Samgönguráðherra setti fyrr í morgun Flugþing 2001. sem haldið er á Hótel Loftleiðum í dag. Ræða ráðherra fer hér á eftir
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra

Flugþing haldið 31. október 2001

Setningarræða.

Góðir gestir ég vil bjóða ykkur öll velkomin til Flugþings.

Sérstaklega vil ég bjóða velkomna alla fyrirlesara Flugþingsins. Þeir hafa tekið að sér það mikilvæga verkefni að fjalla um flugöryggismálin jafnt á heimsvísu sem til þess að horfa á þau frá sjónarhóli einstakra flugfélaga. Flugöryggismál eru og hafa verið mjög í umræðunni hér á Íslandi síðastliðið ár. Málefni flugsins og þar með flugöryggismálin hafa síðan tekið nýja stefnu eftir 11.september. Ótrúlegar árásir hryðjuverkamanna ógna öllu öryggi og afkomu flugfélaga í veröldinni og hafa sett ferðaþjónustuna í uppnám. Íslensku flugfélögin hafa ekki farið varhluta af þessari nýju ógn og ríkisvaldið hefur orðið að taka á sig ábyrgðir vegna flugvélatrygginga til þess að tryggja flugsamgöngur við landið.

Í veröldinni allri gegnir flugið stöðugt mikilvægara hlutverki í opnum heimi gagnkvæmra og vaxandi viðskipta sem eru án landamæra.

Fyrir okkur íslendinga er flugið mjög svo mikilvægur þáttur í samgöngukerfi landsins. Ekki einungis vegna flugsamgangna til og frá landinu heldur einnig vegna innanlandsflugsins, sem vissulega er miklilvægur hlekkur í flutningakerfi landsins.

Í því samhengi eru flugöryggismálin þýðingarmikil og vaxandi áhersla lögð á þau af hálfu stjórnvalda og í starfi allra, sem að fluginu koma. En auðvitað má alltaf betur gera og hvergi má slaka á ýtrustu og eðlilegum öryggiskröfum og mikilvægt að vinna stöðugt að þróun löggjafar, reglugerða og öryggiskerfa og bættum vinnubrögðum hjá flugrekendum, flugliðum, flugmálastjórn, Rannsóknarnefnd flugslysa og ráðuneyti.

Það er í því ljósi, sem ég hef tekið ákvörðun um að efla alla þætti flugöryggismála. Það vil ég gera með sama hætti og ég hef lagt fyrir að verði varðandi rannsóknir sjóslysa og aukið hlutverk og verkefni Siglingastofnunar í tengslum við nýsamþykkta áætlun á sviði öryggismála sjófarenda.

Í ráðuneytinu hefur verið unnið hörðum höndum að breytingum á löggjöf sem varðar flesta þætti flugöryggismála. Ég vænti þess að Alþingi afgreiði þau frumvaörp á sviði flugöryggismála sem ég mun leggja fyrir á næstunni.

Það er í þágu flugöryggis að ég hef tekið ákvörðun um og fengið samþykkt í ríkisstjórn að efla enn frekar flugöryggissvið Flugmálstjórnar og hef tryggt fjármuni til þess.

Það er í þágu flugöryggis sem Jarops1 reglur hafa tekið gildi hér á landi einnig gagnvart minni flugvélum frá 1.október s.l..

Það er í þágu flugöryggis að ég hef lagt fram frumvarp til laga um loftferðir.

Það er í þágu flugöryggis sem flugvellir og flugstöðvar á Íslandi verða nú starfsleyfisskyldar samkvæmt frumvarpi til loftferðalaga þar sem öryggisþættir verða betur skilgreindir.

Það er í þágu flugöryggis sem eftirlitsvald og úrræði Flugmálastjórnar gagnvart flugrekendum verða treyst í loftferðarlögum .

Það er í þágu flugöryggis að ég legg ríka áherslu á traust samstarf Flugmálstjórnar við ICAO, sem er ein af stofnunum Sameinuðuþjóðanna, sem eftirlitsaðili á sviði flugöryggismála.

Það er í þágu fluggöryggis að unnið er að breytingum á lögum um RNF m.a.í samræmi við ábendingar frá ICAO.

Það er í þágu flugöryggis að leitað var til ICAO, til þess að fá metið vinnubrögð og verklag RNF og Flugmálstjórnar.

Það er í þágu flugöryggis að lögfesta sérstaka flugverndaráætlun fyrir Ísland á grundvelli frumvarps, sem ég hef fengið samþykkt í ríkisstjórn og verður væntanlega afgreitt á Alþingi í haust.

Það er í þágu flugöryggis að Reykjavíkurflugvöllur hefur verið endurbyggður og það er í þágu flugöryggis að samið hefur verið við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Slysavarnafélagið Landsbjörgu um björgunar og öryggismál á Reykjavíkurflugvelli.

Eins og oft vill verða þá geta alvarleg slys orðið tilefni óvæginnar gagnrýni á störf þeirra sem fara með öryggimál. Vissulega þurfa allir að horfa í eigin barm og skoða hvað betur má fara þegar slys verða, ekki síður flugrekendur og flugliðar en stjórnvöld. Lögin um rannsóknir flugslysa eru sett í þeim tilgangi að leita að skýringum og orsökum slysa og leggja á ráðin um hvað megi betur fara.

Það er von mín að umræður um flugöryggismál hér á Flugþingi og í kjölfar þess geti komið umræðunni upp á það svið sem flugöryggismálum hæfir. Í þeim tilgangi er Flugþingið helgað flugöryggismálum.

Eins og þeir vita sem fylgjast með flugöryggismálum á Íslandi hefur Skúli Jón Sigurðsson látið af störfum sem formaður og rannsóknarstjóri Rannsóknarnefndar flugslysa.
Vil ég þakka honum fyrir langt og farsælt starf á sviði flugöryggismála.

Þormóður Þormóðsson fyrrv. flugrekstararstjóri Íslandsflugs var skipaður til að taka við formennsku í nefndinni. Óska ég honum velfarnaðar í því starfi.

Ágætu Flugþingfulltrúar.

Ég vil þakka þeim sem hafa undirbúið Flugþingið og vænti málefnalegrar umræðu hér í dag.