Sturla Böðvarsson flutti eftirfarandi ræðu við setningu aðalfundar Samtaka ferðaþjónustunnar, sem haldinn var á Hótel Loftleiðum 6. apríl.

Fundarstjóri, góðir fundarmenn!

Mig langar til að byrja á því að óska ykkur til hamingju með þennan ársfund ykkar en þessir fundir verða glæsilegri með hverju árinu. Lít ég á það sem ótvírætt merki um bjartsýni innan ferðaþjónustunnar auk þess mikla dugnaðar sem einkennir þá sem í greininni starfa.

Það gefur líka ástæðu til bjartsýni að gistinóttum á hótelum í janúar síðastliðnum hafi fjölgað um 13% frá síðasta ári og í febrúar var einnig fjölgun. Þetta hlýtur að vera vísbending um að atvinnugreinin og stjórnvöld séu að gera flest rétt við kynningu og sölu á ferðum til Íslands – og innanlands og sú stefna að lengja ferðamannatímann sé í fullu gildi og sé að bera árangur.

Síðan við vorum hér fyrir ári hefur, frá sjónarhóli samgönguráðuneytisins, margt á daga ferðaþjónustunnar drifið. Ný lög tóku gildi um áramót og hefur Ferðamálastofa nú tekið við útgáfu leyfa vegna ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda og eftirliti með þeim. Nú reynir á þetta nýja fyrirkomulag en ég vonast til að með þolinmæði umsækjenda og lipurri þjónustu Ferðamálastofu takist að láta alla vel við una. Markmiðið er skýrt: Að ferðaþjónustan standi sterkar að vígi þegar leyfismálin verða komin í skýrari farveg – og leyfislaus starfsemi verði tekin föstum tökum. Er það í samræmi við óskir SAF.

Nýtt ferðamálaráð var skipað um áramót og hefur þegar tekið til starfa á forsendum nýrra laga. Formaðurinn, Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður, er flestum hnútum kunnugur í íslensku atvinnulífi og því fáum betur treystandi til að fara ofan í saumana á hlut stjórnvalda í þessari viðkvæmu atvinnugrein. Bind ég miklar vonir við að í Ferðamálaráði fari fram fagleg og hreinskiptin umræða um það hvernig markaðsmálum og öðrum brýnum verkefnum ferðaþjónustunnar verði best komið. Það er tímabært að fara yfir þessi mál enda breytist umhverfi greinarinnar hratt og þarf stöðugt að hyggja að nýjum aðferðum til að grípa tækifærin. Ég tel mikilvægt að allt starf opinberra aðila sæti stöðugri endurskoðun svo það fylgi breytingum og framförum.

Þeim fjölgar sífellt sem sjá Ísland sem fýsilegan viðkomustað. Meðal þeirra eru stjórnendur SAS og British Airways sem hóf flug hingað í síðasta mánuði. Það er því ljóst að samkeppnin í flugi til og frá landinu harðnar enn. Því fylgir væntanlega stóraukin landkynning af hálfu fyrirtækjanna og haldi kakan áfram að stækka felast í því mikil tækifæri fyrir þá sem taka á móti ferðamönnum á Íslandi. Hagur íslensku ferðaþjónustufyrirtækjanna ætti því að geta batnað.

Fjarskipti og upplýsingatækni skiptir allar atvinnugreinar miklu. Fjarskiptaáætlun er mér ofarlega í huga enda fékkst á þriðja milljarð úr sölu Símans til að hrinda henni í framkvæmd en meginmarkmiðið er að tryggja að þeir, sem fjarskiptafyrirtækin sjá sér ekki fært að sinna á markaðslegum forsendum, fái aðgang að sömu gæðum og aðrir landsmenn hvað varðar háhraðatengingu og farsímasambönd. 

Fjarskiptaáætlun áætlun er nátengd ferðamálaáætlun því að m.a. með þéttingu gsm-netsins á fjölsóttum ferðamannastöðum verður mikilvægum áfanga náð í öryggismálum ferðaþjónustunnar. Háhraðatenging landsins alls er einnig mikið baráttumál ferðaþjónustunnar enda útilokað í dag að stunda viðskipti af einhverju viti  nema fyrir hendi séu góðar og öruggar tengingar. Ég hef því lagt áherslu á að Ísland verði altengt. Það er ekki síst í þágu ferðaþjónustunnar.

