Hér á eftir fer ræða samgönguráðherra, sem hann flutti á Fjarskiptaþingi 2001 nú rétt áðan.
Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra:
Ræða flutt á fjarskiptaþingi 2001

Ágætu gestir,

mér er það sönn ánægja að bjóða ykkur velkomin til fjarskiptaþings 2001 – á fjarskiptaþing sem ég boða nú til á tímum mikillar gerjunar á íslenskum fjarskiptamarkaði. Sérstaklega vil ég bjóða velkominn aðal fyrirlesara dagsins, hr. Mark Anderson, sem mun flytja okkur fregnir af framtíðinni í heimi fjarskiptanna og upplýsingatækninnar. Fjarskiptafyrirtækin eiga mikið undir því að hugmyndirnar streymi og nýtist í þágu framfara og aukinnar hagsældar.

Ég vil þakka þeim sem hafa undirbúið fjarskiptaþing 2001, og þeim fyrirtækjum sérstaklega sem hafa stutt þingið með framlögum. Einnig vil ég þakka þeim mörgu einstaklingum sem flytja hér erindi í dag.

Yfirskrift þessa þings er Tækifærin blasa við. Með sanni má segja að tækifærin á sviði fjarskiptanna blasi við. Markaðurinn blómstrar, ný fyrirtæki líta dagsins ljós, og hvert sem við lítum, mér liggur við að segja hvað sem við gerum, þá skipa fjarskiptatæknin og upplýsingasamfélagið æ stærri sess í okkar daglega lífi. Flestar, ef ekki allar greinar atvinnulífsins reiða sig í sífellt ríkari mæli á fjarskiptin – á upplýsingatæknina. Öll þekkjum við unga athafnamanninn sem er sýndur í auglýsingum fjármálafyrirtækjanna, með fartölvu á kaffihúsi að stunda viðskipti í gegnum netið – þessi fyrrum glansmynd úr heimi auglýsinganna er smátt og smátt að verða hluti af daglegu lífi sífellt fleirri. Myndin af unga manninum er í dag hversdagsleg mynd úr hinni hröðu hringiðu líðandi stundar. En þessi mynd undirstrikar þá staðreynd að það er ekki lengur staðurinn og stundin sem skiptir máli – heldur einungis stundin. Lykilinn að þessum veruleika er fjarskiptatæknin – og það er fjarskiptatæknin sem hefur fært okkur heim þau tækifæri sem ég sé hvarvetna blasa við.

Fjarskiptin eru einn helsti meginstólpi hins nýja hagkerfis sem svo mjög hefur vaxið fiskur um hrygg á undraskömmum tíma. Ekki síður eru fjarskiptin og upplýsingaiðnaðurinn farinn að skipta hinar svokölluðu hefðbundnu atvinnugreinar máli. Öll þekkjum við til að mynda þá staðreynd að útfrá öryggissjónarmiðjum hefur íslenski flotinn lengi lagt áherslu á gott fjarskiptasamband, en nú er ekki síður mikilvægt að vera í sambandi hvar og hvenær sem er til að koma upplýsingum um afla sem fyrst í land – afla sem jafnvel er seldur áður en hann er að landi borinn. Þá skiptir fjarskiptatæknin öllu við sjálfvirka tilkynningaskyldu skipa og við sjálfvirkt eftirlit um veður og sjólag við strendur landsins svo fáein dæmi séu nefnd.

Hagkerfið, í raun allt okkar efnahagslíf, byggir í æ ríkari mæli á fjarskiptum, á upplýsingatækninni. Hin rafræna bylting hefur átt sér stað, og hugtök eins og rafræn greiðslumiðlun, rafræn stjórnsýsla, jafnvel rafrænir farseðlar, eru í dag eðlilegur hluti af okkar talmáli – og enn og aftur er undirstaða þessa alls örugg og traust fjarskipti.

