Í Fréttablaðinu í gær birtist grein eftir Sturlu Böðvarsson um hina rauðgrænu ríkisstjórn í boði norskra ráðherra. Greinina má lesa hér.

Ríkisstjórnin virðist nú  leggja allt sitt traust á norska stjórnmálamenn og þeir gera sig mjög gildandi hér um þessar mundir. Það birtist m.a. í  því að ráðinn var fyrrverandi stjórnmálamaður frá Noregi í stöðu bankastjóra Seðlabanka Íslands. Upplýst hefur verið að það var gert að undirlagi fjármálaráðherra Noregs. Það gerðist  þrátt fyrir að það stangist á við stjórnarskrána að skipa erlendan ríkisborgara sem embættismann. Bæði forsætisráðherra og ekki síður fjármálaráðherra gerðu sig ber að því í viðtölum að vanvirða ákvæði stjórnarskrárinnar með því að halda því fram að breytingar á lögum um Seðlabankann ýti til hliðar skýrum ákvæðum í stjórnarskránni. Í verkum ráðherranna og framgöngu var tilgangurinn látinn helga meðölin.  Vonandi gengur seðlabankastjóranum nýja vel þann stutta tíma sem honum er ætlað að vera við störf hér á Íslandi og vonandi hefur hann áttað sig á því að hann vinnur í umboði íslenskra stjórnvalda en ekki þeirra norsku. En vinnubrögðin við ráðningu hans eru einsdæmi og ekki til þess fallin að auka traust á Seðlabankanum eða ríkisstjórninni. Nær hefði verið fyrir Jóhönnu að setja Jón Sigurðsson fyrrverandi ráðherra Alþýðuflokksins og fyrrum Seðlabankastjóra til verksins meðan beðið var auglýsingar og „faglegrar“ ráðningar í  starfið. Hann þekkir vel til verka og hefur alla þá reynslu sem til þarf og hefði sómt sér vel í þessu mikilvæga embætti. Í þessu máli birtist virðing Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir stjórnarskránni með sérkennilegum hætti eftir þrjátíu ár á þingi.
Jens Stoltenberg leggur þeim lið
Í síðustu viku var fundur forsætisráðherra Norðurlandanna haldinn hér  í Bláa lóninu.  Við það tilefni ræddi fréttamaður  Kastljóssins við Jens Stoltenberg forsætisráðherra Noregs. Ekki fór á milli mála að norski forsætisráðherrann hugsaði sér að hafa áhrif á innanlandsmál á Íslandi  með ótrúlega ósvífnum hætti og notaði tækifærið í Kastljósi sem nær til margra kjósenda á Íslandi. Í viðtalinu kom fram eftirfarandi kafli þar sem Kastljósið kallar fram undarlegt inngrip í íslensk stjórnmál. Hér fer á eftir endurrit úr Kastljósþættinum.
Fréttamaður Kastljóssins: Þú hittir Ingibjörg Sólrúnu hér á eftir og mér skilst að þú hafi mikinn áhuga á væntanlegum kosningum. Dreymir þig um að hér verði rauð og græn vinstri stjórn eftir kosningarnar?
Jens Stoltenberg: Við höfum góða reynslu af slíku stjórnarfyrirkomulagi í Noregi. Það verður áhugavert ef slíkt verður reynt hér á Íslandi. Ég hef þekkt Ingibjörgu í mörg ár og við Jóhanna, forsætisráðherra ykkar, hittumst og ég þekki marga aðra íslenska stjórnmálamenn og ég vona að þeim takist að koma á rauðgrænni stjórn hér. Við höfum góða reynslu af því fyrirkomulagi.
 
Til valda með aðstoð að utan.
Hver pantar slíkar spurningar? Hvað gengur forsætisráðherra Noregs til að hefja hér afskipti af stjórnmálum á Íslandi. Var það hluti af beiðni Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar til forsætisráðherra og fjármálaráðherra Noregs að þau tækju þátt  í kosningabaráttunni hér? Á hjálpin að berast að utan til þess að hægt verði að mynda hér rauðgræna ríkisstjórn? Verður stuðningur Framsóknarflokksins við ríkisstjórnina óþarfur? Á mínum langa ferli í stjórnmálum hef ég ekki áður orðið vitni að öðrum eins vinnubrögðum og þeim sem  Jóhanna og Steingrímur J. viðhafa á öllum sviðum. Og það er vert að minnast þess og rifja upp að þau komust til valda í skjóli  ofbeldisfullra aðgerða  gegn Alþingi. Aðgerða sem ráðherra VG hefur hreykt sér af að hafa staðið að baki og margir telja að hafi  verið skipulagðar í skjóli Vinstri grænna bæði innan þingsins og utan. Það geta ekki verið vinnubrögð sem við viljum innleiða á Íslandi.