Eftirfarandi grein Sturlu Böðvarssonar birtist í Morgunblaðinu í dag 30. desember

Blaðamaður Morgunblaðsins, Kristján G. Arngrímsson, skrifar ágæta Viðhorfsgrein í Morgunblaðið, þriðjudaginn 20. desember undir fyrirsögninni ,,Rætt um flugvöll“. Þar fjallar hann um hin ýmsu rök með og móti flugvellinum í Vatnsmýrinni. Í greininni vitnar blaðamaðurinn hins vegar til afstöðu samgönguráðuneytisins og segir: ,,Svo má segja að fjórða sjónarmiðið hafi komið fram hjá samgönguráðuneytinu, sem hefur sagt að það væri æskilegasti kosturinn að flugvöllurinn hyrfi úr Vatnsmýrinni, en að það sé einungis mögulegt ef finnist viðunandi valkostur. Ráðuneytið hefur því í raun tekið afstöðu.“ Þarna virðist blaðamaðurinn hafa misskilið eða hann vitnar til afstöðu ráðuneytisins af verulegri ónákvæmni þegar hann heldur því fram að samgönguráðuneytið telji það æskilegasta kostinn að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni.

Afstaða samgönguráðherra


Ég hef talið að flestum ætti að vera ljóst hver afstaða mín er til flugvallarins eftir alla þá orrustu sem staðið hefur um flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Sem samgönguráðherra hef ég marglýst þeirri afstöðu að besti kosturinn fyrir innanlandsflugið og alla þá þjónustu sem það tryggir sé að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Ég hef einnig sagt að verði innanlandsfluginu úthýst úr Vatnsmýrinni og finnist ekki viðunandi kostur innan borgarmarkanna geti vart verið forsendur fyrir því að byggja annan flugvöll í námunda við Keflavíkurflugvöll svo sem í Hvassahrauni. Því muni innanlandsflugið fara til Keflavíkurflugvallar finnist ekki viðunandi lausn innan borgarmarka.
 

Flugvöllurinn var endurbyggður


Staða þessa flókna máls er hins vegar þannig að Reykjavíkurflugvöllur var endurbyggður frá grunni með sérstöku leyfi borgaryfirvalda. Framkvæmdir við endurbyggingu vallarins hófust eftir að ég, sem samgönguráðherra, hafði gert samkomulag um málið við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra. Þegar vindar blésu gegn því að flugvöllurinn yrði til framtíðar í Vatnsmýrinni sneru borgaryfirvöld, með þáverandi borgarstjóra í broddi fylkingar, við blaðinu og hafa síðan unnið gegn flugstarfsemi á Reykjavíkurflugvelli. Eftir að ljóst varð að borgaryfirvöld ætluðu sér að takmarka starfsemi Reykjavíkurflugvallar taldi ég nauðsynlegt og í rauninni óhjákvæmilegt að ganga til samninga við borgarstjórann í Reykjavík vegna byggingar Samgöngumiðstöðvar við flugvöllinn annars vegar og hins vegar vegna framtíðarskipulags flugstarfsemi á Reykjavíkurflugvelli.
 

Samkomulag við núverandi borgarstjóra


Eftir viðræður milli mín og borgarstjórans, Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, varð samkomulag um tiltekið vinnulag sem birtist í sérstakri bókun dagsettri 11. febrúar 2005.
Í samræmi við það samkomulag okkar borgarstjóra skipaði ég nefnd undir formennsku Helga Hallgrímssonar, fyrrverandi vegamálastjóra. Auk Helga sitja þar Þorgeir Pálsson flugmálastjóri, Sigurður Snævarr borgarhagfræðingur og Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi. Þessari nefnd er ætlað að meta aðstæður og gera tillögur um framtíðarskipulag flugvallar sem sinni innanlandsfluginu. Í skipunarbréfinu er vitnað til bókunar milli mín og borgarstjórans dags. 11. febrúar 2005 sem er svohljóðandi:

,,Vinnuhópur um samgöngumiðstöð í Reykjavík sem verið hefur að störfum með þátttöku fulltrúa ríkis og Reykjavíkurborgar mun skila af sér niðurstöðu innan tíðar. Horft er til tveggja kosta varðandi staðsetningu samgöngumiðstöðvar, norðurkosts eða hótelskosts. Norðurkostur er á svæði norðan við Hótel Loftleiðir en í hótelskosti felst að nýta hluta af núverandi húsnæði Hótels Loftleiða.