Breytt umhverfi – ný fjarskiptalöggjöf
Gildandi fjarskiptalög hafa óumdeilanlega komið á samkeppni sem ýtir undir þróun og framfarir á markaðinum. Við þurfum ekki sagnfræðinga til að rifja upp þá tíð er hér var aðeins eitt fjarskiptafyrirtæki, Póst- og símamálastofnun. Við munum þá tíð mætavel, það eru ekki nema rétt rúm þrjú ár síðan einokun ríkisins á þessum markaði var afnumin. Sprotar samkeppninnar tóku að vaxa, varfærnislega til að byrja með – en samkeppninni hefur vaxið hratt ásmegin, sér í lagi með gildistöku þeirra fjarskiptalaga sem ég beytti mér fyrir og tóku gildi 1. janúar 2000 – fyrir rétt rúmu ári síðan. Samkvæmt þeim höfum við lagaumhverfi og regluverk sem gerir það að verkum að hinn íslenski fjarskiptamarkaður er óumdeilanlega í fremstu röð. Höfuðmarkmið fjarskiptalaganna er að tryggja hagkvæm og örugg fjarskipti hér á landi og efla samkeppni á fjarskiptamarkaði. Með setningu laganna einsettum við okkur að stjórnvöld tryggi eftir því sem unnt er að öllum landsmönnum bjóðist aðgangur að fjarskiptaþjónustu. Þá var lögð rík áhersla á:
1. nauðsyn þess að markaðsráðandi fyrirtækjum sem eiga fjarskiptanet og aðra innviði sé gert skylt að opna aðgang að netinu og annarri aðstöðu á sanngjörnum kjörum;
2. nauðsyn þess að tryggja samtengingu neta;
3. nauðsyn þess að stuðla að raunverulegri samkeppni á markaðnum með því að jafna samkeppnisstöðu fjarskiptafyrirtækja, t.d. með aðgangi að heimtaug;
4. nauðsyn þess að markaðsráðandi fyrirtæki sé veitt aðhald
5. og nauðsyn þess að mæta þörfum allra landsmanna um að njóta ákveðinnar lágmarksþjónustu í gagnaflutningum.

Aðgangur að fjarskiptaneti – númeraflutningur – heimtaug
Fjarskiptafyrirtækjunum er nú tryggður með lögum aðgangur að fjarskiptaneti markaðsráðandi fyrirtækis. Þá hefur aðgangur að heimtauginni og númeraflutningur á milli fjarskiptafyrirtækja verið tryggður. Með ákveðinni einföldun má segja að tvær meginstoðir gangi í gegnum fjarskiptalögin, það eru ákvæði er tryggja samkeppni á markaðinum, þar á meðal ákvæði er tryggja aðganginn að fjarskiptaneti markaðsráðandi fyrirtækis. Hins vegar eru ákvæði sem tryggja aðgang allra landmanna að ákveðinni fjarskiptaþjónusu á sambærilegum kjörum. Til marks um augljós áhrif fjarskiptalaganna á markaðinn má nefna nýgerðan reikisamning á milli Landssímans og Tals og samskonar samning á milli Landssímans og Íslandssíma sem er í burðarliðnum.

Segja má að rauði þráðurinn í gegnum þann lagaramma sem fjarskiptamarkaðurinn býr við í dag kristallist í því markmiði sem ég hef einsett mér að vinna eftir, það er að fjarskipti á Íslandi eigi að vera ódýr, örugg og aðgengileg fyrir alla – um leið og lögunum er ætlað að tryggja samkeppni á markaðinum – sem er í raun forsenda árangurs.

Áfram í fremstu röð
En þó lagaumhverfið sem við búum við í dag sé eitt það framsæknasta sem þekkist samanborið við okkar helstu nágrannalönd, er ljóst að fjarskiptaheimurinn er í svo örri þróun að löggjafinn má hafa sig allan við ef lögin eiga að uppfylla kröfur markaðarins – í þágu neytandans! Því er eðlilegt að spyrja hver sé líkleg þróun á þessu sviði á næstunni. Hverju þarf næst að breyta? Ég tel víst að þróunin verði í átt til enn frekari samkeppnisumhverfis – líklegt er að öll leyfi til reksturs fjarskiptafyrirtækja verði afnumin. Samrunaþróunin á sviði margmiðlunar, samruni tals hljóðs og myndar gerir einnig nýjar kröfur til lagaumhverfisins! Á vettvangi Evrópusambandsins eru komin fram drög að nýjum reglugerðum þar sem, þrátt fyrir allt, er unnið að einföldun regluverksins. Það er ljóst að stjórnvöld eru almennt að losa tökin á fjarskiptamarkaðinum – og er það vel. Við Íslendingar höfum skipað okkur í fremstu röð á sviði fjarskiptanna, meðal annars með framsæknu lagaumhverfi, og ég vil að við höldum þeirri stöðu okkar.

