Fyrsta hafnasambandsþing Hafnasambands sveitarfélaga er haldið á Grand Hótel í Reykjavík dagana 28 og 29 október.  Í upphafi þingsins flutti Sturla Böðvarsson samgönguráðherra eftirfarandi ræðu:

Fundarstjóri, ágætu fulltrúar á ársfundi Hafnarsambandsins!
Mér er það sérstök ánægja að ávarpa þennan fyrsta ársfund Hafnarsambands sveitarfélaga, eftir skipulagsbreytingar.
Það er óhætt að segja að miklar breytingar séu að eiga sér stað í því umhverfi sem við störfum á vettvangi siglinga og hafnarstarfsemi. Þessar miklu breytingar endurspeglast jafnt í umhverfi hafnanna, fjármálaumhverfi fyrirtækja sem og stjórnsýslunni. Ný hafnalög, strangar reglur um hafnavernd og siglingavernd, umræða um strandsiglingar og sameining hafna eru meðal þeirra mála sem brenna á okkur.
Ég vil nota þetta tækifæri og óska ykkur til hamingju með góðan árangur á mörgum sviðum á síðustu misserum. Þar vil ég ekki síst nefna hversu vel tókst til með að koma á þeim breytingum sem vinna þurfti vegna reglna um siglinga og hafnavernd. Þá vil ég nota tækifærið hér í upphafi ávarps míns og lýsa yfir ánægju með sameiningu Reykjavíkurhafnar, Grundartangahafnar, Akranesshafnar og Borgarnesshafnar. Sú aðgerð ber vott um framsýni og er viðurkenning á stórstígum breytingum sem eru að verða á flutningakerfi landsins. Þessi sameining byggir á þeim breytingum sem ný hafnalög hafa mótað. Með þeim var lagður grunnur að nauðsynlegri þróun í starfsemi hafnanna í landinu sem mun verða til hagsbóta í framtíðinni.


Hafnalögin móta breytingarnar.

