Samgönguráðherra er nú á Akureyri, en þar stendur yfir í dag og á morgun ársfundur Hafnasambands sveitarfélaga.
Í ávarpi sínu í morgun fór ráðherra nokkrum orðum um þá öld framkvæmda og framfara í flutningum á sjó og landi sem nú er að líða. Hann nefndi sem dæmi um hinar miklu breytingar sem orðið hafa á háttum þjóðar okkar, þ.e. frá árabátum til gámaskipa, frá vör til grjótgarða, stálþila og kröfu um níu metra dýpi í höfnum, og frá siglingu eftir stjörnum til staðasetningartækni gervihnatta.
Ráðherra fór nokkrum orðum um að framundan er áratugur breytinga hjá höfnum landsins með nýju skipulagi í flutningum. Hann sagði ljóst að endurnýjað og afkastameira vegakerfi muni breyta miklu í þjónustu hafnanna. Þróunin stefni í þá áttina að fáar og stórar flutningahafnir munu þjóna landinu öllu með auknum landflutningum. Jafnframt þessu munu fiskihafnirnar umhverfis landið nærri fiskimiðunum á grunnslóð keppa um löndun á afla og þjónustu við fiskiskipaflotann.
Ráðherra sagði að það væri við þessa framtíðar sýn sem við hljótum að staldra við og skipuleggja á breyttum forsendum starfsumhverfi íslenskra hafna á nýrri öld.
Hann fór yfir helstu verkefni samgönguráðuneytisins á sviði siglinga og hafnarmála, og sagði breytta gjaldskrá hafa gefið tóninn um það sem koma skal. Þá fór hann nokkrum orðum um samning um rekstur strandastöðva og tilkynningaskyldu fiskiskipa.
Í ávarpi sínu kom ráðherra jafnfram inn á endurskoðun hafnarlaga sem er í fullum gangi, hann fór nokkrum orðum um sjóvarnaáætlun sem lögð er fram á grundvelli nýrrra laga, en þar er gert ráð fyrir 75 milljónum króna á ári. Einnig ræddi ráðherra langtímaáætlun um öryggismál sjómanna.
Því næst ræddi ráðherra hafnaáætlun, og kom fram í máli hans að óskir hafnanna næmu 17,5 milljörðum, þar af væri því fyrirsjáanlegur ríkishluti 10,4 milljarðar.
Einnig nefndi hann fyrirsjáanleg verkefni við stóriðju og ferjuhafnir, og hve loðnuhafnirnar kölluðu á miklar framkvæmdir vegna dýpkunarþarfa.
Ráðherra undirstrikaði að fjárveitingar árið 2001 væru 1,386 milljarðar króna, sem væri veruleg hækkun frá yfirstandani ári.
Þá fjallaði hann stuttlega um samræmda samgönguáætlun undir formennsku Vilhjálms Þ Vilhjálmssonar.
Ný hafnalög eru í undirbúningi, og kom fram í máli ráðherra að grunnur breytinganna er krafa Samkeppnisráðs um að falla frá samræmdri gjaldskrá og að komið verði á virkri samkeppni, en í ávarpinu sagði ráðherra það valda sér vonbrigðum að nefndin skuli ekki hafa lokið störfum.
Ráðherra sagði ljóst að hagur hafnanna væri mismunandi, og að forsvarsmenn vöruhafnanna hljóti að átta sig á því að breytingarnar sem hafi orðið á flutningum kalli á að þær gefi eftir tekjur til fiskihafnanna, sem óneitanlega sitji efir með sína fjárfestingu í mannvirkjum en minni tekjur. Hann sagði það vera verkefni fundarmanna að ná sáttum um þetta og tryggja nýtingu auðlindanna á hagkvæmasta hátt með hagkvæmu flutningakerfi þar sem tekjurnar eru í eðlilegu samræmi við fjárfestinguna.