Hér fer á eftir framsöguræða Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra um fjögurra ára samgönguáætlun áranna 2007 til 2010 sem hann flutti á Alþingi síðdegis í gær, mánudag. Margir þingmenn tóku síðan til máls og var málið rætt fram á kvöld. Á Þingfundi í dag, þriðjudag, var áætluninni vísað til meðferðar í samgöngunefnd. Þar er einnig til meðferðar samgönguáætlun fyrir árin 2007 til 2018.
Hæstvirtur forseti!

Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um samgönguáætlun 2007-2010.  Hér fyrr í dag mælti ég fyrir samgönguáætlun 2007–2018 sem er stefnumótandi og rammmaáætlun en samgönguáætlun 2007-2010 er sundurliðuð fjögurra ára áætlun fyrir fyrsta tímabil hennar. Hér verður að gera skýran greinarmun. Fjögurra ára áætlunin er í eðli sínu eingöngu fjárhags- og framkvæmdaáætlun.

Aðdragandi


Segja má að margt sameiginlegt sé með undirbúningi fjögurra ára samgönguáætlunar og tólf ára  samgönguáætlunar. Uppbygging áætlunarinnar er í samræmi við lög um samgönguáætlun, nr. 71/2002. Hér er í þriðja sinn lögð fram fjögurra ára áætlun um rekstur og uppbyggingu samgangna sem tekur til allra samgöngugreina.

Miklar kröfur eru gerðar til uppbyggingar samgöngukerfisins af hálfu sveitarstjórna, hagsmunaaðila og almennings í landinu. Eins og áætlunin ber með sér eru verkefnin fram undan stór og þrátt fyrir að meira fé sé veitt í þennan málaflokk á áætlunartímabilinu en áður fyrr er ógerningur að verða við óskum allra. Þeir áfangar sem stefnt er að á tímabilinu munu samt sem áður stórbæta samgöngur um landið og í sumum tilfellum verður um kúvendingu að ræða en þar valda jarðgöng mestum straumhvörfum.

Í þessari ræðu vil ég kynna fyrir hv. alþingismönnum helstu áhersluþætti í samgönguáætluninni. Eins og venja er gerir áætlunin ráð fyrir verulegum framkvæmdum í hafnargerð, rekstri flugmála, vegagerð og síðast en ekki síst, umferðaröryggismálum.
 


Í samgönguáætlun þessari er áhersla fyrst og fremst lögð á uppbyggingu vegakerfisins með sama hætti og tiltekið er í tólf ára áætluninni.  Litið er svo á að byggingu nýrra flugvalla og nýrra hafna sé lokið að mestu nema sérstakar aðstæður kalli á annað sem nánar verður greint frá hér á eftir.  Framkvæmdir í höfnum og flugvöllum miðast því við að bæta aðstöðu og bregðast við auknum kröfum og þróun á sviði flugs og siglinga.

Í áætlun þessari er einnig unnið að því að bæta samgöngur fyrir ferðaþjónustuna með ýmsum aðgerðum og kem ég að því hér á eftir.


Fjármál
Heildarfjármagn til samgöngumála hefur stóraukist á undanförnum árum.  Í samgönguáætlun 2007 – 2010 heldur þessi þróun áfram.  Tillagan gerir ráð fyrir að tæplega 130 milljarði króna verði varið til  samgöngumála næstu fjögur árin og þar af renna tæplega 106 milljarðar króna eða rúmlega 81% til vegamála. Til samanburðar var áætlað að 86 milljarðar rynnu til samgangna 2005-2008 og þar af um 73% til vegamála. Hluti þessa fjármagns, eða 15 milljarðar á þetta tímabil, kemur frá söluandvirði Símans.