Eins og fulltrúar á ársfundi Hafnarsambandsins þekkja var það ekki átakalaust að ná fram breytingum á hafnarlögum. Því fagna ég því þegar það er viðurkennt að breytingin á lögunum var tímabær. Ég vil leyfa mér að vitna í októberhefti fréttabréfs Reykjavíkurhafnar þar sem fjallað er um nýju hafnalögin. Þar segir:
,,Ný hafnalög tóku gildi 1. júlí 2003 og valda gjörbyltingu á rekstrarumhverfi hafna.
Segja má að hafnir hafi fram til þessa verið reknar í skjóli samgönguráðuneytisins. Þar var gjaldskrá hafna ákveðin að mestum hluta, og var hún ein og hin sama fyrir allar hafnir. Hafnirnar, sem slíkar, höfðu lítil áhrif á afkomu sína þó að þær hafi sjálfar ráðið þjónustugjaldskrá sem aðeins nemur litlum hluta af tekjum hafna. Það sem að hafnirnar gátu gert til að sýna góðan rekstur byggðist því næstum eingöngu á aðhaldssemi og því að stilla kostnaði í hóf eins og mögulegt var. Þetta var þó ekki algilt og ekki endilega keppikefli allra hafna þar sem þær gátu flestar sótt fé í ríkissjóð til uppbyggingar, og hafnarsjóðirnir hafa verið nátengdir sveitarsjóðunum.“
Svo mörg voru þau orð. Þó svo að ég taki ekki undir allt sem þarna var sagt þá finnt mér samt að þessi umfjöllun hafnarstjórans í Reykjavík lýsi vel ástæðum þess hvers vegna farið var út í það stórvirki að umbylta hafnalögum í miklum pólitískum andróðri. En til þess að ná fram breytingum þurfti töluvert afl og sannfæringu. Og breytingarnar verða vissulega til þess að meira reynir á hafnarstjórnirnar og þær verða að velja og hafna og taka á sig þá ábyrgð því ekki er lengur hægt að reka hafnirnar í ,,skjóli samgönguráðuneytisins “ svo vitnað sé til Fréttabréfs Reykjavíkurhafnar.
Nýju hafnalögin hafa bráðum verið í gildi í eitt og hálft ár. Reyndar er það svo að lögin taka gildi í áföngum. 1. júlí 2003 tók meginefni laganna gildi, 1. júlí 2004 var gjaldskráin gefin frjáls og frá og með fjárlögum 2007 taka hinar nýju reglur um ríkistyrki til hafnarframkvæmda gildi, þ.e. sjálf 24.grein laganna. Frá gildistöku laganna hefur verið unnið að nýrri reglugerð um hafnir sem tók gildi s.l. vor. Í reglugerð þessari, sem er númer 326/2004, eru margar veigamiklar breytingar sem snerta hafnir. Á sama tíma hefur verið unnið að endurskoðun allra hafnareglugerða landsins og hefur öllum hafnarsjóðum verið send rammareglugerð til skoðunar. Búast má við að þeirri vinnu ljúki á fyrri helmingi næsta árs, en um er að ræða endurskoðun á um 50-60 hafnarreglugerðum sem er heilmikil vinna.
Ég vil leyfa mér að víkja að hver þróunin hefur verið eftir að hin nýju hafnarlög tóku gildi.
Það er skemmst frá að segja að til mín hafa borist afar fár kvartanir eða athugasemdir. Í byrjun var það aðlögunargjaldskráin fræga og þær breytingar sem hún leiddi til. Ég tók ákvörðun um að hækka minna hafnargjöld sem einkum gátu átt við strandflutningaskip. Sú ákvörðun var gagnrýnd af fulltrúum hafnanna. Ég er sannfærður í dag að sú ákvörðun var rétt. Ég hefði ekki viljað standa frammi fyrir því að hafa hækkað þær álögur í ljósi þess sem að blasir við í dag þegar strandsiglingum er hætt.
Önnur breyting við gildistöku laganna var að hafnir urðu virðisaukaskattsskyldar. Breytingin sjálf gekk vel þó vissulega sé um nokkuð flókið mál að ræða. Ég hef ekki orðið þess var að fundið hafi verið að þessari breytingu. Þann 1.júlí á þessu ári var gjaldskrá hafna gefin frjáls eins og fyrr var getið. Ekki get ég neitað því, í ljósi þess sem á undan var gengið, að ég bar nokkurn kvíðboga fyrir því hvernig til tækist og að miklar og langvinnar deilur myndu rísa. En hvað gerðist? Hafnirnar breyttu flestar lítillega sínum gjaldskrám ef Reykjavíkurhöfn er undanskilin. Hvergi heyrðist hljóð úr horni enda held ég flestir séu þeirrar skoðunar í dag, eins og hafnarstjórinn í Reykjavík kom inn á í leiðara hafnablaðsins, að auðvitað var löngu tímabært að hafnirnar réðu þessum málum sjálfar.
Ég hef hér í stuttu máli farið yfir þróunina frá því að hafnalögin voru sett. Ég sé fyrir mér að næstu áfangar, sem reyna á hin nýju lög, verði fyrst og fremst tveir, þ.e. hvernig til tekst með hina miklu og og um margt gleðilegu samvinnu Reykjavíkur-, Akraness-, Borgarness- og Grundartangahafna og síðan kemur að lokaáfanganum sem er 1. janúar 2007, þegar ýmsar hafnir þurfa að standa á eigin fótum án styrkja eða með minni ríkisstykjum, þó svo að minni hafnirnar muni ná fram hækkun styrkja. Þessir áfangar eru ekki síður mikilvægir en hinir fyrri.
Í hafnalögunum er í bráðabirgðaákvæði tiltekið að ráðherra skuli innan þriggja ára frá gildistöku þeirra setja á stofn endurskoðunarnefnd til þess að meta hvernig til hafi tekist. Sérstaklega skal nefndin, og það held ég að sé þarft, meta hvernig taka eigi á málum skuldsettustu hafnanna.
Ég hef nú ákveðið í samráði við formann Hafnasambandsins að setja þegar á stofn endurskoðunarnefnd skv. hafnalögunum og mun þessi nefnd, sem í eiga sæti fulltrúar frá Hafnasambandi sveitarfélaga, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða og Landssambandi íslenskra útvegsmanna taka til starfa innan skamms.
Í ljósi tillögu um sameiningu sveitarfélaga er nauðsynlegt að skoða hvaða breytingar þarf að gera. Ég tel að við þurfum jafnvel að skoða frestun á gildistöku 24.greinar lagann um ríkistyrki ef það gæti orðið til þess að auðvelda sameiningu.

