Samgönguætlun fyrir næstu tólf árin var samþykkt á Alþingi fyrir þingfrestun. Í þeirri áætlun er gert ráð fyrir framkvæmdum við mörg mikilvæg verkefni í Norðvesturkjördæmi á sviði flugmála, vegagerðar, hafnargerðar og öryggisþátta í siglingum og flugi.
Hin nýja samgönguáætlun markar tímamót. Hún boðar nýja tíma fyrir landsbyggðina. Tíma mikilla framkvæmda. Í henni er viðurkennt hversu mikilvægt það er að leggja meiri fjármuni til samgöngumannvirkja og hraða framkvæmdum við uppbyggingu þeirra.

Flugmál
Innanlandsflugið er mikilvægur hlekkur í samgöngukerfi Vestfjarða. Vel uppbyggðir flugvellir með öflugum öryggisbúnaði eru lyklar að stöðugum flugsamgöngum. Reykjavíkurflugvöllur hefur verið endurbyggður þrátt fyrir tilraunir R-listans til að koma í veg fyrir að flugvellinum væri ætluð framtíð í Vatnsmýrinni. Þar gekk fremst í flokki í andstöðu við flugvöllinn fyrrverandi borgarstjóri, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Hún snéri við blaðinu og gekk gegn eigin samþykkt og undirrituðu samkomulagi um endurbyggingu flugvallarins. Þau vinnubrögð verða í minnum höfð, en voru aðdragandi þess sem síðar varð, er borgarstjórinn snéri við blaðinu í samstarfi innan R-listans eins og í flugvallarmálinu. Andróðurinn gegn flugvellinum í Vatnsmýrinni í Reykjavík hófst hins vegar ekki fyrr en eftir að framkvæmdir hófust við endurbyggingu flugbrauta og öryggisbúnaðar. Skýr og klár stefna mín um endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar hefur trúlega tryggt að innanlandsfluginu er borgið svo fremi að borgaryfirvöld leggi ekki frekari steina í þá götu með því að vísa flugstarfseminni út úr borginni. Öllum, sem nærri flugrekstri koma, ber saman um að forsendur innanlandsflugsins eru að miðstöð þess verði á Reykjavíkurflugvelli. Það skiptir miklu máli að hvergi verði hvikað frá því að Reykjarvíkurflugvöllur verði miðstöð innanlandsflugsins og öflug verstöð ferðaþjónustunnar í þágu landsbyggðarinnar.

Þingeyrarflugvöllur og Ísafjarðarflugvöllur reknir saman

En það er ekki nægjanlegt að bæta aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli. Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir að halda áfram endurbótum á Ísafjarðarflugvelli. Reistur verður flugturn, öryggissvæði bætt og stefnt að frekari endurbótum. Vandi flugrekanda, sem fljúga til Ísafjarðar, er að ekki er þverbraut og næturflug er ekki mögulegt við þær aðstæður sem til staðar eru. Þess vegna hefur verið ákveðið að byggja upp fullkomna aðstöðu á Þingeyrarflugvelli, sem verður í framtíðinni rekin til jafns við Ísafjarðarflugvöll. Í samgönguáætluninni er gert ráð fyrir að hefja á þessu ári rannsóknir vegna lengingar og endurbyggingar flugbrautar. Mjög miklu máli skiptir að undirbúningur við nýja flugbraut á Þingeyri verði vandaður. Gert er ráð fyrir fjárveitingum í samgönguáætluninni. Í ár er fjárveiting vegna rannsókna og hönnunar. Ættu framkvæmdir að geti hafist með útboði á næsta ári. Eftir að ný flugbraut hefur verið lögð á Þingeyri munu aðstæður vegna flugrekstrar til og frá norðanverðum Vestfjörðum stórbatna. Með nýrri flugbraut, sem væri byggð upp með fullkominni lýsingu, ættu flugvellirnir á Ísafirði og Þingeyri að geta aukið öryggið í fluginu með því að vera reknir saman. Ný flugbraut á Þingeyri með viðeigandi flugöryggisbúnaði mun bæta búsetuskilyrði á Vestfjörðum og efla ferðaþjónustu á svæðinu.


Jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar

Í samræmi við samgönguáætlun eru að hefjast miklar framkvæmdir í vegagerð, ekki síst jarðgangagerð. Jafnframt eru að hefjast stóframkvæmdir í Djúpinu og við Vestfjarðaveg um Barðaströnd svo nokkuð sé nefnt. Framkvæmdir við jarðgöng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar eru nú að hefjast. Tilboð verða opnuð í Siglufjarðar-Ólafsfjarðargöngin 30.maí n.k. Samkvæmt Jarðgangaáætlun, sem ég lagði fyrir þingið og varð síðan hluti samgönguáætlunar, var gert ráð fyrir að næstu jarðgöng yrðu göngin milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Næstu stórframkvæmdir við jarðgangagerð verða því Arnarfjarðar-Dýrafjarðargöngin ef ég fæ ráðið. Með þeirri framkvæmd mun einangrun verða rofin og mikilvæg tenging milli norður- og suðurfjarða stórauka alla möguleika til eflingar allra þátta samfélagsins í byggðum Vestfjarða. Það gildir ekki síst um ferðaþjónustuna, sem ég tel að geti orðið stóriðja Vestfjarða, ásamt sjávarútvegi. En til þess að svo megi verða verðum við að hraða framkvæmdum við vegagerð og bæta vetrarþjónustu svo flutningar verði sem hagkvæmastir og öruggastir jafnt fyrir fólksflutninga sem vöruflutninga. Öll þróun í samfélagi okkar og efling byggðanna gerir vaxandi kröfur um bættar samgöngur og minni kostnað við flutninga. Með því að framfylgja áformum samgönguáætlunar ætti okkur að takast að ná miklum árangri á næstu árum.