Eitt helsta verkefni mitt sem samgönguráðherra á kjörtímabilinu hefur verið að undirbúa og fá samþykkta á Alþingi eina samræmda samgönguáætlun fyrir landið í heild. Um er að ræða samræmda áætlun allra samgangna.
Áætlunin er í senn fjárfestingaáætlun og samgöngustefna stjórnvalda. Fjallað er um mál er tengjast fjárfestingum í samgöngumannvirkjum skv. fjárlögum, þ.m.t. vegir, hafnir og flugvellir, umhverfis- og öryggismál og málefni vöru- og fólksflutninga. Lögð er rík áhersla á útboð í allri þessari vinnu, sbr. aukinn fjölda útboða er tengjast ferjurekstri og flugleiðum innanlands.

Samgönguráð gerði tillögu til samgönguráðherra um framkvæmdir á sviði vega- hafna- og flugmála til næstu 12 ára, þ.e. fyrir árin 2003-2014. Á grundvelli þeirra tillagna var lögð fram og samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga sem felur í sér rammaáætlun um framkvæmdir næstu tólf árin. Jafnframt var samþykkt nákvæmari framkvæmdaáætlun til næstu fjögurra ára, 2003-2006. Ekki er nokkur vafi að samgönguáætlun markar mikilvæg tímamót í heildstæðri áætlunargerð í samgöngumálum Íslendinga.

Í upphafi kjörtímabilsins var samþykkt flugmálaáætlun 2000–2003, hafnaáætlun 2001–2004, sjóvarnaáætlun 2001–2004, vegaáætlun 2000–2004 og jarðgangaáætlun 2000–2004. Á þessu kjörtímabili hafa stórauknar framkvæmdir verið í öllum þáttum samgöngumála.

Í nýsamþykktri samgönguáætlun fyrir árin 2003-2014 er gert ráð áframhaldandi þróun í þá átt því enn eykst fjármagnið til þessa málaflokks. Í áætluninni er gert ráð fyrir að tæplega 240 milljörðum króna verði varið til samgöngumála næstu tólf árin.

Fáar þjóðir ef nokkrar verja jafn stórum hluta ríkisútgjalda til vegamála og Íslendingar. Þessi staðreynd endurspeglar mikla þörf fyrir bættar vegasamgöngur byggða á milli, auk þess sem sú staðreynd að meirihluti fjárins fer í uppbyggingu nýrra mannvirkja undirstrikar hve margt er enn ógert í vegakerfinu.

Tölurnar um framlög til vegamála segja í raun allt sem segja þarf. Ef framlög til vegamála á föstu verðlagi eru skoðuð má sjá að á þessu kjörtímabili hafa verið meiri fjármunir til vegamála en nokkurri sinni fyrr. Samkvæmt samgönguáætlun er gert ráð fyrir enn frekari aukningu framlaga. Sama gildir um framlög til höfuðborgarsvæðisins, en aldrei hefur hærri upphæð verið varið til stofn- og tengivega á höfuðborgarsvæðinu en í ár. Þessu til viðbótar skal minna á ákvörðun ríkisstjórnarinnar að auka vegaframkvæmdir næsta eina og hálfa árið og flýta vinnu við þegar ákveðin verkefni til að stuðla að eflingu atvinnutækifæra fram til þess tíma er áhrifa af stóriðjuframkvæmdum fer að gæta til fulls. Ákveðið var að leggja til viðbótar fyrri áætlunum 4,6 milljarða til vegamála. Með þessu auknu framlögum til vegamála munu verða stórstígar framfarir á vegakerfi landsins.

Heildarframlög til vegamála 1988-2006. Viðbótarframlag ríkisstjórnarinnar næstu 18 mánuðina kemur fram sem gulur litur á súlum áranna 2003 og 2004.