Unglingalandsmót UMFÍ var sett við hátíðlega athöfn í Stykkishólmi á föstudagskvöld. Ræða samgönguráðherra við það tækifæri fer hér á eftir.
Formaður UMFÍ, ágætu landsmótsgestir.
Sem ráðherra og fyrsti þingmaður Vesturlands býð ég ykkur öll velkomin hingað í Stykkishólm – til þess að taka þátt í íþróttum og skemmtun um leið og við njótum saman útivistar og fegurðar hér við Breiðarfjörð. Ungmennafélag Íslands á heiður skilinn fyrir að efna til þessarar einstöku fjölskyldusamkomu, sem ég vona að takist sem best og verði öllum til sóma.
Snæfellingar og Hnappdælir hafa sameinast um að halda þetta fjölmenna og glæsilega Unglingalandsmót hér í Stykkishólmi. Hér er vissulega gott dæmi um hvernig samtaða um stórverkefni eflir samkennd innan byggðanna. Slíkt er einungis til góðs því það eflir og styrkir héraðsvitundina. Heilbrigð keppni milli einstaklinga og milli byggðarlaga er af hinu góða.
Það er ánægjulegt að Unglingalandsmót skuli haldið hér um leið og við höldum upp á 80 ára afmæli Héraðssambands Snæfellinga og Hnappdæla, en sambandið hefur verið í fararbroddi æskulýðs-, íþrótta- og hvers konar menningarstarfs í sýslunni, og markað með því skýr og farsæl spor í þróun samfélagsins til mikilla hagsbóta – ekki síst fyrir ungmennin.
Á síðustu árum hafa orðið stórstígar breytingar og framfarir á sviði íþróttamála með aukinni menntun, skipulegu og öflugu starfi svo og nýjum og fullkomnum íþróttamannvirkjum. Það er rík ástæða til þess að þakka stjórnendum sveitarfélaganna fyrir þann stórhug, sem sýndur er, með því að leggja til þá fjármuni sem þarf til þess að byggja upp jafn öflugt íþróttastarf og glæsileg íþróttamanvirki og þau sem hafa risið í öllum byggðum Snæfellsness.
Hér í Stykkishólmi hafa íþróttir löngum verið í hávegum hafðar, eins og sjá má á þeirri aðstöðu, sem nú nýtist á þessu landsmóti unglinganna. Og íbúarnir, ungir sem aldnir, kunna að nýta sér þessa frábæru aðstöðu sem skilar sér í betra mannlífi.
Ég færi ykkur, landsmótsgestir, bestu kveðjur menntamálaráðherra, sem er erlendis og gat því ekki verið með okkur hér í dag. Ríkisstjórnin metur mikils starf UMFÍ og þeirra fjölmörgu sem hafa lagt hönd á plóginn til þess að landsmótið yrði að slíkum viðburði sem raun ber vitni sem og annarra viðburða á sviði íþrótta og æskulýðsstarfs.
Jón Sigurðsson, forseti Alþingis og frelsishetja okkar Íslendinga, sótti afl sitt og stuðning m.a. til stuðningsmanna hér við Breiðafjörðinn. Þeir voru vissulega öflugir fylgjendur þjóðfrelsis og framtíðarsýn þeirra fyrir hina íslensku þjóð byggði á atvinnufrelsi og sjálfstæði þjóðarinnar. Starf þeirra færði okkur sjálfstæði um síðir – sjálfstæði sem okkur ber að varðveita. Það gerum við best með því að mennta og efla æsku landsins og skapa henni bestu skilyrði í leik sem og í starfi. Við eigum hvergi að spara þegar tryggja skal framtíð unga fólksins um leið og eðlilegar kröfur eru gerðar til þess.
Kæru ungmenni. Ég hvet ykkur til þess að efla vináttu og góð kynni við jafnaldra hér á mótinu – um leið og þið keppið af einurð og drenglyndi. Það mun nýtast ykkur á lífsleiðinni.
Ágætu landsmótsgestir.
Við skulum á þessari fögru kvöldstund hugleiða hvert og eitt framtíð unga fólksins og framtíð þjóðarinnar. Strengjum þess heit í þágu íslensku þjóðarinnar að störf okkar allra og framganga megi verða undir kjörorðunum sem helga „Íslandi allt“.
Megi ykkur öllum vel farnast á Ungmennalandsmóti UMFÍ.