Strandsiglingar

Eimskipafélag Íslands hefur tilkynnt þá ákvörðun sína að leggja af siglingar síðasta áæltunaskipsins sem siglir hringinn með ströndinni, ef frá eru skildar siglingar ,,Jaxlsins“ á Vestfjarðarhafnirnar. Í kjölfar ákvörðunar Eimskipafélags Íslands um að hætta strandsiglingum hefur skapast mikil umræða um áhrifin af þessari ákvörðun að færa alla flutninga félagsins á vegakerfið.
Ég vil nefna, að það að Eimskip skuli nú hætta áætlunarsiglingum er hluti af langri þróun sem ef til vill hefur staðið í áratug eða lengur. Benda má á tvo aðra atburði úr fortíðinni í þessu sambandi, þ.e. þegar að Ríkisskip hættu erfiðum rekstri 1992 og þegar Samskip hættu strandflutningum árið 2000.
En við lifum á tímum hins frjálsa markaðshagkerfis og atvinnulífið starfar eftir reglum sem settar eru á hinu Evrópska efnahagssvæði. Það segir enginn lengur fyrirtækjunum hvað þau eiga að gera haldi þau sig innan þeirra ramma sem samfélagið hefur sett. Ég trúi ekki öðru en stjórnendur Eimskipafélagsins hafi tekið sína ákvörðun að vel yfirlögðu ráði þar sem bornir hafa verið saman allir valkostir í stöðunni út frá því sem talið var að kæmi sér best fyrir fyrirtækið og viðskiptavini þess. Ég vil staldra aðeins við seinna atriðið. Getur verið að lítil eftirspurn hafi verið eftir strandflutningunum þrátt fyrir það að þeir hafi verið allt að því helmingi ódýrari en sambærilegir flutningar á landi? Svo þegar raunveruleikinn blasir við þá rjúka menn upp til handa og fóta og telja mikinn missi af sjóflutningunum.
Ætla má að áætlunarsiglingar við ströndina leggist af að mestu þann 1. desember n.k. nema nýir aðilar hefji rekstur á þessu sviði, sem vel kann að vera möguleiki. Fyrir liggur að markaðurinn telur þennan flutningsmáta ekki hagkvæman og mun væntanlega ekki breyta þeirri skoðun sinni nema eitthvað nýtt komi til í umhverfinu og verður mönnum þá litið til stjórnvalda.
Mjög fljótlega eftir að Eimskip tilkynntu ákvörðun sína setti ég á laggirnar vinnuhóp samgönguráðuneytisins með Vegagerðinni og Siglingastofnun Íslands til þess að kryfja til mergjar ákvörðun Eimskips og leggja mat á hvaða breytingar yrðu á flutningum innanlands í kjölfar þeirra. Starfshópur þessi hefur þegar skilað niðurstöðum sínum til mín og verða þær kynntar í fyrsta skipti á þinginu hér á eftir. Mun Jóhann Guðmundsson kynna helstu atriði skýrslunnar. Ég vil greina frá því að megin niðurstaða starfshópsins er sú að ákvörðun Eimskipa hefur hverfandi áhrif á flutninga innanlands ein og sér. Áætlað er að flutningur þungra bíla aukist um 2% og heildarumferðin á vegakerfinu um 0,15%. Útstreymi gróðurhúsaloftegunda minnkar en starfshópurinn tekur fram að almennt sé talið að flutningar með skipum sé umhverfisvænn flutningamáti þar sem sá flutningamáti á við.
Bind ég vonir við það að skýrsla vinnuhópsins fái umræðu hér á þessu þingi og víðar í þjóðfélaginu. Hún er fyrst og fremst hlutlæg lýsing á nýju ástandi sem mögulega ætti að geta gagnast til frekari umræðu.
Næsta skref í þessu máli er þegar ákveðið af minni hálfu og það felst í því að skipa nefnd þriggja ráðuneyta, sbr. samþykkt ríkisstjórnarinnar. Henni er ætlað að fjalla um mál strandsiglinga á breiðari grundvelli og mun nýta þessa skýrslu við frekari vinnu.
Eigi strandsiglingar að hefjast að nýju kemur gróft frá sagt aðeins tvennt til greina og það er annars vegar að gera landflutningana dýrari og þá væntanlega með aukinni skattheimtu eða þá hins vegar að styðja við bakið á strandflutningum með fjárframlögum eða ígildi þeirra. Hvaðan þau fjárframlög ættu að koma er svo spurning sem þyrfti að svara. á t.d. að verja minna til vegamála á landsbyggðinni í staðinn.
Hvorugur þessara kosta er heillandi að mínu mati….

