Fagna ber umfjöllun um samgönguáætlun fyrir tímabilið 2007 til 2018 sem nú er til meðferðar á Alþingi. Samgöngu-málin koma okkur öllum við og því er nauðsynlegt að sem flestir láti í ljós álit sitt ef vera mætti til þess að áætlunin þjóni enn betur tilgangi sínum. Rétt er að minna á að mikil vinna hefur verið lögð í þá tillögu til þingsályktunar sem þessi samgöngu-áætlun er. Hún hefur farið fram á vegum samgönguráðs sem í sitja flugmálastjóri, siglingamálastjóri og vegamála-stjóri auk fulltrúa samgönguráðuneytisins. Þarfir eru skilgreindar, sett eru fram markmið og leiðir sem fara á til að ná þeim markmiðum og um leið er fjárhagshliðinni stillt upp, þ.e. hversu mikið fé þarf til verkefna og hvaðan það kemur.
Mörg og brýn verkefni
Nokkur umræða hefur orðið um skiptingu framkvæmdafjár milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Þeir sem búa úti á landi telja of naumt skammtað þangað og íbúar höfuðborgarsvæðisins vilja fá verkin unnin hraðar þar. Þetta er skiljanleg togstreita að vissu marki og ekki óeðlileg. Annars vegar er höfuðborgarsvæðið með sína þungu og vaxandi umferð sem krefst stöðugrar fjárfestingar og hins vegar landsbyggðin þar sem mörg og brýn verkefni eru óunnin.
Sé litið á skiptingu framkvæmdafjár samgönguáætlunar áranna 2007 til 2010 renna rúm 37% þess til verkefna á höfuðborgarsvæðinu (kjördæmin þrjú) en 63% til verkefna út um land. Í tólf ára áætluninni er hlutfall fjárveitinga á höfuðborgarsvæðinu orðið rúm 40% en tæp 60% úti á landi. Afkastageta samgöngukerfisins er einkum takmörkuð á höfuðborgarsvæðinu og næsta nágrenni þess og ástandið hefur heldur farið versnandi. Því er brýnt að herða enn róðurinn við framkvæmdir þar. Ætla má þó að umferðarástand á höfuðborgarsvæðinu standist samanburð við sambærileg borgarsvæði í nágrannalöndum.
Markmið framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu eru að mestu skilgreind í samræmi við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins. Umferð og þörf fyrir fjárfestingu ræðst af íbúaþróun og skipulagi byggðar og voru gögn úr svæðisskipulaginu höfð til hliðsjónar við mat á framkvæmdaþörf svæðsins. Ljóst er þó að fjárhagsrammi samgönguáætlunar leyfir ekki að öllum þessum framkvæmdum verði lokið á áætlunartímabilinu. En markmið fyrir árin 2007 til 2018 er að byggja og endurbæta vegi og brýr á höfuðborgarsvæðinu í þeim mæli að umferðarástand versni ekki frá því sem er í dag.
Kemur öllum til góða
Aðalatriðið er þó í mínum huga að horfa á samgönguáætlunina í heild. Allt sem verða má til framfara í samgöngumálum kemur langflestum landsmönnum til góða. Umbætur á vega- og gatnakerfi höfuðborgarsvæðsins greiðir íbúum þess leið og jafnframt gestum af landsbyggðinni og erlendum ferðamönnum. Á sama hátt hljóta íbúar höfuðborgarsvæðisins og aðrir ferðamenn að fagna hverri samgöngubót í hvaða landshluta sem vera skal. Þetta á við umbætur á sviði flugmála, siglingamála og vegamála því flest notum við samgöngumannvirki á öllum þessum sviðum.
Fjárfestingum í vegakerfinu er að stærstum hluta ætlað að uppfylla lágmarkskröfur sem gera verður til grunnnetsins á landsbyggðinni og hins vegar að auka afkastagetu vegakerfisins á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnið er að skipta framkvæmdafénu milli þessara tveggja þátta en nokkuð ljóst er að við munum seint ná því að uppfylla óskir allra á þessu sviði. En með vaxandi hlutfalli vegafjár í næstu samgönguáætlun getum við horft með bjartsýni fram á veginn.
———————–
Höfundur er samgönguráðherra.