Samgöngur til Vestmannaeyja skipta miklu fyrir atvinnulíf og íbúa í Eyjum. Miklar umræður og aðgerðir hafa verið í gangi vegna samgangna við Eyjar. Nefnd er starfandi á vegum samgönguráðuneytisins og hefur það hlutverk að gera tillögur um úrbætur í samgöngum við Vestmannaeyjar.


Í þeim hópi er bæði sérstakir fulltrúar Eyjamanna og fulltrúar ráðuneytisins, sem allir þekkja þær aðstæður sem taka þarf tillit til þegar framtíðarmyndin í samgöngumálum Vestmanneyja er mótuð.

Fyrir stuttu setti Árni Johnsen fram þá kröfu í grein, sem hann skrifaði í Morgunblaðið, að samgönguráðherra sjái til þess að Flugfélag Íslands taki upp áætlunarflug milli Reykjavíkur og Eyja og félagið fái árlega styrk að tiltekinni upphæð úr ríkissjóði. Þessi krafa Árna Johnsen er mjög sérstök svo ekki sé meira sagt. Með því að fallast á hana væru margar reglur brotnar sem gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði. Af þessu tilefni verður ekki undan því vikist að gera nokkrar athugasemdir við umrædd skrif vegna ábendinga sem hafa borist og benda til þess að óraunhæfar væntingar hafi verið vaktar.

Í fyrsta lagi er það ekki á valdi samgönguráðherra að skikka Flugfélag Íslands til þess að taka upp nýjar flugleiðir.

Í öðru lagi er engin heimild til þess að greiða tilteknum völdum flugfélögum styrki eða fela þeim, án útboðs, tilteknar flugleiðir. Ekki er heimilt að greiða niður farmiða nema að undangengnu útboði þar sem öll félög hefðu sömu möguleika að uppfylltum skilyrðum. Ólíklegt er að Eftirlitsstofnun EFTA myndi samþykkja slíka ráðstöfun í tilviki Vestmanneyja.

Eins og fyrr er getið um þá skipaði ég starfshóp sem vinnur að tillögugerð vegna samgöngumála Vestmanneyja og eru bundnar vonir við að frá nefndinni komi góðar tillögur, sem verði til þess að leggja upp framtíðarlausnir í samgöngumálum. Starfshópinn skipa Kristján Vigfússon, Siglingastofnun, sem er formaður, Gunnar Gunnarsson, aðstoðarvegamálastjóri, Ingi Sigurðsson, fyrrv. bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, Páll Zóphaníasson, tæknifræðingur og fyrrverandi bæjarstjóri í Vestmanneyjum, Svanhvít Axelsdóttir, lögfræðingur á vegum samgönguráðuneytisins og Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.

Í skipunarbréfi starfshópsins segir m.a.:

,,Skipta má möguleikum varðandi framtíð samgangna til Vestmannaeyja í fimm meginkosti. Þeir eru:


 1.  

*Núverandi staða þar sem að meginstoðirnar yrðu áfram Herjólfur, flug til Reykjavíkur og á Bakka í svipaðri mynd og verið hefur.


 1. *Endurnýjun Herjólfs: Sama og töluliður. 1 nema að í stað þess að notast svo lengi sem gerlegt er við núverandi Herjólf yrði, að lokinni þarfagreiningu, skipið endurnýjað með öðru skipi sem talið væri að hentaði betur.


 2.  

 3. *Ný ferjuhöfn á Bakkafjöru: Ef fram kemur að mögulegt sé að byggja höfn á Bakkafjöru þá komi til skoðunar hvort vænlegt sé að leggja Herjólf af í núverandi mynd og taka upp ferjusiglingar þá leiðina. Gera má ráð fyrir að þessi kostur hefði veruleg áhrif á flug til Bakka.


 4.  

 5. *Jarðgöng til Vestamannaeyja: Bygging jarðganga, sem að líkindum myndu þýða lok ferjusiglinga og áhrif á flug yrðu einnig veruleg.


 6.         1. *Efling flugsamgangna: Hér er um það að ræða að leitað yrði leiða til þess að efla flugsamgöngur milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur.


 7.  

Ljóst er að þekking, á þeim kostum sem nefndir eru, er orðin mjög mikil í flestum tilvikum. Það sem á vantar er einkum tengt tl. 3 sem snýr að ferjuhöfn og ferjusiglingum til Bakkafjöru. Einnig má segja að framtíð núverandi Herjólfs, sbr. tl. 1 og 2, þurfi að skoða ofan í kjölinn.

Hlutverk starfshópsins felst í gerð úttektar á þeim kostum sem hér hafa verið nefndir. Gera má ráð fyrir að ekki sé hægt að ljúka þeirri úttekt fyrr en upplýsingar um Bakkafjöruhöfn og grunnvalkosti vegna framtíðar Herjólfs liggja fyrir frá hendi Siglingastofnunar Íslands og Vegagerðinni. Starfshópurinn var skipaður eftir samráð við þingmenn Suðurkjördæmis. Það er von mín að áfram verði unnið að því að bæta samgöngur við Vestmannaeyjar og er til þess ríkur vilji hjá stjórnvöldum.