Í stjórnmálum er mikilvægt að traust ríki á milli manna. Í þeim efnum gildir umfram allt, að orð skulu standa. Styrkur Sjálfstæðisflokksins og mikið fylgi meðal þjóðarinnar hefur ekki síst orðið vegna þess að þeir einstaklingar, sem til forystu hafa valist, hafa skapað sér það orð að þeim mætti treysta. Og orð þeirra hafa staðið sem stafur á bók.
Forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt sig fram um að skapa skilning milli dreifbýlis og þéttbýlis. Þeir hafa ekki alið á ósamlyndi milli landshluta eins og hinn nýi talsmaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur gert.

Framboð fyrrverandi borgarstjóra til alþingiskosninga kom öllum í opna skjöldu þegar það var tilkynnt. Það blasti við að loforð hennar gagnvart kjósendum í Reykjavík reyndust léttvæg. Mest mun það hafa komið framsóknarmönnum á óvart þegar fyrrverandi borgarstjóri bauð sig fram til þings, enda höfðu þeir treyst henni fyrir því hlutverki að leiða R-listann í borgarstjórnarkosningunum. Skýringar borgarstjórans fyrrverandi voru þær að hún hefði mikilvægu hlutverki að gegna á Alþingi í þágu íbúa höfuðborgarinnar. Á Alþingi skorti fleiri öfluga þingmenn til þess að tryggja hagsmuni borgarinnar. Og hún hefur fylgt þessari ákvörðun eftir m.a. með því að beina spjótum sínum að samgönguráðherra. Reynt hefur verið að koma því inn hjá kjósendum að samgönguráðherrann gangi einungis erinda landsbyggðarinnar.

Undir forystu fyrrverandi borgarstjóra setur Samfylkingin fram þá kröfu að landið verði eitt kjördæmi, að aflaheimildir fiskiskipa verði fyrndar og boðnar upp í áföngum og að næsti samgönguráðherra verði þingmaður af höfuðborgarsvæðinu. Spjótum verður þannig beint gegn hagsmunum landsbyggðarinnar á öllum vígstöðvum. Þessir mikilvægu hagsmunir, sem borgarstjórinn fyrrverandi hefur sett á oddinn í þágu höfuðborgarinnar, snúa allir gegn hagsmunum landsbyggðarinnar. Frambjóðendur Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi þurfa að skýra fyrir kjósendum hver afstaða þeirra er til þeirrar kröfu að höfuðborgin fái yfir að ráða samgönguráðuneytinu eins og fyrrverandi borgarstjóri hefur gert kröfu um. Og Samfylkingin þarf að skýra fyrningarleiðina svokölluðu, sem mun skapa mikla óvissu og einungis verða ný skattlagningarleið á sjávarútveginn. Þá er ekki síður fróðlegt að heyra skýringar þingmanna Samfylkingarinnar á því hvaða nauðir reki okkur til þess að landið verði eitt kjördæmi og þannig dregið úr vægi og áhrifum landsbyggðarinnar til hagsbóta fyrir höfuðborgarsvæðið. Gagnvart þessum kostum Samfylkingarinnar eiga kjósendur í Norðvesturkjördæmi einfalt val. Þeir eiga að hafna þessum kröfum Samfylkingarinnar um að hagsmunir höfuðborgarinnar verði teknir fram yfir hagsmuni landsbyggðarinnar á næsta kjörtímabili. Íslenska þjóðin þarf ekki á því að halda að efna til ófriðar í þeim eina tilgangi að koma talsmanni Samfylkingarinnar til valda í stjórnarráðinu svo hún megi ganga erinda þess hluta þjóðarinnar sem býr í höfuðborginni.