sér glögga grein fyrir hvaða þýðingu það hefur fyrir greinina í heild sinni, að gott og öruggt vegakerfi teygi sig sem víðast um landið. Bæði er hér um að ræða hið hefðbunda vegakerfi landsins, en jafnframt hálendisvegina og leiðir að fjölförnum ferðamannastöðum. Þessi afstaða ferðaþjónustunnar undirstrikar hve mikla þýðingu hröð uppbygging vegakerfisins hefur fyrir íslenska ferðaþjónustu. Ekki skal vanmeta, hvað þessi uppbygging skiptir fyrirtækin í ferðaþjónustunni miklu máli, og þá ekki síst fyrirtækin á höfuðborgarsvæðinu. Að mínu mati undirstrikar þessi afstaða greinarinnar hve hæpin, í raun og veru, sú umræða er að að etja sífellt saman sem andstæðum, hagsmunum höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar, þegar verið er að útdeila vegafé. Þess vegna skiptir miklu máli að vinna með þeim hætti sem ég hef lagt áherslu á, að vinna eftir samræmdri samgönguáætlun fyrir landið allt vegna vega, flugvalla og hafna.

Á undanförnum árum hafa sífellt meiri fjármunir verið settir í markaðssetningu greinarinnar. Þarna er að mínu mati um að ræða arðsama fjárfestingu, en ljóst er að betur er hægt að gera. Það þarf frekari fjármuni til landkynningar – frá öllum aðilum, frá hinu opinbera, greininni og frá sveitarfélögunum. Sú ákvörðun Reykjavíkurborgar að vilja ekki endurnýjun á samningnum um Markaðsráð ferðaþjónustunnar veldur vonbrigðum. Ég vil vegna þessa, að skoðuð verði frekar- aðkoma sveitarfélaganna í landinu í heild að markaðsmálum ferðaþjónustunnar sem er orðin einn stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar – og í raun stóriðja sumra sveitarfélaga.

Ég vil undirstrika, að markaðsaðgerðir einar og sér tryggja ekki vöxt og viðgang greinarinnar. Hið opinbera, sveitarfélögin, og síðast en ekki síst, fyrirtækin, verða að ábyrgjast og uppfylla væntingar viðskiptavinanna um aðstöðu og þjónustu. Ferðaþjónustan er á engan hátt frábrugðin öðrum rekstri.

Hún verður að uppfylla gæðakröfur og skila viðunandi arðsemi. Lykillinn og undirstaða framfara á því sviði er bætt menntun starfsmanna í greininni. En jafnframt ber greininni, að horfa til hagræðingar, samvinnu og samruna fyrirtækja, líkt og raunin hefur verið í öðrum atvinnugreinum.

Fundarstjóri, ágætu ráðstefnugestir. Ég vil hér í dag, eins og ég hef gert við hvert slíkt tækifæri, minna á mikilvægi þess að koma upp glæsilegri ráðstefnumiðstöð í höfuðborginni. Ég hef lagt ríka áherslu á framgang þessa máls, því fullkomin ráðstefnuaðstaða skiptir ferðaþjónustuna í landinu öllu mjög miklu máli. Það er alveg ljóst að þessi grein ferðaþjónustunnar býr ekki við þá aðstöðu eins og hún getur best orðið og á því þarf að verða breyting.

Góðir ráðstefnugestir. Ferðaþjónustan er önnur stærsta atvinnugrein þjóðarinnar. Þeir sem hafa staðið í stafni fyrirtækjanna sem hafa gert það að veruleika geta verið stoltir. Við berum öll mikla ábyrgð á því að framgangur ferðaþjónustunnar vaxi áfram á nýrri öld. Strengjum þess heit að standa saman um íslenska ferðaþjónustu. Hún er lykill að fjölbreytni, styrkir menningu okkar, skapar hagsæld og skiptir þjóðarbúið miklu máli.

Minnist þess í ályktunum ykkar á þessum aðalfundi SAF.