Ráðstefnustjóri, ágætu ráðstefnugestir!

Mér er það sérstök ánægja að ávarpa ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs Íslands á þessum sögufræga stað, sem jafnframt er einn fegursti staður landsins.

Hér á Kirkjubæjarklaustri leitar hugurinn til Skaftárelda og Móðuharðinda, sem eru að dómi margra, afdrifaríkustu náttúruhamfarir sem dunið hafa yfir íslensku þjóðina. Í Skaftáreldum árið 1783 rann úr Lakagígum eitt stærsta hraun sem runnið hefur í einu gosi á jörðinni á sögulegum tíma og er hraunið að margra dómi náttúrufyrirbæri á heimsmælikvarða. Það er þessi jarðsaga og stórbrotna náttúra sem vekur hjá okkur löngun til að að ferðast um landið okkar og heillar einnig fjölda erlendra ferðamanna. Kirkjubæjarklaustur er eftirsóttur ferðamannastaður og vel að verki staðið við uppbyggingu allrar þjónustu hér og í nærsveitum.

Í þessari ræðu mun ég fara yfir það sem ég tel efst á baugi í atvinnugreininni og vil byrja á markaðssókn í íslenskri ferðaþjónustu. Á þessu ári voru 320 milljónir króna á þessum fjárlagalið samgönguráðuneytisins og fór stór hluti fjárins í samstarfsverkefni með ferðaþjónustufyrirtækjum af öllum stæðrum og gerðum. Ferðamálastjóri hefur haldið utan um þetta verkefni með sínu fólki og hef ég heyrt fulltrúa fyrirtækja fara lofsamlegum orðum um það tækifæri sem þessi aðferð hefur veitt í landkynningarmálum. Þó hafa einnig heyrst raddir sem telja að aðferðin henti ekki alls kostar minni fyrirtækjum.

Í því fjárlagafrumvarpi, sem lagt var fram á Alþingi fyrir hálfum mánuði, er gert ráð fyrir að 150 milljónir komi til markaðsmála í ferðaþjónustu, til viðbótar við það sem er til Iceland Naturally. Á árinu 2001 voru þetta 50 milljónir, á árinu 2002 voru þetta 200 milljónir, á árinu 2003 voru þetta 300 milljónir og 320 milljónir í ár. Það er óumdeilt að stjórnvöld og atvinnugreinin hafi nýtt þetta fé af fagmennsku og metnaði. Það sem hins vegar hefur valdið óróa í kringum þessa fjármuni er kæra eins fyrirtækis til Eftirlitsstofnunar EFTA. Kæruefnið er að fyrirtækjum sé mismunað með því að bjóða til samstarfs af þessu tagi. Þó að kæran hafi nú verið dregin til baka er málið enn til skoðunar og er uppi ágreiningur um hvort líta beri á samstarfsverkefnin sem beina styrki til fyrirtækja og samkeppnisstaða þeirra hafi því skekkst. – Ég vona að niðurstaða fáist sem fyrst í þetta mál og að ekki komi til þess að aðferðin, sem nýst hefur til að tvöfalda fé til landkynningar, verði dæmd ónothæf.

Fimm ára samningur um Iceland Naturally verkefnið í Norður-Ameríku er nú að renna sitt skeið, en þar er á ferðinni samstarfsverkefni stjórnvalda og fyrirtækja, sem selja vörur og þjónustu á Bandaríkjamarkaði. Í ljósi góðrar reynslu af verkefninu hefur verið ákveðið að gera nýjan samning og þá til fjögurra ára, eða frá 2005 til ársloka 2008. Framlag samgönguráðuneytis er 700 þúsund dollarar á ári og fyrirtækin leggja fram 300 þúsund dollara. Þarna hefur skapast öflugt og eftirtektarvert samstarf, sem ekki einvörðungu hefur náð góðum árangri, heldur sýnir þann slagkraft sem hið opinbera og hagsmunaaðilar geta náð með því að samnýta fjármagn og þekkingu til að ná sameiginlegu markmiði.

Til þess að fara ofan í saumana á því hvort nýta megi reynsluna af IN til hliðstæðs verkefnis í Evrópu hefur vinnuhópur verið settur á laggirnar. Vinnuhópurinn starfar undir forystu samgönguráðuneytisins, en auk þess eiga þar sæti fulltrúar Samtaka atvinnulífsins, Þýsk-íslenska verslunarráðsins, Fransk-íslenska verslunarráðsins og utanríkisráðuneytis. Starfsmaður hópsins er forstöðumaður Ferðamálaráðs á meginlandi Evrópu enda er reiknað með að verði verkefnið að veruleika verði það vistað hjá Ferðamálaráði, á sama hátt og gert er vestanhafs.

