Í tilefni opnunar samgönguminjasafns við Byggðasafnið á Skógum þann 20. júlí flutti samgönguráðherra eftirfarandi ávarp:
Ágætu gestir og heimamenn á Skógum.

Mér er það bæði heiður og ánægja að fá tækifæri til þess að opna formlega Samgönguminjasafn við Byggðasafnið á Skógum.

Ekki er ofsögum sagt að Byggðasafnið í Skógum er einstakt í röð byggðasafna og hefur orðið magnað aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Þeir verða ekki fyrir vonbrigðum með heimsókn í safnið, sem geymir margt merkra muna, og með þeirri lifandi leiðsögn sem hér er veitt. Og enn bætist fjöður í skrauthatt safnsins þegar Samgönguminjasafn er opnað.

Varðveisla hvers konar menningarminja er okkur Íslendingum mikilvæg. Það er ekki ýkja langt síðan söfnin í landinu komust á legg.

Árið 1862 fyrir 140 árum skrifaði Sigurður Guðmundsson málari í Þjóðólf um nauðsyn þess að varðveita menningararfinn “til þess að vér skiljum þjóðerni vort og sögu landsins, bæði að fornu og nýju”. Hann óttaðist og hafði orð á því að útlendingar kæmu til landsins í hrönnum og létu greipar sópa um allar þær fornmenjar sem þeir fengu hönd á fest. Frá þeim tíma hefur mikið vatn runnið til sjávar og miklar framfarir orðið í þessu, sem öðru, hjá þjóð okkar.

Ég rifjaði það upp, sem þáverandi formaður þjóðminjaráðs, á menningararfsdegi árið 1996, að fyrir áeggjan Sigurðar málara hefði séra Helgi Sigurðsson, fátækur sveitaprestur frá Jörfa í Kolbeinsstaðarhreppi í Hnappadalssýslu, lagt til munina sem urðu fyrsti vísir að þjóðminjasafni en hann hafði safnað þeim og varðveitt .

Frá þeirri tíð hafa margir komið að því að hvetja til söfnunar og varðveislu. Öllum þeim eigum við mikið að þakka fyrir elju og virðingu fyrir menningarverðmætum þjóðarinnar.

Og í dag er merkum og mikilvægum áfanga náð og við sjáum bæði afrakstur safnara og sýningahönnun góðra fagmanna á sviði safna og sýninga sem hafa lagt sig fram um að gera Samgönguminjasafnið aðgengilegt og áhugavert.

Samgöngur gegna mikilvægu hlutverki í atvinnusögu okkar Íslendinga líkt og annarra þjóða. Því er eðlilega af mörgu að taka þegar kemur að varðveislu muna úr þeirri vegferð sem kynslóðir hafa gengið til góðs og nýtt samgöngur og samgöngutæki til þess að auka hagsæld í landinu.

Flutningar og samgöngur spanna víðfemt svið. Í samgönguminjasafni hljótum við að geyma allt frá hestvögnum, snjóbílum og jarðýtum til hraðskreiðra fólks- og flutningabíla. Við getum sagt sem svo að í framtíðinni verði hér allt frá lúðrum landpóstanna til tölvupósts og tæknibúnaðar nútímans, sem flæðir um ljósleiðara milli landshluta á örskotsstundu.

Mér hefur þótt nokkurs um vert að geta stuðlað að því að fyrirtæki og stofnanir samgönguráðuneytisins gengju til samstarfs við Samgönguminjasafnið eins og hér má glögglega sjá. Jafnframt hefur samgönguráðuneytið veitt safninu fjárstyrk.

Ég lít á það sem skyldu mína sem samgönguráðherra að stuðla að varðveislu sögu- og samgönguminja, sem tengjast stofnunum ráðuneytisins. Þess vegna er gert ráð fyrir því að í Samgönguáætlun verði ætlaðir fjármunir til að kosta söfnun minja og ritun sögu sem tengist samgöngum á vettvangi ferðamála, fjarskipta, póstmála, flugmála, siglingamála og vegamála.

Það er von mín að hér í Skógum hafi samgöngusaga Íslendinga fengið það hússkjól og þá möguleika til kynningar sem hæfir. Safnið er hér vel sett við þjóðbraut þvera. Við rætur fagurra fjalla með brúuð vötnin, hafið og ströndina til að minna okkur á hvers virði góðar samgöngur eru fyrir okkur íslendinga.

Ég segi Samgönguminjasafnið í Skógum opnað.