Er sameining hafna svarið
Eins og ég gat um í upphafi tel ég að viljayfirlýsing um sameiningu hafnanna í Reykjavík, Akranesi, Grundartanga og Borgarnesi hafi verið jákvæð aðgerð. Ég tel að þarna hafi menn stigið fyrsta raunverulega skrefið inn í nýja öld í hafnarmálum vegna nýrra hafnalaga og vegna breytinga í flutningakerfi okkar. Því er mjög þýðingarmikið að vel takist til, því það er líklegt að fleiri hafnir munu fylgja í kjölfarið ef allt gengur að óskum. Krafa samtímans er hagkvæmari rekstrareiningar með sameiningu og möguleikar á sérhæfingu.
Viðskiptahugmyndin, sem liggur til grundvallar þessari hafnasameiningu, hefur allt þetta til að bera til hagsbóta fyrir hafnirnar og notendur þeirra. Líkur eru á að hinu nýja fyrirtæki takist með tímanum að ná fram mun markvissari fjárfestingarstefnu og ná þannig niður kostnaði þegar til lengdar lætur. Sé litið til umhverfismálanna er sameiningin líklega mjög af hinu góða. Hætt hefur verið við umdeilda hafnargerð í Geldingarnesi og starfsemin, sem sú höfn átti að taka við, væntanlega flutt upp á Grundartanga. Þannig verður vonandi umferð þungra bifreiða minni á sjálfu höfuðborgarsvæðinu, svo eitthvað sé nefnt. Ég hef verið ákafur talsmaður þessarar hugmyndafræði um alllangt skeið. Ég tel líka að tilkoma nýju hafnalaganna hafi í raun gert þessa sameiningu mögulega. Ég vil því nota þetta tækifæri til þess að óska þeim, sem að þessu standa, enn og aftur til hamingu og óska þeim um leið velfarnaðar við að leysa þetta vandasama verkefni.
Næstu sameiningar hafna til mikilla hagsbóta gæti verið að sameina allar hafnirnar á Snæfellsnesi, sameina hafnir Vesturbyggðar og Tálknafjarðar, sameina hafnir í Bolungavík, Ísafirði og Súðavík, sameina hafnirnar í Skagafirði, Skagaströnd og Blöndósi og sameina allar hafnirnar á Reykjanesi með Hafnarfjarðarhöfn.
Ágætu þinggestir!
Samgönguáætlun

Vinna við fjögurra ára samgönguáætlun 2005-2008 gengur skv. áætlun og reiknað er með að hún verði lögð fram á vorþingi. Tillaga um fjárveitingar á næsta ári eru þegar komnar fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2005. Eins og þekkt er þá er lögð til allmikil frestun fjárframlaga til nýframkvæmda m.v. samgönguáætlun eða um 1,9 milljarðar króna sem er mikil fjárhæð. Rökin fyrir frestun framkvæmda nú er til þess að sporna við þenslu, m.a. þegar að hápunktur framkvæmdanna fyrir austan fer í hönd. Ég hef þrátt fyrir þessi veigamiklu rök lagt áherslu þá það að ekki verði niðurskurður á fjárframlögum til hafnamála á aðlögunartíma hafnarlaganna og verður við það staðið.
Óskir sveitarfélaganna eru samt eins og ævinlega mjög miklar. Ég hef velt því fyrir mér hvort virkilega sé þörf fyrir allar þessar miklu framkvæmdir og hef þá í huga hvort ekki megi ná sama árangri í einhverjum tilvikum með sameiningu og samvinnu nálægra hafna, sérstaklega með tilliti til þess að samgöngur á landi hafa batnað jafnmikið og raun ber vitni. Ég veit ekki hvort allir hafa áttað sig á því að nýju hafnalögin færa í reynd mikla ábyrgð á stjórnendur hafnanna um að halda rekstri innan marka og að hann verði sem hagkvæmastur.
Ágæti þingfulltrúar. Það er von mín að við getum sem best unnið saman, samgönguráðuneytið og hafnarstjórnir að mikilvægum hagsmunamálum í þágu hafnanna og viðskiptamanna þeirra.
Að lokum vil ég þakka stjórn Hafnasambandsins fyrir ágætt samstarf og vænti þess að Hafnasambandinu megi vegna vel.