Í áætluninni er gert ráð fyrir því að nokkrar framkvæmdir og verkefni á sviði flugmála, siglingamála og vegamála verði fjármagnaðar með sérstakri fjáröflun á áætlunartímabilinu. Um er að ræða viðamikla útgjaldaliði sem ekki verður ráðist í innan heildarramma samgönguáætlunar 2007-2010. Um er að ræða byggingu samgöngumiðstöðvar við Reykjavíkurflugvöll, tekin er í notkun NA-SV braut á Keflavíkurflugvelli, lenging flugbrautar á Akureyri, ný Vestmannaeyjaferja sem siglir milli Vestmannaeyja og Bakkafjöru, upphaf breikkunar vega út frá Reykjavík til austurs og norðurs og Vaðlaheiðargöng. Þannig er gert ráð fyrir sérstakri fjáröflun til vegagerðar að upphæð 9,5 milljarðar, til flugmála að fjárhæð 3,8 milljarðar og til siglingamála 1,6 milljarðar

Sérstök fjáröflun, eins og það hugtak er sett fram í þessari áætlun, getur verið með ýmsum hætti. Þar getur verið um að ræða einkaframkvæmd byggða á fjáröflun með notendagjöldum eða samblandi af notendagjöldum, ríkisframlagi og framlagi einkaaðila. Einnig getur verið um að ræða hefðbundnar framkvæmdir byggðar á hefðbundnum útboðum, en í þeim tilvikum byggist sérstök fjáröflun þá alfarið á sérstöku ríkisframlagi eða lántöku, sem felur í sér að ríkið greiðir framkvæmdina á lengri tíma en nú er venjan.

Hér er ekki tekin bein afstaða til þess með hvaða hætti þessi verkefni verði boðin út, en þess í stað er vísað til álits nefndar sem ég skipaði um einkaframkvæmd í samgöngum. Með einkaframkvæmd er hér átt við, að einkaaðilum verði falið samkvæmt samningi hönnun, framkvæmd, rekstur og fjármögnun tiltekinna verkefna, sem almennt samkomulag er um að opinberir aðilar sinni í þágu almennings.

Flugmál næstu fjögur árin
Á undanförnum árum hefur verið unnið að mörgum brýnum verkefnum á sviði flugmála.  Helstu verkefni sem fyrirhuguð eru á næstu fjórum árum eru fyrrnefnd bygging samgöngumiðstöðvar í Reykjavík, lenging Akureyrarflugvallar, auk þess sem NA/SV braut Keflavíkurflugvallar verður tekin í notkun á ný á sama tíma og samsvarandi braut á Reykjavíkurflugvelli verður lokað.

Meðal annarra framkvæmda í áætluninni má nefna uppsetningu blindaðflugskerfis og lagfæringu akbrautar og flughlaðs á Akureyri; uppsetningu aðflugsljósa á Egilsstöðum; öryggissvæði bætt í Vestmannaeyjum; endurnýjun ljósabúnaðar og stefnusendis á Ísafirði og lokið við uppsetningu aðflugsbúnaðar á Þingeyrarflugvelli. Þá eru endurbætur á Bíldudalsflugvelli.  Á öðru og þriðja tímabili verður metin þörfin fyrir lengingu  Egilsstaðaflugvalllar

Siglingamál næstu fjögur árin
Í fjögurra ára áætlun er gert ráð fyrir að verja um 9,3 milljörðum króna til siglingamála eða mun hærri fjárhæð en  í síðustu áætlun og skýrist nær eingöngu af uppbyggingu í Bakkafjöruhafnar.  Eftir 2008 er gert ráð fyrir að ný hafnalög verði að fullu komin til framkvæmda og renna þá framlög til hafnarmannvirkja nær eingöngu til minnstu hafnanna og hafna sem búa við erfið hafnarskilyrði frá náttúrunnar hendi.

Styrkir til hafnargerðar eru fyrst og fremst til að endurbæta og byggja ný viðlegumannvirki til að mæta þörfum fiskiskipaflotans. Stærstu verkefnin af þessu tagi eru á Rifi, Grundarfirði, Patreksfirði, Tálknafirði, Bolungarvík, Ísafirði, Hólmavík, Akureyri, Húsavík, Hornafirði, Vestmannaeyjum og Grindavík.