Þjónusta fyrir alla á sama verði
Við setningu fjarskiptalaganna beytti ég mér fyrir því að hverju heimili í landinu stæði til boða möguleikar til gagnaflutninga – það er að hinar hefðbundnu ISDN tengingar væru hluti af alþjónustunni og boðnar á sama verði um land allt. Sú ákvörðun mín að auka frekar á alþjónustu markaðsráðandi fjarskiptafyrirtækja hefur gert það að verkum að kröfur almennings til aðgangs að raunhæfum gagnaflutningsmöguleikum fara sífellt vaxandi. Það er af hinu góða! Það kallar á frekari samkeppni og aukin viðskipti síma- og internetfyrirtækja. Nú eiga tæplega 98% landsmanna kost á ISDN þjónustu, en gert er ráð fyrir að hún standi öllum til boða í árslok 2002. Svokölluð ADSL þjónusta sem er bandbreið gagnaflutningsþjónusta býðst nú öllum íbúum höfuðborgarsvæðisins og er gert ráð fyrir að 75-80% landsmanna eigi kost á henni í lok næsta árs. Þá er þjónusta við fatlaða og notendur með sérstakar þjóðfélagsþarfir tryggð með ákvæðum um alþjónustu.

Með setningu gildandi fjarskiptalaga má segja að hrundið hafi verið af stað því ferli sem nú er að verða að veruleika með fyrirhugaðri einkavæðingu Landssíma Íslands. Sú einkavæðing væri ekki raunhæfur möguleiki og um hana hefði ekki náðst pólitísk samstaða ef ekki hefði jafnframt verið ákveðið af stjórn Landssímans að bjóða gegn sama verði til þorra landsmanna bæði ADSL tengingar og aðgang að ATM netinu. Þessi ákvörðun var tekin eftir að ég gaf um það skýr skilaboð á síðasta aðalfundi Landssímans. Þar með hefur því markmiði verið náð að auk hefðbundins talsíma, býðst landsmönnum nú bæði NMT og GSM símaþjónusta, ISDN og ADSL tengingar og ATM netaðgangur á sama verði hvar sem er á landinu. Verð á leigulínum sem ætlaðar eru fyrir stærstu fyrirtækin og sérhæfð fyrirtæki í upplýsingatækni, hefur lækkað mjög að undanförnu á landsbyggðinni. Með uppbyggingu ATM kerfisins á allra næstu árum verður fullnægt þörf langflestra fyrirtækja fyrir þjónustu sem krefst mikillar bandbreiddar. Mesta tryggingin fyrir neytendur er að samkeppnin eigi sér stað um land allt og það verði fleiri fyrirtæki en Landssíminn sem veiti þjónustu á landsvísu.

Því er það skoðun mín að þessi staða á fjarskiptamarkaðinum í dag er eitt besta dæmi sem ég get nefnt um þau tækifæri sem blasa við.

Ný starfsemi – ný tækni
Á þeim liðlega þremur árum sem liðin eru frá því að opnað var fyrir samkeppni á íslenskum fjarskiptamarkaði hafa breytingarnar verið miklar. Dagskrá þessa fjarskiptaþings, þátttakan hér í dag og áhuginn sýnir – svo ekki verður um villst – að fyrirtækin hafa gripið tækifærin. Við eigum eftir að hlýða á erindi talsmanna fyrirtækja úr ýmsum atvinnugreinum, frá fjarskiptafyrirtækjunum, frá bankakerfinu, úr ferðaþjónustu, menntakerfinu og úr stjórnsýslunni. Ný fyrirtæki spretta upp, markaðurinn vex hröðum skrefum og sífellt eru okkur færðar fréttir af tækninýjunum og stórstígum framförum. Einn daginn töluðu menn með hástemmdum lýsingarorðum um mikinn gagnaflutningshraða og lýstu honum sem einhverjum kílóbitum á sekúndu. Nú er ekki talað í minni einingum en Megabitum. Flutningstæknin þróast á sama hraða, hvort heldur sem verið er að flytja gögnin eftir hinum hefðbundna kopar, ljósleiðara, örbylgju eða jafnvel rafmagnskapli.

Stafrænt útvarp og sjónvarp
Einn er sá angi fjarskiptamarkaðarins sem ég trúi að eigi eftir að vaxa jafnvel hvað örast á næstu árum, en það er á sviði sjónvarps og gagnvirkrar margmiðlunar. Á undanförnum áratug hefur stafrænu útvarpi verið sýndur aukinn áhugi samtímis því að séð hefur verið fram á kosti þess að nota sömu tækni við útvarp og önnur fjarskipti. Ör þróun Internetsins og vinsældir þess hafa vakið athygli á nýjum kostum í miðlun efnis og ýtt undir að stefnt verði að samruna í upplýsingamiðlun.

