Fyrsti fundur flugráðs eftir að breytt var skipulagi flugmála var haldinn í dag, fyrsta febrúar. Gísli Baldur Garðarsson, formaður flugráðs, stýrði fundinum og bauð í upphafi Sturlu Böðvarsson samgönguráðherra velkominn. Fór hann yfir áhrif skipulagsbreytinganna á störf flugráðs.

Í lögunum um Flugmálastjórn Íslands, sem samþykkt voru á Alþingi síðastliðið vor, er kveðið á um hlutverk flugráðs sem er að vera ráðherra og flugmálastjóra til ráðuneytis um flugmál. Skal ráðið fjalla um stefnumótun í flugmálum, veita samgönguráðherra umsögn um tillögu samgönguráðs um samgönguáætlun, um lög og reglur er varða flugmál og fleira.

Samgönguráðherra sagði breytingarnar á skipan flugmála vera í takt við kröfur og eðlilega þróun á aðskilnaði stjórnsýslu og eftirlits annars vegar og rekstri hins vegar. Á fundinum fór ráðherra yfir nokkur atriði er snerta þann hluta samgönguáætlunar sem varða flugmál og verður senn lögð fram á Alþingi.