Ferðamálastofa í samstarfi við greinina hefur verið að vinna mjög gott starf svo sem sjá má á árangri landkynningar og markaðsaðgerða.

Ferðamálaáætlun fyrir tímabilið 2006 til 2015 gerir m.a. ráð fyrir því að náttúra Íslands, menning þjóðarinnar, sterk byggð og fagmennska verði ráðandi þættir í þróun íslenskra ferðamála. Samgönguráðuneytið hefur í samræmi við lög um skipan ferðamála vísað framkvæmd ferðamálaáætlunar til Ferðamálastofu. Einnig hefur ráðuneytið verið í sambandi við forsvarsmenn SAF um mikilvæg mál sem snúa m.a. að rekstrarumhverfi greinarinnar. Þar eru hagsmunasamtökin óþreytandi við að segja okkur stjórnmálamönnunum til – og er það vel.

Nýlega hafði samgönguráðuneytið frumkvæði að ráðstefnunni Ferðaþjónusta fyrir alla, sem er hugtak sem í auknum mæli er notað um það að ALLIR, óháð fötlun, geti ferðast þangað sem þeir óska og á því við allt sem snertir ferðamennsku. Ferðamálastofa, SAF og Öryrkjabandalagið komu einnig að ráðstefnunni sem var vel sótt. Þarna kom margt afar áhugavert fram og greinilegt að ferðaþjónustan hyggst standa sig betur í þessum málaflokki.

Sérstaka eftirtekt vakti úttekt Ferðaþjónustu bænda á bæjum um allt land og útgáfa sérstaks kynningarbæklings í kjölfarið. Það eru alls 26 gististaðir innan þeirra vébanda sem hafa nú leyfi til að auglýsa aðgengi fyrir fatlaða. Staða þessara mála er núna til skoðunar hjá Ferðamálastofu sem, eins og kunnugt er, hefur fjármuni til uppbyggingar á fjölsóttum ferðamannastöðum auk þess að hafa umsjón með flokkun gististaða. Ég tel nauðsynlegt að stjórnvöld stuðli að því að aðkoma fatlaðra að fjölförnum ferðamannastöðum verði bætt.

Að undanförnu hefur mikil umræða verið um leyfisveitingar í veitingarekstri. Allir eru sammála um að ferlið er of flókið og nauðsynlegt er að leita leiða til að einfalda afgreiðsluna.

Samgönguráðuneytið hefur því að undanförnu haft forystu um að vinna nauðsynlegar lagabreytingar sem hafa það að markmiði að einfalda leyfisveitingar til veitinga- og gististaða.  Stefnt er að því að leggja fram á næsta þingi lagafrumvarp sem miðar að þessu. Þessi vinna er ekki einföld enda sinna henni þrjú ráðuneyti auk þess sem Samband íslenskra sveitarfélaga á fulltrúa. 

Samhliða þessari vinnu hefur samgönguráðuneytið líka verið að skoða þann möguleika hvort ekki megi fækka gögnum sem aðilar þurfa að skila með umsókn. Í staðinn afli leyfisveitandi þeirra sjálfur rafrænt. Niðurstöðu er að vænta innan skamms en við sjáum mikið hagræði í þessu og nýta má fjarskiptin til að einfalda gagnaöflun fyrir leyfisveitanda. 

Við þessa vinnu hefur verið og mun áfram verða haft mikið samráð við SAF og vil ég nota þetta tækifæri og að þakka forsvarsmönnum samtakanna fyrir aðstoð og ábendingar.  Við verðum að leita allra leiða til að draga úr skriffinnsku.

Samgönguráðuneytið hefur fylgst með þeirri þróun sem orðið hefur í komum skemmtiferðaskipa hingað til lands. Ýmsir ferðaþjónustuaðilar, bæði ferðaskrifstofur og rútufyrirtæki, Ferðamálastofa og helstu hafnir landsins með Faxaflóahafnir í fararbroddi hafa um árabil beitt sér markvisst í markaðssetningu landsins sem viðkomustaðar fyrir skemmtiferðaskip. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og ég tek sem dæmi að væntanleg eru 22 skip til Ísafjarðar í sumar með 15.000 farþega en fyrir tíu árum voru þetta sjö skip og 1500 farþegar. Þetta er bara eitt dæmi um þýðingu ferðaþjónustunnar fyrir hin ýmsu byggðarlög á Íslandi.  Það er því óhjákvæmilegt að hafnirnar byggi upp betri aðstöðu til afgreiðslu skemmtiferðaskipa og það verkefni verði skoðað við endurskoðun Samgönguáætlun.

