Samgönguráðherra flutti eftirfarandi ræðu við athöfn á Reykjavíkurflugvelli í gær þegar þess var minnst að 60 ár voru þá liðin frá því Bretar afhentu Íslendingum völlinn til fullra afnota. Þorgeir Pálsson flugmálastjóri flutti einnig ávarp og í lokin skemmtu flugmenn gestum með flugsýningu á stórum og litlum flugvélum.

Það er rík ástæða til þess að fagna í dag því liðin eru 60 ár frá því Bretar afhentu Íslendingum Reykjavíkurflugvöll til afnota. Völlurinn hefur ætíð síðan þjónað innanlandsflugi landsmanna og lengi vel einnig millilandaflugi eins og við þekkjum. Flugvöllurinn er reyndar enn fullgildur millilandaflugvöllur og talsvert notaður sem slíkur.

Saga flugsins í Vatnsmýrinni er enn lengri. Hún hófst í september 1919 þegar Avro flugvél í eigu Flugfélags Íslands hins fyrsta hóf sig til flugs. Í árdaga flugsins hér voru flugbrautir grasi lagðar en þegar Bretar komu til skjalanna í október 1940 var lagður grundvöllur að því mannvirki sem flugvöllurinn er í dag. Fyrir réttum 60 árum afhentu svo Bretar Íslendingum flugvöllinn til umráða og tók þá Flugmálastjórn Íslands við rekstri hans. Auk flugvallarins sjálfs er enn að finna nokkrar menjar um veru Bretanna í formi bygginga, sumar hverjar enn í notkun.

Það liggja því söguleg og menningarleg rök fyrir því að Reykjavíkurflugvöllur þjóni landsmönnum hér í hjarta höfuðborgarinnar okkar þaðan og þangað  sem leiðir allrar Íslendinga liggja.

Ekki þarf að fjölyrða um þýðingu flugvallarins fyrir Reykvíkinga og raunar landsmenn alla. Flugið varð snemma mikilvæg atvinnugrein og frumkvöðlar í atvinnuflugi og flugrekstri tóku að þjóna landsmönnum með reglulegu flugi frá Vatnsmýrinni til fjölmargra staða á landsbyggðinni sem og annarra landa. Fyrirtækin byggðust upp, yfir þau komu skin og skúrir en alltaf risu þau upp endurnýjuð og héldu áfram að sinna þessari mikilvægu tengingu höfuðborgar við landið og umheiminn. Auk sjálfrar flugstarfseminnar hefur þróast við Reykjavíkurflugvöll margs konar önnur þjónusta og starfsemi.

Þannig má segja að sá nýi tími sem barst til Íslands með fluginu hafi átt vöggu sína á Reykjavíkurflugvelli og sífellt skapað ný tækifæri í atvinnulífinu.

Árin 2000 til 2002 fór fram endurnýjun flugvallarins samkvæmt samkomulagi borgaryfirvalda og samgönguyfirvalda. Var orðið löngu tímabært að lagfæra flugbrautir og endurnýja búnað og má segja að nánast hafi orðið til nýtt mannvirki.   Það var rík ástæða fyrir endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar því innanlandsflugið er að vaxa.  Þeir sem starfa að útrás íslenskra fyrirtækja nýta sér Reykjavíkurflugvöll í auknum mæli og stóraukin millilandasamskipti í viðskiptalífinu er snar þáttur í umferð um völlinn. Þetta er vissulega ánægjuleg þróun.

Reykjavíkurflugvöllur er því best kominn í Vatnsmýri  – fyrir því liggja fjárhagsleg rök.

Mikil umræða varð í þjóðfélaginu þegar endurnýjun flugvallarins stóð fyrir dyrum og hefur hún náð til dagsins í dag. Hart er sótt að starfseminni hér og hugmyndir hafa verið settar fram um að öll flugvallarstarfsemin flytjist út á sjó, uppá heiðar eða verði færð til Keflavíkur. Sumir horfa til þessa svæðis sem framtíðar byggingarlands fyrir höfuðborgina og vilja einnig setja hér niður margs konar starfsemi sem tengist ekki síst menntun og vísindum. Ég segi hins vegar að hér sé þegar fyrir hendi margs konar starfsemi sem er eins konar þekkingarþorp. Við þurfum ekki að staldra lengi við til að koma auga á það.

