Forseti Alþingis, Sturla Böðvarsson, flutti ávarp í kvöldverðarboði sem forseti Íslands hélt til heiðurs Alþingi 1. des. sl. Forseti Íslands býður alþingismönnum árlega til kvöldverðar á fullveldisdeginum til að leggja áherslu á það mikilvæga hlutverk sem Alþingi gegndi í  í baráttunni fyrir fullveldi landsins. Texti ræðunnar er birtur hér í heild. 


Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseta frú Dorrit Moussaieff.
Forsætisráðherra, ráðherrar, alþingismenn, makar og aðrir góðir gestir.

Ég vil í upphafi færa forseta Íslands og hans ágætu eiginkonu alúðar þakkir okkar allra fyrir hlýjar móttökur og góðan viðurgjörning í kvöld sem endranær.  Það er alltaf ánægjulegt að koma á þennan virðulega stað sem er svo samofin sögu og örlögum þjóðarinnar.  Það fór vel  á því að innlendum þjóðhöfðingja var á sínum tíma búinn embættisbústaður á þessum sögufræga stað þar sem margir merkir Íslendingar hafa lifað og starfað. Hér gengu einnig um gólf nemendur sem settu síðar svip sinn á þjóðlífið, en hlutur Bessastaðaskóla í endurreisn þjóðlegrar menningar og mennta er stór.  Það segir okkur líka nokkuð um þá stöðu sem Bessastaðir hafa löngum haft í huga þjóðarinnar að í embættismannanefndinni sem fjallaði um  viðeigandi stað fyrir hið endurreista Alþingi kom til umræðu að samkomustaður Alþingis yrði á Bessastöðum, en slíkt þótti þó ekki hagkvæmt.

Á þeim tíma sem skólahald var hér á 19. öld , en þá var Bessastaðaskóli  eini lærði skóli landsins, var  jafnframt hinu sígilda námi,  mikil áhersla lögð á íþróttir og var ekki síst lögð rækt við glímuna og mun ekki ósjaldan hafa verið glímt á göngum Bessastaða.  Páll Melsted, sem nam við skólann og varð síðar alþingismaður með meiru, gaf  íþróttalífi í Bessastaðskóla þessa svohljóðandi einkunn í endurminningum sínum:
„Líkaminn varð þar harður og hraustur, það gjörðu glímurnar, knattleikurinn og sundið, ásamt kröftugri og nógri fæðu, sálin varð forneskjuleg og hálfklassísk, lítið var um annað hugsað en hetjuöld Grikkja og Rómverja og fornöld Norðurlanda.“

Íslenska glíman hafði því skotið    föstum rótum hér á Bessastöðum og hún varð Grími Tomsen skáldi og alþingismanni, sem fæddist á Bessastöðum og bjó þar lengi, síðar að yrkisefni í hans þekkta kvæði „Bændaglíman“.  Hér á Bessastöðum mun líka vera málverk gefið af Glímusambandi Íslands sem sýnir nemendur við glímutök og þar má greina ýmsa þekkta Íslendinga sem kenndu og námu við Bessasataskóla.

Þó að nú sé ekki lengur glímt reglulega í sölum Bessastaða  þá þarf forseti Íslands vissulega að glíma við mörg verkefni í þágu lands og þjóðar jafnt innan lands og utan. Fyrir allt það  starf  ber að þakka.

Eins og vænta má setur hver forseti lýðveldisins sitt sterka mark á embættið. Fljótlega eftir að forseti Íslands tók við embætti 1996 greindi hann forseta Alþingis frá því að árlegt boð hans fyrir alþingismenn og maka þeirra yrði 1. desember  á fullveldisdeginum, en fram að því hafði verið venja að forseti Íslands byði alþingismönnum til síðdegisboðs síðla hausts á hverju ári.  Með þessari venju sem hefur skapast síðan  hefur  forseti Íslands lagt áherslu  á mikilvægi fullveldisdagsins og  það þýðingarmikla hlutverk sem  Alþingi gegndi í baráttunni fyrir fullveldi landsins.

Um þetta er mér kunnugt því á þeim tíma var ég einn af varaforsetum Alþingis.  Ég var mjög sáttur við þessa  ákvörðun forseta því sjálfur hef ég litið svo á að staðfesting konungs á sambandslögunum og úrskurður hans um þjóðfána Íslands 1918 hafi verið merkasti áfanginn í sjálfstæðisbaráttu okkar.