Íslensk fyrirtæki sem veita sjónvarpsþjónustu hafa látið í ljósi áhuga á því að veitt verði leyfi fyrir stafrænu sjónvarpi, a.m.k. í tilraunaskyni. Þess vegna er tímabært að móta stefnu í þessum málum hér á landi og setja reglur um skynsamlega innleiðingu stafræns sjónvarps.

Í nýsettum útvarpslögum er menntamálaráðherra veitt heimild til að hefja undirbúning að stafrænu sjónvarpi og skal útvarpsstöðvum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum þar að lútandi á framfæri. Að mínu mati er ekki síður brýnt að fjalla um þátt dreifikerfanna þegar dagskrárgerð í sjónvarpsstöðvunum verður komin á stafrænt form vegna þess að um verður að ræða mjög breytta tækni. Möguleikar til nýtingar hennar munu þar að auki skapa möguleika á samruna við almenn fjarskiptanet og þjónustu sem – eins og fyrr segir – eru nú að mestu leyti stafrænt. Einnig þarf að huga sérstaklega að aðgangi notenda að stafrænum sendingum sem flytja margmiðlun í margs konar formi.

Í ljósi þessa óskaði ég eftir greinargerð frá Póst- og fjarskiptastofnun vegna nýtingar fjarskiptakerfisins í þágu stafræns sjónvarps. Í greinargerðinni er meðal annars lagt til ákveðið verklag við undirbúning að stafrænu sjónvarpi á Íslandi. Má þar nefna…:

1. …að samgönguráðuneytið heimili Póst- og fjarskiptastofnun að úthluta rásum til tilraunaútsendinga á stafrænu sjónvarpi.
2. …að mörkuð verði sú stefna í upphafi að með stafrænu sjónvarpi verði sem flestum aðilum gert kleift að miðla sjónvarpsdagskrá sem og öðru margmiðlunarefni til neytenda. Fylgt verði stöðlum á sviði stafræns sjónvarps um aðgang neytenda að sjónvarpi og öðru margmiðlunarefni svo að tryggt verði að neytendur þurfi ekki hver fyrir sig nema einn aðgangsbúnað.
3. …að hugað verði að því með hvaða hætti sjónvarpsstöðvar geti tekið þátt í gagnvirkri margmiðlun.
4. …að stefnt verði að því að stafrænt sjónvarp til almennings geti hafist strax á næsta ári.
Ég mun leggja áherslu á að þessu verði sinnt hratt og vel af hálfu samgönguráðuneytisins jafnframt því sem við menntamálaráðherra höfum þegar rætt um samstarf ráðuneyta okkar á þessu sviði.

Öflugt eftirlit
Eitt af því sem skiptir miklu máli við framkvæmd fjarskiptastefnu stjórnvalda, er að stofnanir á borð við Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppnisstofnun séu eins öflugar og nauðsyn krefur. Í umræðunni um fyrirhugaða einkavæðingu Landssíma Íslands hefur verið bent á mikilvægi þess að efla þessar stofnanir. Póst- og fjarskiptastofnun var í upphafi ætlað að yfirtaka alla stjórnsýslu sem áður var á hendi Póst- og símamálastofnunar, en með setningu nýrra laga um stofnunina í árslok 1999 voru hlutverk og verkefni stofnunarinnar skýrð frekar.

Samkeppnisstofnun hefur það hlutverk að efla virka samkeppni í viðskiptum og tryggja sanngjarna viðskiptahætti, og með nýrri lagasetningu á síðasta ári var hlutverk stofnunarinnar eflt verulega – m.a. með nýjum ákvæðum um bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu fyrirtækja og víðtæku banni við samstarfi og samráði fyrirtækja sem hefur þau áhrif að draga úr samkeppni.

Viðræður standa yfir á milli samgönguráðuneytisins og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins ásamt með Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppnisstofnun til að móta skýrari reglur um verkaskiptingu þessara tveggja eftirlitsstofnana. Ég legg mikla áherslu á að formlegar samstarfsreglur þessara stofnana liggi fyrir sem fyrst.

Sala Landssíma Íslands hf.
Áform ríkisstjórnarinnar varðandi einkavæðingu Landssíma Íslands sem kynnt voru í lok síðustu viku hvíla í raun á þeirri lagaumgjörð sem sett hefur verið og ég hef þegar nokkuð fjallað um. Við sölu Landssímans verður sérstaklega horft til þess meginmarkmiðs fjarskiptalaganna að eftir sem áður verði tryggt að landsmenn allir búi við ódýr, örugg og aðgengileg fjarskipti á samkeppnismarkaði.