Við flugvöllinn starfa kringum 20 fyrirtæki, langflest í flugi og ferðaþjónustu. Starfsmenn þeirra eru varlega áætlað kringum 500 og hátt í 400 þúsund farþegar fara um völlinn á ári hverju í innanlandsflugi. Við þá tölu bætast síðan við um 26 þúsund millilandafarþegar. Fjárfesting er mikil á Reykjavíkurflugvelli, fyrir utan völlinn sjálfan má nefna alþjóða flugþjónustuna, margs konar aðstöðu fyrirtækja í flugrekstri, verkstæðum og kennslu. Öllu þessu tengist margs konar þjónusta og velta. Ég spyr: ,,Af hverju er svo nauðsynlegt að flytja allt þetta úr Vatnsmýrinni? Gera menn sér grein fyrir áhrifum og þýðingu þessarar starfsemi fyrir borgarbúa og þjóðfélagið í heild?”

Ég segir því enn og aftur: Reykjavíkurflugvöllur er best kominn í Vatnsmýri  – fyrir því liggja þjóðhagsleg rök.

Í umræðunni um framtíð Reykjavíkurflugvallar hafa önnur möguleg flugvallastæði komið til skoðunar. Til dæmis að leggja nýjan flugvöll á Hólmsheiði, í Kapelluhrauni eða á Lönguskerjum og jafnvel hafa fleiri staðir verið nefndir. Enginn þessara staða hefur alla þá kosti sem Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýri hefur og nægir þar að staldra við veðurfar. Allir eru sammála um að þegar flug er annars vegar má hvergi slaka á öryggiskröfum. Fyrir þeim er vel séð á Reykjavíkurflugvelli í dag og meðan ekki koma fram aðrir kostir og öruggari þarf ekki að ræða málið frekar.

Reykjavíkurflugvöllur er því best kominn í Vatnsmýri  – fyrir því liggja öryggisástæður.

Höfuðborg hvers lands þarf að vera vel tengd. Þangað og þaðan þurfa að vera greiðar samgöngur á öllum sviðum og það hafa Íslendingar búið við í 60 ár og vel það. Reykjavík þarf að vera áfram vel tengd við eitt af megin samgöngukerfum landsins, innanlandsflugið, annars stendur höfuðborgin ekki undir nafni. Þetta á við um þá sem ferðast hvort heldur Íslendinga eða erlenda ferðamenn.

Reykjavíkurflugvöllur er því vel staðsettur – til að tryggja greiðar samgöngur við höfuðborgar-svæðið.

Ég vil að lokum nota tækifærið og minna á það sem framundan er hjá Flugmálastjórn Íslands og nýju hlutafélagi sem stofnað hefur verið  um flugvallarekstur og flugleiðsöguþjónustu. Eins og fram hefur komið hefur lengi verið til athugunar að skilja að stjórnsýslu og eftirlit annars vegar og hins vegar rekstur flugvalla og flugleiðsöguþjónustu. Þessi dagur er nú runninn upp með nýjum lögum sem samþykkt voru á Alþingi fyrir rúmum mánuði. Þannig  gerum við stjórnsýslu og eftirlit gagnsærra og reksturinn sveigjanlegri. Við fylgjum þeirri þróun sem verið hefur í flugheiminum undanfarin misseri og um leið aukum við samkeppnishæfni okkar í rekstri íslenska flugstjórnarsvæðisins og tökumst jafnvel á við ný verkefni á sviði flugleiðsögu. Framundan er að undirbúa breytinguna frekar þannig að hún taki gildi um næstu áramót.

Næsta skrefið er síðan að sameina rekstur Keflavíkurflugvallar og rekstur annarra flugvalla í einu fyrirtæki svo við getum náð þeirri hagkvæmni sem nauðsynleg er í þágu vaxandi flugstarfsemi okkar Íslendinga.

Ég vona að sátt ríki um þessar breytingar sem snerta á einhvern hátt alla starfsmenn Flugmálastjórnar, starfsmenn flugfélaganna og þeirra fyrirtækja sem við flugið starfa. Á sama hátt vona ég að sátt megi nást meðal landsmanna um framtíð Reykjavíkurflugvallar – í þágu allra landsmanna.