Unnið verður að stofndýpkun meðal annars í höfnunum á Rifi, Ólafsvík, Siglufirði, Grímsey, Hornafirði, Þorlákshöfn og Grindavík auk reglubundinna viðhaldsdýpkana í höfnum á um 15 stöðum á landinu. Stefnt er að því að styrkja skjólgarða í Ólafsvík, Bolungarvík, Dalvík og Breiðdalsvík og byggja nýja skjólgarðar á Reykhólum, Sauðárkróki, Siglufirði og Þórshöfn og hafnsögubátar verða keyptir fyrir hafnir Fjarðabyggðar, Þorlákshafnar og Grindavíkur. Ný uppbygging á ferjuhöfnunum á Brjánslæk og Dalvík verður samstarfsverkefni Siglingastofnunar Íslands, Vegagerðarinnar og viðkomandi sveitarfélags.

Eftirfarandi eru helstu áfangar og áherslur í rekstri Siglingastofnunar næstu fjögur árin;
§               Umfang siglingaverndar vex í kjölfar stóraukinnar umferðar flutninga- og skemmtiferðaskipa, en markmiðið er að tryggja vernd skipa, áhafna, farþega, farms og hafnarsvæða fyrir hvers kyns hryðjuverkaógn.
§               Af sömu ástæðu mun umfang eftirlits með erlendum skipum sem taka höfn hér á landi, svonefnt hafnarríkiseftirlit, aukast.
§               Áhersla verður lögð á að koma upp tækjum og búnaði til að fylgjast sem best með ferðum skipa um íslensku efnahagslögsöguna með sérstakri áherslu á stór olíu- og gasflutningaskip sem leið eiga fram hjá landinu. Einnig eru til skoðunar hugmyndir um að afmarka siglingaleiðir við strendur landsins.
§               Skoðaðir verða kostir þess og gallar að heimila útgerðum minni skipa að framkvæma að ákveðnu marki skoðun skipa sinna.
§               Haldið verður uppi öflugu starfi við gerð ýmiss konar fræðsluefnis og leiðbeininga undir merkjum áætlunar um öryggi sjófarenda.
§               Unnið verður að ýmsum rannsóknum svo sem öldufarsreikningum og áframhaldandi þróun upplýsingakerfis um veður og sjólag.

Vegamál næstu fjögur árin
Mikið fjármagn þarf til reksturs og þjónustu á vegakerfinu og fer sú fjárþörf vaxandi.  Sama er að segja um viðhald vega.  Ekki verður fjölyrt frekar um þessa liði umfram það sem ég tiltók í ræðu minni um samgönguáætlun 2007-2018, en þó er rétt að minnast á tvö atriði.

Allar almenningssamgöngur utan þéttbýlis falla undir vegamál, og annast Vegagerðin umsjón þeirra.  Útgjöld til þessa liðar eru rúmlega 1 milljarður króna á ári. Þjónustusamningum um rekstur ferja og áætlunarleiða í flugi hefur verið komið á eftir útboð og unnið hefur verið að endurskipulagningu sérleyfisleiða og þjónustusamningar gerðir við sérleyfishafa um allt land.  Hefur sá hluti almenningssamgangna einnig verið boðinn út á markaði.

Í áætluninn er að finna sérstakan lið – öryggisaðgerðir – og er rétt að benda á að mjög mikið af nýbyggingarfé fer til verkefna, sem stuðla að auknu öryggi.  Dæmi um þetta er breikkun brúa en ég vek athygli á því að á undanförnum fimm árum hefur einbreiðum brúm fækkað um 79  eða um tæplega 16 brýr á ári að jafnaði.  

Umferðaröryggisáætlun er nú öðru sinni hluti af samgönguáætlun síðan málaflokkurinn fluttist til samgönguráðuneytis 1. janúar 2004. Á þeim tíma hefur verið lögð mikil áhersla á mótun heildarstefnu og framkvæmdaáætlun í umferðaröryggismálum og um leið að stilla saman krafta stofnana og annarra aðila sem fara með umferðaröryggismál. Gert er ráð fyrir að til umferðaröryggisáætlunarinnar verði varið alls 1.763 millj. kr. á tímabili áætlunarinnar.

