Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, fór í kynnisferð til Suður-Grænlands dagana 22.-25. júní s.l. ásamt fulltrúum samgönguráðuneytis, SAMIK, Flugfélags Íslands og Ferðamálaráðs. Tilgangur ferðarinnar var að hitta forsvarsmenn ferðaþjónustu og samgöngumála á svæðinu þar sem töluvert samstarf er á milli landanna í þessum málaflokkum.

SAMIK og samningur um flug til Suður-Grænlands
Í árslok 1994 var undirritað samkomulag um samstarf Íslands og Grænlands á sviði ferðamála, SAMIK, en í því er lögð áhersla á að auka skuli ferðalög á milli landanna innbyrðis og einnig til þeirra. Byggir það m.a. á markaðsrannsóknum sem sýna áhuga ferðamanna á að heimsækja bæði löndin samtímis. Samningurinn rennur út í lok næsta árs og því tímabært að skoða árangur þessa samstarfs og meta hvort því skuli haldið áfram.

Einnig er í gildi þriggja ára samningur íslenskra og grænlenskra stjórnvalda við Flugfélag Íslands um stuðning við flug á milli Reykjavíkur og Narsarsuaq í Suður-Grænlandi. Samningurinn gerir ráð fyrir að haldið sé úti flugi á sumrin. Samningstíminn er nú hálfnaður og hafa samgönguráðuneyti landanna óskað eftir upplýsingum frá Flugfélagi Íslands og frá ferðaskrifstofum sem selja ferðir á milli landanna, til að leggja megi mat á árangurinn og huga að framhaldinu.

Ferðamannaparadísin Suður-Grænland
Í ferðinni til Suður-Grænlands gafst samgönguráðherra kostur á að heimsækja Brattahlíð og skoða tilgátuhús af bæ Eiríks rauða og Þjóðhildarkirkju sem reist voru í tilefni 1000 ára landnáms Eiríks rauða í Grænlandi. Samgönguráðherra fór einnig til Igaliku – eða Garða – en þar var höfuðstaður og þinsetur norrænna manna á tímabilinu 1000 til u.þ.b. 1500 og skoðaði síðan rústir Hvalseyjarkirkju sem eru mjög vel varðveittar fornleifar frá tímum norrænna manna í Grænlandi. Salik Hard var leiðsögumaður í þessari ferð en hann er jafnframt stjórnarmaður í SAMIK og framkvæmdastjóri Destination South-Greenland sem er í eigu sveitarfélaga og fyrirtækja í ferðaþjónustu.

Samgönguráðherra kynnti sér einnig starfsemi Great Greenland sem kaupir skinn af selveiðimönnum um allt Grænland, sútar og fullvinnur til útflutnings en skinnin eru eftirsótt í tískufatnað um allan heim. Landbúnaðarrannsóknarstöðin í Upernaviarsuk var einnig skoðuð en þar er skóli fyrir verðandi sauðfjárbændur og gerðar gróðurrannsóknir. Mikill metnaður er í starfi stöðvarinnar og greinilegt að Grænlendingar hafa sama áhuga og Íslendingar á að græða og fegra land sitt.

Miklir möguleikar í frekara samstarfi
Narsaq og Qaqortoq eru stærstu bæjarfélögin á Suður-Grænlandi, í Narsaq eru 1700 íbúar og rúmlega þrjú þúsund í Qaqortoq. Ráðherra hitti bæjarstjórnir beggja bæjanna sem lögðu mikla áherslu á þýðingu flugsins á milli landanna og töldu mikla möguleika fyrir ferðaþjónustuna fólgna í þessu flugi en ekki síður fyrir íbúa Grænlands að komast áfram frá Íslandi á fjölda áfangastaða.

Niðurstaðan af ferð samgönguráðherra og fylgdarliðs til Suður-Grænlands er að í samstarfi landanna á sviði flugs, siglinga og ferðamála felist miklir möguleikar sem nýta þarf betur við kynningu landanna út á við og ekki síður í löndunum sjálfum. Í ljósi þessa verður því hafist handa við að endurskoða þá samninga sem í gildi eru og kanna fleiri fleti á samstarfi þessara vinaþjóða á sviði samgöngu- og ferðamála.