Stýrihópur, sem samgönguráðherra skipaði til að vinna að samgönguáætlun fyrir tímabilið 2003-2014, hefur skilað ráðherra tillögu sinni.Þar er í fyrsta sinn litið heildstætt á alla þrjá samgöngumáta landsmanna, þ.e. flug, siglingar og landsamgöngur, og fjallað um möguleika sem samspil þeirra býður upp til lengri tíma. Einnig er í fyrsta skipti skilgreint grunnnet samgangna sem tekur til vegakerfis, flugs og siglinga. Grunnnetið er mikilvægasti og umferðamesti hluti samgöngukerfisins og þjónar landsmönnum öllum.
Tillaga stýrihópsins er umfangsmikil skýrsla sem samgönguráðuneytið gefur út til að stuðla að öflugri þjóðfélagsumræðu um skipulag samgöngukerfisins jafnframt því sem frumvarp til laga um samgönguáætlun er lagt fyrir Alþingi.

Samgönguáætluninni er skipt í tvo meginhluta. Í þeim fyrri er fjallað ítarlega um stöðu mála og hugsanlega framtíðarþróun. Birt eru markmið varðandi öryggismál, umhverfismál, almenningssamgöngur, þjónustu stofnana o.fl.

Síðari hlutinn er framkvæmdaáætlun sem nær til allra þátta í rekstri, viðhaldi, fjárfestingum í samgöngukerfinu.
Meginmarkmið samgönguáætlunarinnar:

Hreyfanleiki í samgöngukerfinu.


 • Grunnnet samgangna nái til þéttbýliskjarna með yfir 100 íbúa (sjá kafla 9.2 bls. 81).

 • Miðað við að grunnkerfið sé þannig byggt upp að flestir landsmenn komist til/frá höfuðborgarsvæðinu á innan við 3,5 klst. (sjá kafla 5.5.6 bls. 38 og kafla 5.6 bls. 40).

 • Byggðarlög með yfir 200 íbúa eigi kost á tengingu við almenningssamgöngur (sjá kafla 5.6.6 bls. 38).

 • Framkvæmdamarkmið á höfuðborgarsvæðinu miðast við að byggja/endurbæta vegi og brýr í þeim mæli að umferðaástand versni ekki frá því sem er í dag. (sjá kafla 9.9 bls. 92).

 • Þjónusta í vegakerfinu miðist við greiða og örugga umferð í samræmi við settan gæðastaðal. (sjá kafla 9.11.4 bls. 99).

Hagkvæmni í rekstri og uppbyggingu samgangna.


 • Skilgreint er grunnnet samgangna á Íslandi til að unnt sé að byggja samgöngukerfið upp á sem hagkvæmastan og skilvirkastan hátt. Uppbygging grunnnetsins er forgangsmál í samgönguáætluninni (sjá kafla 9.2 bls. 81).

 • Almenningssamgöngur, flug, ferjur og sérleyfi mynda samræmda heild.

Umhverfislega sjálfbærar samgöngur.

 • Markmið um að takmarka nýtingu óendurnýjanlegra auðlinda og sporna gegn því að samgöngur ógni heilsu fólks eða vistkerfum. Beita mótvægisaðgerðum gagnvart neikvæðum umhverfisáhrifum samgangna (sjá kafla 7 bls. 57).

 • Stefnt skal að því að losun CO2 frá samgöngum verði ekki meiri árið 2010 en hún var árið 1990 eða um 620.000 tonn (sjá kafla 7.3.2 bls. 58-59).

 • Loftmengun frá samgöngum verði takmörkuð og miðist við staðla ESB (sjá kafla 7.3.4 bls. 60-61).

Öryggi í samgöngum.

 • Markmið um að öryggismál samgangna verði eins og best gerst í grannríkjum, einkum annars staðar á Norðurlöndum (sjá kafla 8 bls. 65).

 • Komið verði á gæðatryggingakerfi í rekstri flugvalla og flugumferðarþjónustu (sjá kafla 8.3.3 bls. 67)

 • Sett verði upp öryggismiðstöð skipa (sjá kafla 8.4.3 bls. 71)

 • Stefnt verði að fækkun umferðarslysa í samræmi við drög að umferðaröryggisáætlun stjórnvalda 2001-2012 (sjá kafla 8.5.3 bls. 74).


Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, er formaður stýrihópsins sem vinnur að samgönguáætlun 2003-2014. Með honum starfa Helgi Hallgrímsson, vegamálastjóri, Hermann Guðjónsson, forstjóri Siglingastofnunar Íslands, Magnús Oddsson, ferðamálastjóri og Þorgeir Pálsson, flugmálastjóri. Með stýrihópnum starfaði Jóhann Guðmundsson skrifstofustjóri, og var Sigurbergur Björnsson, verkefnisstjóri hans.

Skýrsluna sjálfa er að finna á hnappi á forsíðu samgönguráðuneytisins undir slóðinni http://samgonguraduneyti.is/interpro/samgongur/samgongur.nsf/pages/index.html