Iceland Naturally verkefnið, sem samgönguráðuneytið hefur staðið að í Bandaríkjunum frá árinu 2000, hefur sýnt fram á að ferðaþjónustan og aðrar útflutningsgreinar eiga mikla samleið og sameiginleg markmið varðandi eflingu á ímynd landsins og kynningu á íslenskum vörum og þjónustu. Því hefur ráðuneytið nú gert samning um samskonar verkefni í Evrópu til þriggja ára.  Ég vænti þess raunar að fleiri fyrirtæki komi að því verkefni.

Verður áherslan í fyrstu á Bretland, Frakkland og Þýskaland og sömu aðferðarfræði beitt og í Bandaríkjunum. Hef ég gert ráð fyrir 50 milljónum króna til verkefnisins árlega. Fimm manna stjórn hefur verið skipuð undir formennsku Ingimundar Sigurpálssonar og er nú allt kapp lagt á að koma af stað kynningarverkefnum sem íslensk vara og ekki síst ferðaþjónusta nýtur góðs af. Mér fannst eðlilegt að hafa sama formanninn í stjórn IN beggja vegna Atlantsála svo að sem mest nýtist af reynslu og því góða starfi sem unnið hefur verið hjá Ferðamálastofu í New York og viðskiptafulltrúa utanríkisráðuneytisins þar í borg.

Í tengslum við fyrirhugaða útrás undir merkjum Iceland Naturally í Evrópu átti ég nýlega fundi með sendiherrum og fulltrúum Ferðamálastofu í Evrópu.

Í kjölfarið hef ég velt því fyrir mér hvernig starfsemi Ferðamálastofu sé best komið á þessu svæði en hún er núna í Frankfurt og Kaupmannahöfn auk þess sem markaðsstarfið í Bretlandi er rekið frá Ferðamálastofu í Reykjavík.

Það hafa ýmsir velt því upp og nú á síðasta fundi Ferðamálaráðs, hvort þetta fyrirkomulag þjónar greininni best eða hvort það myndi styrkja markaðsstarf  Ferðamálastofu  og gera það enn markvissara að sameina skrifstofurnar í Frankfurt og Kaupmannahöfn  í eina Evrópuskrifstofu sem yrði þá efld verulega. Þá yrði ein skrifstofa í Bandaríkjunum, ein í Evrópu og síðan farið að huga að opnun skrifstofu í Asíu.

Á undanförnum árum hefur aukist allt samstarf við sendiráðin á sviði kynningarmála. Þar ber hæst frábært samstarf um IN verkefnið í Bandaríkjunum. Þá er í vaxandi mæli samstarf um staðbundnar kynningar þar sem viðkomandi sendiráð, Ferðamálastofa auk ferðaþjónustufyrirtækjanna og fleiri taka þátt.

Á síðustu vikum hafa verið haldnar slíkar ferðakynningar í sendiráðunum í Osló, Kaupmannahöfn, Stokkhólmi, London og Helsinki. Þá má einnig nefna hér frábært samstarf sem verið hefur við sendiráðið í Kína um kynningarmál þar. Mun fleiri dæmi mætti nefna um þetta aukna samstarf við flest sendiráð okkar.

Ég legg mikla áherslu á að þetta samstarf þróist og dafni enn frekar.

Ég þreytist ekki á að minna á að góðar samgöngur séu forsenda fyrir öflugri ferðaþjónustu og því legg ég gríðarlega áherslu á að uppbygging samgöngumannvirkja komi ferðaþjónustunni að sem mestu gagni.

Með styttingu leiða og endurbyggðum vegum á Vestfjörðum opnast möguleikar á hringleiðum sem ferðaþjónustan hefur lagt áherslu á.

Búið er að tryggja fjármuni til fyrsta áfanga við að endurbyggingu Uxahryggjarvegar og er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í sumar. Þá er gert ráð fyrir endurbyggingu Gjábakkavegar um Lyngdalsheiði og er verið að meta umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, en það verk hefur því miður tafist.

Aðgengi að þjóðgarðinum á Þingvöllum verður sem sagt stórbætt með þessum aðgerðum og á samgönguáætlun er einnig  vegurinn um Snæfellsnesþjóðgarð sem mun þannig opnast enn frekar.