Evrópa er okkur svo mikilvægur markaður að ég vil einskis láta ófreistað til að ná þar auknum árangri. Það þarf því að kynna þeim sem þar búa,
enn frekar en áður, að Ísland sé spennandi viðkomustaður allt árið um kring og að landsbyggðin sé töfrandi jafnt vetur sem sumar. – Íslenska menningarkynningin í París hefur verið nokkuð til umræðu að undanförnu og sýnist sitt hverjum. Mín afstaða er algjörlega skýr og á henni byggðist þátttaka samgönguráðuneytisins í þessari kynningu; það kostar peninga að koma Íslandi á framfæri á erlendum vettvangi. Auðvitað þarf að vanda mjög til allra slíkra kynninga því að annars getur verið verr af stað farið en heima setið. Við stefnum að því að fjölga ferðamönnum frá Frakklandi eins og öðrum löndum Evrópu og nýtum til þess þær leiðir sem við teljum heppilegastar; kynning á íslenskri menningu er ein þeirra leiða.

Það hefur verið athyglisvert að sjá hvernig sveitarstjórnir og fyrirtæki í ferðaþjónustu á öllu Norðurlandi hafa náð að stilla saman strengi og sameinast á einum vettvangi; Markaðsskrifstofu Norðurlands. Þó að ekki liggi fyrir hver árangurinn af þessu hefur orðið er þó kominn vísir að einhverju sem vert er að fylgjast vel með. Þarfir ferðaþjónustunnar þurfa, eins og í öðrum atvinnugreinum, að vera í stöðugri endurskoðun. Burtséð frá mörkum sveitarfélaga eða kjördæma eiga heilu svæðin sameiginlegra hagsmuna að gæta og eiga ekki hafa neitt annað að leiðarljósi við að sameina krafta sína. Mér finnst Markaðsskrifstofa Norðurlands athyglisverð nálgun á markaðssetningu heilla svæða, því að öll vitum við að sameinað átak er aflmeira en þegar hver og einn hugsar aðeins um þrönga eiginhagsmuni. Það er ástæða til að fagna þessu starfi Norðlendinga en vissulega er hér um langtímastarf að ræða sem ekki er hægt að mæla árangur af á fyrsta eða öðru ári verkefnisins.

Snemma á þessu ári opnaði Ferðamálaráð nýja skrifstofu á Norðurbryggju, eða Bryggjunni, í Kaupmannahöfn. Þó að þessilandkynningarskrifstofa sé enn á bernskuskeiði þá vona ég að þeir sem starfa í ferðaþjónustu átti sig á því að þarna er komið tækifæri sem nauðsynlegt er að kynna sér og nýta sem allra best. Það fer alltaf best á því að fyrirtækin og stjórnvöld nái að starfa saman og ná þannig meiri slagkrafti í þeirri hörðu samkeppni sem ferðaþjónustan starfar í.

Vest Norden ferðakausptefnan var haldin í Reykjavík fyrir réttum mánuði síðan. Þótti vel til takast og engin þreytumerki að sjá á þessu áralanga samstarfi Íslands, Grænlands og Færeyja. Á næsta ári er það Grænlendinga að halda ferðakaupstefnuna og hafa þeir boðað að hún muni haldin í Kaupmannahöfn næsta haust. Norðurbryggjuhúsið verður vettvangur kaupstefnunnar og verður mjög fróðlegt að sjá hvort þessi leið Grænlendinga muni breyta eðli kaupstefnunnar til framtíðar.

Á þessu ári hefur formennskan í Norrænu ráðherranefndinni verið í höndum Íslendinga. Mikið hefur verið að gerast í samgöngumálum enda verða alþjóðlegar reglur um flug og siglingar sífellt fyrirferðarmeiri og við viljum standa þannig að málum að við verðum, ásamt Norðurlöndunum, leiðandi í öryggismálum. Ísland hefur sérstaklega beint sjónum að umferðaröryggi en þar, eins og í öllum þessum málaflokkum á ferðaþjónustan mikilla hagsmuna að gæta. Eins og þið hafið eflaust orðið vör við hefur samgönguráðuneytið í samstarfi við Umferðarstofu staðið fyrir átaki til að efla vitund fólks um umferðaröryggismál og þá miklu ábyrgð sem hvert og eitt okkar ber í umferðinni.

Ferðamálin hafa verið ofarlega á blaði undir formennsku Íslands og unnið hefur verið að stefnumótun í sjálfbærri ferðaþjónustu á norðurslóðum, í menningartengdri ferðaþjónustu og í ferðaþjónustu fyrir fatlaða. Afrakstur þessa starfs verður kynntur á ráðstefnu í Kaupmannahöfn þann 8. nóvember n.k.

Samgönguráðuneytið hefur á þessu ári, eins og því síðasta, haft samstarf við iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið um uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Fjármunir til þessa hafa komið af byggðaáætlun. Á þessu ári hófst samstarf um byggðamál í tengslum við byggðaáætlun og er markmiðið að styðja sérstaklega við uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni næstu þrjú árin a.m.k. Verkefnin, sem styrkt hafa verið, hafa verið á sviði menningar en einnig tengst umhverfisvottunarkerfinu Green Globe 21. Einnig á samgönguráðuneytið í ýmiss konar samstarfi við ferðaþjónustuaðila víða um land í því skyni að gera ferðaþjónstunni kleift að takast á við aukinn fjölda ferðafólks og sífellt meiri kröfur um gæði og þjónustu.

