Samgönguráðherra flutti eftirfarandi ávarp við opnun Selaseturs Íslands í húsi Sigurðar Pálmasonar á Hvammstanga sunnudaginn 25. júní:
Ágætu heimamenn og gestir.
Ég vil leyfa mér að óska heimamönnum, sem staðið hafa að því á koma á fót Selasetrinu, innilega til hamingju með frábæra hugmynd og skemmtilega sýningu í þessu gamla glæsilega endurbygggða húsi.
Hvað gæti verið sameiginlegt með selum og ferðaþjónustu? Svarið liggur kannski ekki alveg í augum uppi en þó þarf ekki að kafa djúpt til að koma auga á ákveðna hluti. Selir eru forvitnilegar skepnur og þeir eru eitt af því sem getur dregið ferðamenn í þá landshluta sem þá er helst að finna – og það er einmitt hér. Það þarf heldur ekki að kafa djúpt til að finna selina, þeir spóka sig á skerjum og steinum í fjörunni og þegar farið er að þeim með gát má iðulega virða þá vel og lengi fyrir sér.
Starfsemi Selasetursins tengist því vel ferðaþjónustu sem sífellt verður fjölbreyttari hér í Húnaþingi enda er það eitt af markmiðum með starfsemi setursins að stuðla að uppbyggingu hennar meðal annars með menntun svæðisleiðsögumanna. Hér í selasetrinu er líka safnað saman ýmsu því sem snýr að sambúð manna og sela gegnum árin bæði munum og vitneskju og það er mikilvægt að við höldum þessum fróðleik til haga. Hér getum við sótt alhliða fræðslu um seli við strendur Íslands, nýtingu og hlunnindi, þjóðsögur og friðun. Það er því næsta eðlilegt að samgönguráðuneytið og Ferðamálastofa styðji Selasetrið í þessum verkefnum eins og staðfest var með undirritun samninga hér fyrr í sumar.
Selurinn hefur verið mikilvægur þáttur í búsetu okkar og Íslendingar hafa nytjað selastofna við landið um aldir. Landselur og útselur og þeir hafa veitt birtu og yl í ýmsum skilningi. Þessar nytjar af selnum hafa verið misjafnlega nauðsynlegar eftir árferði og það þótti líka kannski misjafnlega fínt eftir landshlutum eða jafnvel efnahag manna hvort nýting á sel væri aðeins bjargráð fátæka mannsins eða eðlileg nýting og sjálfsögð eins og með aðra dýrastofna okkar. Í seinni tíð hafa kannski tískan og náttúruverndin mest að segja um hvort eða hvernig við nýtum selina.
En við getum verið sammála um að Íslendingar eru ekki lengur háðir því að nýta seli sér til lífsviðurværis. Við getum hins vegar umgengist selina og tilgangur Selasetursins er líka að ýta undir þau einstöki tækifæri sem við höfum á Vatnsnesi til að skoða selina í náttúrulegu umhverfi sínu. Selalátur eru hér víðast hvar aðgengileg og er mikilvægt í þessu sambandi að við stýrum umferð um þessi svæði og takmörkum rask á viðkvæmum vistkerfum.
Selasetrið styrkir þá viðleitni okkar að forvitnast um selinn og lífshætti hans og eins og ég nefndi í upphafi eru selir forvitnilegar skepnur. Ferðamaðurinn, hvort sem hann er íslenskur eða erlendur, hefur áhuga á því sem forvitnilegt er og ekki síður því sem tengist sögu okkar og arfleifð. Þess vegna fagna ég þessu framtaki, sem er mikilvægt innlegg í því að auka þjónustu við ferðamenn á svæðinu. Sem ráðherra ferðamála óska ég aðstandendum Selaseturs til hamingju og vona að á grundvelli þeirra samninga, sem gerðir hafa verið við samgönguráðuneytið og Ferðamálastofu, megi Selasetrið vaxa og dafna í höndum heimamanna og að hingað komi margir til þess að kynna sér sögu selveiða og nýtingu selsins í aldanna rás. Megi þetta framtak verða til þess að efla atvinnulífið í Húnavatnsýslum með eflingu ferðaþjónustunnar, en ferðaþjónustan sem atvinnugrein er stöðugt mikilvægari fyrir okkur og er í dag ein af meginstoðum íslensks atvinnulífs. Megi þessi starfsemi vaxa og dafna.