Eins og svo mörgum hefur mér  fundist sem við Íslendingar legðum ekki næga rækt við þennan dag 1. desember  og minningu hans hefur að mínu mati ekki verið haldið nægilega á lofti. Fullveldisdagurinn hefur fallið  í skuggann af lýðveldisstofnuninni og þjóðhátíðardeginum 17. júní  Með þessum orðum er ég ekki að gera lítið úr þjóðhátíðardeginum  síður en svo  enda tel ég að með því að minnast stofnunar lýðveldis þann dag eflum við þjóðernisvitund okkar og samstöðu.

Það er þó skylda okkar að gæta þess að æska þessa lands sé meðvituð um það að Ísland varð fullvalda ríki 1918 og að sú barátta sem leiddi til þeirrar niðurstöðu var langvinn og kostaði mikla elju þeirra sem í forystu stóðu fyrir þjóðina.  Ég vil því nota þetta tækifæri og þakka forseta Íslands fyrir þá rækt sem hann leggur við fullveldisdaginn með því að bjóða okkur alþingismönnum til Bessastaða til samfundar mitt  í  önnum okkar  á Alþingi. Við þingmenn megum aldrei gleyma þeim skyldum sem við höfum í því  að standa vörð um fullveldið og sjálfstæði landsins á öllum sviðum þrátt fyrir mikilvægt og vaxandi samstarf sem við eigum og viljum hafa á vettvangi þjóðanna.

Á því ári sem liðið er síðan við komum hér saman síðast hefur þingmanna hópurinn tekið miklum breytingum  eins og við er að búast eftir kosningar. Tuttugu og fjórir nýir þingmenn  tóku sæti  eftir þingkosningarnar og er það meiri breyting en við höfum séð um langt skeið og í reynd hafa nýkjörnir þingmenn á Alþingi  aðeins einu sinni áður verið fleiri. Flestir þeirra eru að stíga sín fyrstu skref í þingsölum en þó ekki allir.

Við í öldungadeildinni fylgjumst grannt með því hvernig nýjum þingmönnum gengur að fóta sig á svellinu því við þekkjum það af eigin raun að margt kemur á óvart  þegar kemur til þess að starfa eftir skráðum reglum og þeim hefðum sem gilda í störfum löggjafasamkomunnar .
Það hefur verið gaman að kynnast  þeim fersku viðhorfum og hugmyndum  sem svona stór hópur óhjákvæmilega kemur með inn í þingið. Þessi öflugi hópur setur vissulega mark sitt á allt starfið  og á örugglega eftir að móta þingið enn frekar með  framgöngu sinni.

Alþingi er vissulega nokkuð íhaldssöm stofnun sem stendur á gömlum merg og byggir störf sín á ýmsum rótgrónum hefðum og venjum. Löggjafar- starfið og umræður sem því fylgja er  engu öðru starfi  líkt. Þrátt fyrir sérstöðu Alþingis er nauðsynlegt að þingið taki miða af viðhorfum  sem koma með nýju fólki sem er komið til þings í þeim tilgangi að hafa áhrif , sækja og verja hagsmuni umbjóðenda sinna og standa fyrir úrbótum í þjóðar þágu. 

Þingið verður auðvitað að laga sig að þeim breytingum sem leiða af þróun þjóðfélagsins. Ég hef því fullan skilning á því að ýmsir þeir sem eru nýir  séu óþolinmóðir og finnist sumt hálf forneskjulegt í starfsháttum þingsins og óttist að Alþingi dagi uppi sem nátttröll í stað þess að tileinka sér vinnubrögð sem eru í takt við samtímann.

Mér er reyndar ekki  örgrannt um að svipaðar óþreyjutilfinningar hafi bærst í brjósti forseta Íslands þegar hann tók sæti á Alþingi 1978 en það ár varð líka mikil breyting í skipan þingsins. Ég hygg þó að starfshættir Alþingis hafi þá verið í öllu meiri kyrrstöðu en við þekkjum í dag.

Fyrir hönd okkar gestanna vil ég að lokum ítreka þakkir okkar til forsetahjónanna fyrir ánægjulega kvöldstund hér á Bessastöðum. Ég  óska  forsetahjónunum heilla og farsældar í störfum sínum fyrir land og þjóð og bið gesti að rísa úr sætum og drekka skál forseta Íslands  og eiginkonu  hans.