Samgönguráðherra og borgarstjóri eru sammála um nauðsyn þess að ná samkomulagi þar sem hagsmunir beggja aðila geta farið saman. Forsendur samkomulags eru eftirfarandi:
1. Samgönguráðherra setji fram í tillögu að þingsályktun um samgönguáætlun 2005-2008 sérstaka tillögu um fjármögnun Hlíðarfótar sem er forgangsverkefni eigi samgöngumiðstöð að vera í Vatnsmýri.
2. Aðilar fari sameiginlega í skipulagsvinnu á svæði samgöngumiðstöðvar. Jafnframt er það sameiginlegur skilningur aðila að núverandi reit á deiliskipulagi, sem hefur verið merktur flugstöð, verði ráðstafað til annarra þarfa eftir nánara samkomulagi aðila.
3. Samgönguyfirvöld loki NA/SV flugbraut á Reykjavíkurflugvelli í síðasta lagi í árslok 2005 og við það muni skapast svæði til annarra nota skv. sérstöku samkomulagi aðila þar um. Þau munu þegar hefja viðræður við núverandi notendur brautarinnar og flugvallarstjórnina á Keflavíkurflugvelli um aðra kosti svo flugöryggi verði ekki stefnt í hættu, sbr. bókun samgönguráðherra og borgarstjóra frá 1999.
4. Hert verði á framkvæmd þeirrar stefnumörkunar um aðstöðu fyrir æfinga-, kennslu og einkaflug sem sett var fram í 3. tl. bókunar samgönguráðherra og borgarstjóra frá 1999 vegna Reykjavíkurflugvallar.
5. Samgönguráðherra og borgarstjóri eru sammála um að með byggingu samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýrinni sé ekki verið að taka afstöðu til framtíðar Reykjavíkurflugvallar.
6. Í því skyni að leggja grundvöll að sameiginlegri niðurstöðu um framtíð flugstarfsemi í Vatnsmýri láti samgönguráðherra, sem yfirmaður samgöngumála, og Reykjavíkurborg, sem ber að annast skipulagsáætlanir í Vatnsmýri, fara fram flugtæknilega, rekstrarlega og skipulagslega úttekt á Reykjavíkurflugvelli. Hvor aðili um sig tilnefni tvo fulltrúa til að leggja grunn að úttektinni, sem unnin verði af sjálfstæðum aðilum. Úttektin skal m.a. byggjast á samanburði ólíkra valkosta, þ.m.t. einnar-brautarlausn, tveggja-brautalausn og þeim kosti að öll flugstarfsemi hverfi af svæðinu. Tilgangur úttektarinnar er m.a. sá að ná fram mati á lágmarksstærð flugbrauta og athafnasvæðis sem þörf er talin á, eigi flugvöllurinn að þjóna núverandi hlutverki sínu sem miðstöð innanlandsflugsins. Að niðurstöðu fenginni fari fram formlegar viðræður aðila um framtíð flugstarfsemi í Vatnsmýrinni.“

Flugvallarkostir bornir saman og lausnir í sjónmáli


Starf nefndarinnar er komið vel á veg og liggja nú þegar fyrir hugmyndir að lausnum, sem verða bornar saman og metnar af sérfræðingum sem vinna það verk sem óháðir ráðgjafar. Um er að ræða möguleika á framtíðarstaðsetningu flugvallar fyrir innanlandsflugið samanborið við Vatnsmýrina, mat á flugöryggisþáttum og hagrænt mat við rekstur flugvalla á mismunandi stöðum miðað við hið mikilvæga hlutverk sem Reykjavíkurflugvöllur gegnir í þágu samgangna og sjúkraflugs. Fyrir liggur að Reykjavíkurflugvöllur hefur verið endurbyggður með ærnum kostnaði og þar hafa fjölmörg fyrirtæki byggt upp aðstöðu sína. Á hitt er að líta að finna verður lausn sem sátt getur náðst um. Ég mun leggja áherslu á það að hagsmunir innanlandsflugsins verði hafðir að leiðarljósi þegar ákvörðun verður tekin um framtíðaraðsetur þess. Í því samhengi er mikilvægast að tryggja öryggishagsmuni svo sem vegna sjúkraflugsins og vegna hlutverks varaflugvallar. Það er von mín að þegar úttekt nefndarinnar liggur fyrir geti samgönguyfirvöld og borgaryfirvöld náð saman um framtíðarlausn í þjóðar þágu.