Fjármagnið kemur að hluta af vegáætlun eða alls 1.283 millj. en frá umferðaröryggisgjaldi og sérstakri árlegri fjárveitingu til umferðaröryggismála kemur samtals 480 millj. kr. á tímabilinu. Þetta er rúmlega 220 milljón króna aukning frá fyrri áætlun.

Mótuð var umferðaröryggisáætlun þar sem sett voru fram markmið stjórnvalda um aukið umferðaröryggi en meginmarkmiðin eru sem fyrr að:
-Fjöldi látinna í umferð á hverja 100.000 íbúa verði ekki meiri en það sem lægst gerist hjá öðrum þjóðum árið 2016.

Valdar hafa verið aðgerðir og verkefni með hliðsjón af virkni þeirra til fækkunar slysa og lækkunar slysakostnaðar.Helstu aðgerðir til að ná markmiðunum eru eftirfarandi:
·        Stóraukið eftirlit með hraðakstri, bílbeltanotkun og ölvunarakstri.
·        Aukin áhersla á sjálfvirkt myndavélaeftirlit.
·        Breyttar áherslur í áróðri þar sem horft er til vitundarvakningar í ríkara mæli.
·        Heildarendurskoðun á umferðarfræðslu, ökunámi og ökukennslu.
·        Skylda ökunema til æfinga á aksturskennslusvæði.

Ég vil fara nokkrum orðum um skiptingu fjár á milli kjördæma af liðunum almennum verkefnum og tengivegum.  Við afgreiðslu fjögurra ára áætlunar 2005 – 2008 var liðnum almennum verkefnum skipt á milli kjördæma, annarra en Reykjavíkur, samkvæmt reiknireglu sem tók tillit til heildarlengdar vega, umferðar og lengdar vega með malarslitlagi. Verður þessi regla að teljast sanngjörn og verður henni haldið við gerð þessarar áætlunar.

Fjármagni til tengivega er nú skipt í samræmi við reiknilíkingu þar sem tekið er tillit til hlutfallslegrar lengdar veganna og umferðar.

Ferðamannaleiðir og vegir um þjóðgarða.
Varðandi ferðamannaleiðir og vegi um þjóðgarða þá er með þeim áherslum sem hér  eru leitast við að koma til móts við þarfir greinarinnar í heild. Ferðaþjónustan í landinu byggist í ríkum mæli á góðum samgöngum.  Við gerð þessarar áætlunar er veitt fé til Lyngdalsheiðarvegar, Suðurstrandarvegar, Uxahryggjavegar, Útnesvegar um Snæfellsnessþjóðgarðinn og Dettifossvegar með Jökulsá á Fjöllum. Allt verða þetta að teljast mikilvægir ferðamannavegir.

Samantekt
Hæstvirtur forseti.
Með þessari tillög til þingsályktunar sem ég hef hér mælt fyrir er horft fram á veginn. Margir stórir áfangar munu nást.  Í hnotskurn má segja þetta:

·        Þessi fjögurra ára áætlun byggir á heildstæðri stefnu og skýrum markmiðum tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun 2007-2018.
·        Áætlunin gefur skýra og heildstæða sýn á samgöngumál og setur flugmál, siglingamál og vegamál í samhengi m.a. með því að skilgreina grunnnet samgangna.
·        Byggt er á mikilli reynslu færustu sérfræðinga landsins í stofnunum samgönguráðuneytisins og á vinnu samgönguráðs. Þetta er hinn trausti grunnur sem ég byggi á við gerð áætlunarinnar.

Hér er hugsað stórt, og hér er hugsað til framtíðar. Gert er ráð fyrir meiri og dýrari framkvæmdum en nokkru sinni. Það er sannfæring mín að ég hafi vilja þjóðarinnar með mér í þessu máli. Þjóðin vill nú verja verulega meiri fjármunum en áður til samgöngumála. Það er sú staðreynd sem ég bið Alþingi að taka tillit til.   

Virðulegi/Hæstvirtur forseti.  Ég hef nú mælt fyrir þingsályktunartillögum um samgönguáætlun 2007-2010.  Ég legg til að tillögunum verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umræðu og