Samgöngur er lykill uppbyggingar og framfara var yfirskrift erindis Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra á 51. þingi Fjórðungssambands Vestfirðinga um síðustu helgi. Þar fór ráðherra yfir helstu áfanga í samgöngumálum fjórðungsins á kjörtímabilinu.
Samgönguráðherra sagði mikið hafa gerst í uppbyggingu og endurbótum á samgöngukerfi landsmanna síðustu árin. Á Vestfjörðum væru það meðal annars nýr vegur um Bröttubrekku, uppbygging á Djúpvegi og framkvæmdir í Svínadal sem nú eru á lokastigi og raunar á undan áætlun. Þá stæðu yfir rannsóknir og undirbúningur vegna Óshlíðarganga og ganga milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Ráðherra gat þess að víða væru miklar væntingar til jarðgangagerðar Sagði ráðherra að næstu skref í undirbúningi jarðganga væru rannsóknir vegna nýrra ganga milli Eskifjarðar og Norðfjarðar.
Næstu skref í vegamálum á Vestfjörðum sagði ráðherra vera að ljúka Djúpvegi árið 2008, hefja vegagerð um Arnkötludal, endurbyggja veginn milli Reykhólasveitar og Flókalundar og jarðgöngin undir Óshlíð og milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Hann lagði áherslu á að allar vegabætur miðuðu annars vegar að því að auka umferðaröryggi og hins vegar að stytta leiðir og gera þær greiðfærar allt árið. Mikilvægt væri að tengja saman norður og suðurfirði Vestfjarða til að mynda eina atvinnu- og þjónustuheild.
Síðustu skref í flugmálum er endurnýjun á Þingeyrarflugvelli sem ráðherra sagði tryggja öruggari flugsamgöngur um norðanverða Vestfirði og í undirbúningi væru aðgerðir til að auka möguleika á næturflugi. Ráðherra minntist einnig á þýðingu innanlandsflugsins og hversu mikilvægur núverandi Reykjavíkurflugvöllur væri í því sambandi. Einnig minnti hann á að með samgönguáætlun sem nú væri í gildi og til endurskoðunar á næsta Alþingi væru tryggðar úrbætur í höfnum landsins.
Samgönguráðherra gerði einnig póstmál að umtalsefni og minnti á uppbyggingu með nýju pósthúsi á Ísafirði. Endurbygging pósthús á Patreksfirði væri í samræmi við þriggja ára áætlun Íslandspósts um uppbyggingu og endurnýjun pósthúsa og afgreiðslustaða um land allt. Einnig gat ráðherra þess hversu vel hefði tekist að snúa við rekstri póstsins sem hefði fyrir fáum árum verið rekinn með 100 milljóna króna halla en dæminu síðan algjörlega verið snúið við. Þakkaði hann einnig góða samvinnu við sveitarstjórn Súðavíkurhrepps varðandi úrlausn póstdreifingar um Ísafjarðardjúp.
Í fjarskiptamálum sagði samgönguráðherra að sala Símans væri forsenda uppbyggingar með tilkomu fjarskiptasjóðs sem fjármagnaði ýmis verkefni fjarskiptaáætlunar. Sagði hann að framundan væru útboð á sviði þéttingar gsm farsímanetsins á hringveginum og nokkrum fjallvegum landsins, m.a. Steingrímsfjarðarheiði.
Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem vaxið hefur hraðast síðustu árin og kvaðst ráðherra fagna þeirri áherslu sem Vestfirðingar hafi lagt á umhverfismál og væri það í góðu samræmi við aukna áherslu á ferðamálin. Hann sagði ýmsa vaxtarmöguleika tengda komu skemmtiskipa og nefndi að á kjörtímabilinu hefði verið veitt um 30 milljónum króna til úrbóta á fjölsóttum ferðamannastöðum á Vestfjörðum.
Ráðherra ræddi þau alvarlegu slys sem orðið hafa í umferðinni að undanförnu og nauðsynlegar aðgerðir til þess að sporna gegn ofsaakstri og lögbrotum í umferðinni sem oft leiða til alvarlegra slysa.
Í lokin fór ráðherra yfir stöðuna í efnahagsmálum og hversu mikilvægt væri að halda verðbólgunni í skefjum og því hefði verið nauðsynlegt að grípa til aðhaldsaðgerða og fresta um sinn nýjum framkvæmdum í vegamálum. Hann sagði að vegna þenslunnar hefði í sumum tilvikum verið erfitt að fá mannafla til starfa hjá verktökum en nú væri að létta til. Kvaðst hann vonast til að bjartara yrði framundan í þessum efnum með haustinu. Ráðherra þakkaði fyrir mjög gott samstarf samgönguráðuneytisins við forsvarmenn Fjórðungssambands Vestfirðinga.
Daginn fyrir fjórðungsþingið átti ráðherra fund með forsvarsmönnum sveitarfélaganna á Vestfjörðum um vegagerð á Vestfjörðum og frestun framkvæmda. Þann fund sátu einnig þingmenn Norðvesturkjördæmis.