Sturla Böðvarsson samgönguráðherra flutti ávarp við athöfn í Borgarnesi 13. maí þegar afhentir voru styrkir úr Menníngarsjóði Vesturlands. Alls fengu 53 verkefni styrk og sá hæsti kom í hlut Landnámssetursins.
Eins og ykkur er kunnugt fer samgönguráðuneytið með málefni ferðaþjónustunnar hér á landi og mótar þá umgjörð sem hentar atvinnugrein í örum vexti og skapar þjóðarbúinu gríðarlega vaxandi tekjur. Vöxtur íslenskrar ferðaþjónustu hefur að undanförnu verið langtum meiri en víðast hvar annars staðar en það ríkir hörð samkeppni um ferðamenn í heiminum og við þurfum að vanda okkur og standa okkur við móttöku þeirra sem hingað koma.
Við höfum lengi byggt alla kynningu á landinu á náttúruperlum okkar og ævintýralegri fegurð landsins, en menningin skipar æ hærri sess. Er það ekki síst vegna aukinnar kröfu ferðafólks um að kynnast menningu þeirra landa sem það sækir heim en einnig vegna þeirrar viðleitni að skapa meiri tekjur af hverjum ferðamanni og að ferðamenn geti notið þess að fara um landið á öllum tímum árs.
Ferðamálaáætlun til ársins 2015 gerir ráð fyrir því að náttúra Íslands, fagmennska, sterk byggð og menning þjóðarinnar verði ráðandi þættir í þróun íslenskrar ferðaþjónustu. Samgönguráðuneytið vinnur eðlilega að eflingu íslenskrar ferðaþjónustu með því að styrkja innviði eins og vegi, flugvelli og hafnir og tryggja fjarskipti; -háhraðatengingar og gsm-samband. Eins hefur ráðuneytið í auknum mæli tekið þátt í alls kyns þróunarverkefnum í ferðaþjónustu. Hafa þau mörg tengst menningu og listum enda leitar fólk í auknum mæli í sögu okkar og sagnaarf til að skemmta ferðamönnum og fræða.
Í ljósi þessara áherslna er það samgönguráðuneytinu mikilvægt og í raun mikill heiður að eiga aðild að menningarsamningi við Austurland og Vesturland. Og það er einstaklega ánægjulegt að fá staðfestingu á þýðingu samningsins svo fljótlega eftir að hann tók gildi.
Ég er mjög ánægður að sjá hve stór hluti styrkþega er einmitt að vinna að verkefnum sem munu styrkja ferðaþjónustuna og gera ferðalög um Vesturland að meiri upplifun. Og auðvitað er einstakt að standa hér í nýju Landnámssetri – talandi dæmi þess sem fólk með stórkostlegar hugmyndir, góða menntun og hæfileika getur komið í verk, njóti það skilnings og styrkra bakhjarla.
Það gleður mig svo sannarlega að sjá hversu metnaðarfull verkefni hafa hlotið styrk hér í dag og ég óska ykkur öllum innilega til hamingju. Ég fyllist tilhlökkun að sjá áform ykkar verða að veruleika og auðga tilveru okkar Vestlendinga. Sum verkefnin hafa reyndar sannað tilvist sína og fá hér því ekki aðeins fjárhagslegan stuðning heldur viðurkenningu á þýðingu þeirra og mikilvægi.
Hugmyndir ykkar og trú á menningarstarfi hér á Vesturlandi er stjórnvöldum hvatning til þátttöku í samstarfi eins og því sem hér á sér stað.
Góðir gestir.
Á þessum degi er mér ofarlega í huga þakklæti til menntamálaráðherra og Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi fyrir að menningarsamningurinn hafi orðið að veruleika. Menningarráð Vesturlands hefur þegar sýnt að það tekur framkvæmd samningsins föstum tökum. Hér í dag hefur verið sleginn tónn í þessu samstarfi sem ég er afar stoltur af. – Að lokum óska ég Menningarráði Vesturlands gæfu í störfum sínum og Elísabetu Haraldsdóttur, nýráðnum menningarfulltrúa, góðs gengis í sínu nýja starfi.
Öllum viðstöddum óska ég til hamingju með daginn. – Það er greinilegt að það er á Vesturlandi sem hlutirnir eru að gerast!
Við ykkur styrkþega vil ég segja ,,Kaupa fley og fagrar árar” og siglið á vit þeirra athyglisverðu verkefna sem þið hafið hlotið styrk til að sinna.
Megi ykkur vel farnast.