Ferðamálaráð Íslands hefur sinnt umhverfismálum ötullega frá upphafi og nýtur þar algjörrar sérstöðu miðað við sambærilegar stofnanir í öðrum löndum. En það er engin tilviljun að umhverfismál á ferðamannstöðum séu eitt lögbundinna verkefna Ferðamálaráðs hér á landi. Allir vita að íslensk ferðaþjónusta byggir á náttúru landsins. Greinin má því aldrei hafa skammtímamarkmið að leiðarljósi og verður að dafna í anda sjálfbærrar þróunar. – Ég tel því mikilvægt að umhverfisvottun og efling umhverfisfræðslu verði tekin fyrir skipulega og markvisst á sama hátt og sveitarfélögin á Snæfellsnesi og Ferðaþjónusta bænda hafa gert í samstarfi við Hólaskóla. Það er einnig fagnaðarefni að veita eigi sveitarfélögunum á Snæfellsnesi sérstaka viðurkenningu á World Travel Market í London í næsta mánuði.

Ég myndi ég vilja sjá frammistöðu íslenskrar ferðaþjónustu á sviði umhverfismála hampað enn frekar en nú er gert. Það eru og gætu orðið mörg tilefni til þess. Ísland hefur sérstöðu í auðlindanýtingu á sjálfbærum forsendum og við eigum bæði að vekja athygli á því og nýta okkur þá kosti sem íbúar vítt um veröldina sjá í því að sækja heim þjóð sem gerir umverfismálum svo hátt undir höfði og við gerum og viljum gera. Umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs eru liður í því að vekja athygli á þeim sem skara fram úr á þessu sviði og ríkir ávallt tölvuerð eftirvænting um það hvaða fyrirtæki hljóti hnossið hverju sinni en þau eru nú veitt í tíunda sinn.

Í öllu því sem að ferðaþjónustunni snýr er nauðsynlegt að horfa enn frekar til framtíðar. Á ferðamálaráðstefnunni í Mývatnssveit á síðasta ári kynnti ég fyrirhugaða vinnu við gerð ferðamálaáætlunar undir stjórn ferðamálastjóra. Þessi ferðamálaáætlun er þessa dagana að líta dagsins ljós, en hún er fyrir tímabilið 2006-2015 með framkvæmdaáætlun til ársins 2010. Áætluninni er ætlað að vera grunnur að þingsályktunartillögu, sem verður vonandi lögð fram á þessu þingi. Auk stýrihópsins hefur tuttugu manna bakland haft tækifæri til að hafa áhrif á gerð ferðamálaáætlunar. Þeir sem tilnefndu fulltrúa í þessa bakvarðasveit voru SAF, Ferðamálasamtök Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og stjórnmálaflokkarnir á Alþingi. Vil ég nota tækifærið og þakka öllu þessu fólki fyrir óeigingjarnt starf.

Þegar ferðamálaáætlun hefur verið kynnt á Alþingi mun hefjast vinna við endurskoðun laga um skipulag ferðamála. Vegna mikilla breytinga í íslenskri ferðaþjónustu, m.a. með stofnun Samtaka ferðaþjónustunnar og evrópskum reglum um neytendavernd og tryggingar, hafa lög um skipulag ferðamála tekið mörgum breytingum á undanförum árum en eru að grunni til 40 ára gömul.

Ágætu ráðstefnugestir! Það verður spennandi að fylgjast með þeim erindum sem hér verða í dag en meginþema ráðstefnunnar Efnahagslegt gildi ferðaþjónustunnar er vissulega brýnt í umhverfi sem tekur stöðugum breytingum og býr oft við mikla óvissu og óstöðugleika. Umræðan er ekki síður brýn þegar fjármagn til markaðsmála ferðaþjónustunnar er hugsanlega að minnka á ný og því gríðarlega mikilvægt að ferðaþjónustan nái að koma því vandlega á framfæri hve gríðarlega þýðingarmikil hún er íslensku efnahagslífi.

Eins og sjá má hefur fjölgun ferðamanna hingað til lands verið með ólíkindum. Spár sem taka mið af undanförnum 10 árum sýna að fjöldi erlendra ferðamanna gæti orðið á bilinu sjö til áttahundruð þúsund árið 2015. Þetta eru háar tölur en ég leyfi mér samt að halda því fram að miðað við þann kraft sem býr í íslenskri ferðaþjónustu geti þessi tala átt eftir að verða miklu hærri. Getur það verið! – að eftir fimm góð ár muni okkur takast að tvöfalda þann fjölda ferðamanna sem kemur til landsins í ár? Þessari spurningu þurfum við að svara í áætlunum okkar á næstunni.

Að lokum vil ég þakka öllum sem komið hafa að undirbúningi ráðstefnunnar; starfsfólki Ferðamálaráðs og fulltrúum ferðaþjónustunnar hér á Kirkjubæjarklaustri og í nágrenni. Ég óska ykkur öllum góðrar ráðstefnu og ánægjulegrar dvalar á þessum góða stað.