Nokkuð hefur verið rætt – og raunar deilt – um hvort skipta beri Landssímanum á einhvern hátt upp áður en til sölu hans kemur. Á vegum samgönguráðuneytisins, svo og á vegum einkavæðingarnefndar ríkisstjórnarinnar, hafa verið skoðaðar bæði tæknilegar og rekstrarlegar forsendur skiptingar Landssímans í tvö eða fleiri fyrirtæki. Rætt hefur verið um kosti og galla þess að skilja að grunnkerfi fyrirtækisins og halda því eftir í sjálfstæðri ríkisstofnun eða stofna um það sérstakt félag í eigu ríkisins eða Landssímans. Þá hefur einnig verið skoðað hvort til greina kæmi að skilja að einstakar þjónustueiningar, svo sem rekstur farsímaþjónustu frá öðrum rekstri. Það viðhorf hefur og komið fram í almennri umræðu að með því að stofna sérstakt félag um grunnkerfið og aðgreina það þannig frá öðrum rekstri megi styrkja samkeppni í fjarskiptum þar sem ný fyrirtæki á markaðnum þurfi ekki að leita til Landssímans um grunnnetsþjónustu. Tæknileg sjónarmið málsins eru fyrst og fremst að erfitt er að skilja þjónustu grunnnetsins frá annarri þjónustu. Slíkur aðskilnaður krefðist fjárfestingar í stjórn- og tengibúnaði sem hefði í för með sér aukinn kostnað fyrir neytendur. Líkt og ég hef farið yfir tryggir lagalegt umhverfi samkeppnisaðilum Landssímans greiðan aðgang að grunnkerfinu á sama verði og Landssíminn. Stofnlínukerfið og notendalínukerfið mynda fjárhagslega sjálfstæðar einingar bæði hvað varðar efnahag og rekstur og því er í raun um rekstrarlega skiptingu að ræða sem tryggir fjárhagslegan aðskilnað. Auk þess er vert að minna á að ný fjarskiptafyrirtæki, líkt og Lína.Net og Íslandssími, eru farin að teygja sitt eigið kerfi um landið. Niðurstaðan er því sú að ekki sé ástæða til að skipta rekstri Landssíma Íslands hf. út frá sjónarmiðum um þjónustu, samkeppni eða vegna fyrirhugaðrar einkavæðingar. Um þetta álitamál hefur afstaða mín verið skýr. Ég hef lagst gegn því að slíta Landssímann í sundur. Um það hefur nú náðst full samstaða innan ríkisstjórnarinnar.

Með fyrirhugaðri sölu á Landssíma Íslands erum við í raun að krefjast enn frekari ábyrgðar þeirra sem keppa á markaðinum. Um leið og við ætlumst til þess að fyrirtækin á markaðinum fjárfesti skynsamlega og af framsýni, ætlumst við um leið til þess að fyrirtækin veiti þjónustu sína sem víðast. Það er landið allt sem er undir í fjarskiptabyltingunni – það er um landið allt sem tækifærin blasa við, og það er því um landið allt sem mönnum ber að grípa þessi tækifæri. Því legg ég mikla áherslu á að skoðað verði út í hörgul, hvernig unnt er að koma til móts við þá sjálfsögðu kröfu að horfið verði endanlega frá vegalengdarmælingu í gjaldskrá í fjarskiptakerfinu og í stað þess verði þjónustan seld miðað við flutt magn – óháð vegalengd! Ég vil undirstrika að gjalskrárbreyting Landssíma Íslands síðast liðið haust var vissulega stórt skref til móts við þetta sjónarmið. Með þessa nýju gjaldskrá til grundvallar og ákvæði fjarskiptalaga um aðgang annara fjarskiptafyrirtækja að neti Landssímans hlýtur að verða unnið að því markmiði að samkeppnin skili sér í sama verði um land allt.

Ágætu fundarmenn,
ég legg ríka áherslu á að þróunin verði í þessa átt, að markaðurinn bregðist á þann veg við að staðsetning ráði ekki verðlagningu í gagnaflutningum, heldur umfang viðskiptanna hverju sinni. Ég hvet fjarskiptafyrirtækin í landinu að byggja fjarskiptakerfið og þjónustuna sem best má vera um land allt – með langtíma hagsmuni okkar allra í huga. Við eigum mikið undir ódýrum, öruggum og aðgengilegum fjarskiptum, jafnt í atvinnulífinu, stjórnsýslunni sem í menntastofnununum.

Góðir gestir, mér er það sönn ánægja að segja Fjarskiptaþing 2001 sett!!!