Vegur frá hringvegi að Dettifossi verður boðinn út á næstunni. Seinni áfangar vegarins, það er tengingin áfram niður í Ásbyrgi og að Norð austurvegi miða ég við að klárist á næsta áætlunartímabili, en samgönguáætlun er einmitt í endurskoðun um þessar mundir í samgönguráðuneytinu.  Í heildina er hér um að ræða nærri 2 milljarða verkefni þegar hringnum verður lokið að fullu. Í samgönguáætlun er því og verður  rík áhersla lögð á bætta aðkomu í þjóðgörðum. 

Ferjusiglingar skipta ferðaþjónustuna miklu.  Því ber að fagna stórhug eigenda Sæferða, sem reka Breiðafjarðarferjuna Baldur, sem hafa fest kaup á stærri ferju til þess að efla ferðaþjónustu við Vestfirði og Breiðafjarðarsvæðið. Þá er ný ferja væntanlega á næstunni til Grímseyjarsiglinga. Ferðum  Vestmannaeyjarferjunnar Herjólfs hefur verið fjölgað  og fer Herjólfur nú 14 ferðir á viku allt árið og er það í samræmi við ákvörðun mína um að bæta enn frekar samgöngur við Eyjar.

Ferðaþjónustan í Vestmannaeyjum hefur átt undir högg að sækja og hefur einkum verið horft til bættra samgangna til að bæta ástandið. Það eru því mikil tíðindi að Siglingastofnun telji höfn á Bakkafjöru mögulegan valkost en slík höfn gæti eðlilega haft mikil áhrif á allt ferðamynstur á Suðurlandi. Á næstunni mun nefnd um ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum skila áliti sínu.

Mikil umræða hefur verið í gangi vegna áhrifa gengisþróunar á ferðaþjónustu.  Ég var að fá í hendur úttekt sem Hagfræðistofnun vann fyrir Ferðamálastofu  um áhrif raungengis á ferðaþjónustuna. Þar kemur margt athyglisvert fram og ég hvet fundarmenn til að kynna sér skýrsluna sem er komin á vef samgönguráðuneytis.

Í ljós kom að breyting á raungengi á viðkomandi ári hafði ómarktæk áhrif á breytingar á fjölda ferðamanna. Aftur á móti reyndist raungengi krónunnar árið á undan hafa marktæk áhrif, sem og breyting á olíuverði og breyting á landsframleiðslu þess lands sem ferðamennirnir komu frá. Þetta kemur nokkuð á óvart því að flestir útlendingar ákveða ferðir sínar hingað með tiltölulega stuttum fyrirvara.

Gera má ráð fyrir að um 45% af tekjum fyrirtækja í ferðaþjónustu á Íslandi verði til í erlendri mynt, en einungis 25% kostnaðar. Misvægið nemur því um 20% af tekjum.

Myndin sem Hagfræðistofnun dregur upp er mjög athyglisverð. Ég er á þessu stigi þó ekki reiðubúinn til að taka niðurstöður hennar sem algildan sannleik fyrir alla greinina. Eins og við vitum eru fyrirtækin mörg og margbreytileg – og eins og gengur þá lenda ýmsir utan við hefðbundna mælikvarða. 

Í lokaniðurstöðum Hagfræðistofnunar segir að ferðaþjónusta á Íslandi myndi ekki njóta mikils góðs af því að krónan félli og verðlag hækkaði hér að sama skapi.  Það bendir því allt til þess að gengisþróun íslensku krónunnar hafi ekki haft þau neikvæðu áhrif í ferðaþjónustu sem ýmsir hafa látið í veðri vaka. Enda má draga þá ályktun að umhverfið sé ekki sem verst þegar litið er til þess að öflug fyrirtæki og fjarfestar eru að fjárfesta í auknu flugi til landsins, í fjölmörgum hótelum,  og síðast en ekki síst í Ráðstefnumiðstöð, tónlistarhúsi og hóteli hér við Austurhöfnina. Það bendir því allt til þess að framunda séu bjartir tímar í íslenskri ferðaþjónustu. 

Ágætu fundarmenn. Ég vona að þessi athyglisverða skýrsla Hagfræðistofnunar verði tekin til rækilegrar umræður á vettvangi ferðaþjónustunnar.

Að lokum þakka ég Samtökum ferðaþjónustunnar fyrir gott samstarf og óska þess að ykkur megi öllum vel farnast. Það eru allar aðstæður til þess.